140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Eftir svo sem eins og hálftíma tökum við til umræðu fjárlög fyrir árið 2012, þar á meðal þskj. 390 sem er nefndarálit og breytingartillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar sem meðal annars lýtur að breyttum fjárframlögum til heilbrigðisþjónustunnar en það var það sem hv. þingmaður spurði um. Ég vek athygli hv. þingmanna á nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar, á bls. 95–102 í því skjali, þar sem bent er á hvað skortir að mati meiri hluta nefndarinnar og ég tek fram að núna, fjórða árið í röð, er hagræðingarkrafa til heilbrigðisþjónustu, til þjónustu við börn, ungmenni, fatlaða og aldraða helmingi lægri en til annarra þátta í stjórnsýslunni. (Gripið fram í.) Engu að síður — hv. þingmaður, ég er með orðið — er niðurskurðarkrafan nokkuð sver og hún er í frumvarpinu á velferðarráðuneytið upp á 2,3 milljarða kr. Eftir hálftíma eða svo fáum við tækifæri til að fara yfir tillögur fjárlaganefndar sem gera ráð fyrir því að 1.921 milljón til viðbótar verði veitt til velferðarmála. Þar er að finna meðal annars 140 millj. kr. framlag til Landspítalans til þess að opna deild sem verulega er kallað eftir á Landakoti fyrir aldraða og það eru mýmargar aðrar tillögur sem meiri hluti velferðarnefndar benti á og við fáum tækifæri til að ræða hér á eftir, í allan dag og inn í nóttina. Það er nokkuð merkilegt að ætla sér að taka fjárlagaumræðu (Forseti hringir.) í tveggja mínútna umræðum eins og hv. þingmaður ætlaði mér hér að gera. Ég biðst undan því en ég mun taka til máls hér í dag.