140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hafa hv. þingmenn vitnað í þann ágreining sem upp kom í stjórnarsamstarfinu í síðustu viku og fjölmiðlar hafa velt fyrir sér hvort samstarfið lifi ágreininginn af. Ágreiningur er vissulega til staðar (Gripið fram í.) en stjórnarliðar óttast ekki þann ágreining. Við hugsum fyrst og fremst um hag þjóðarinnar og mikilvægi stjórnarsamstarfs jafnaðarmanna. Við leggjumst einfaldlega yfir málið og finnum á því lausn.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ekki lokið ætlunarverki sínu sem er að reisa Ísland upp úr hruni efnahagslífs og samfélags. Verkið er komið vel á veg en leggja þarf lokahönd á brýn mál, ýta öðrum úr vör og koma uppskerunni í hús. Í okkar krefjandi verkefnum höfum við lagt áherslu á jöfnuð, á að verja velferðarkerfið og gæta félagslegs réttlætis eins og kostur er. Jafnframt þessu hefur náðst árangur í ríkisfjármálum sem tekið er eftir. [Kliður í þingsal.] Kjósendur fólu Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði mikilvægt umbótastarf. Við munum ljúka breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og ná sanngjarnri niðurstöðu. Endurskoðun stjórnarskrárinnar er komin vel á veg og verður lögð í dóm þjóðarinnar. Við munum ljúka aðildarviðræðum við ESB, efla atvinnulíf og vinna gegn atvinnuleysi, m.a. með afgreiðslu rammaáætlunar og áherslu á grænt hagkerfi og skapandi greinar. Við erum að leggja grunn að bættum lífskjörum barna og ungs fólks, nýju húsnæðiskerfi og nýju og betra almannatryggingakerfi.

Ég nefni hér nokkur dæmi um stór mál er varða hag þjóðarinnar og miklu skiptir, virðulegur forseti, að unnið verði út frá sjónarhóli jafnaðarmanna að þeim málum.

Leysanlegur ágreiningur (Forseti hringir.) innan stjórnarsamstarfsins mun ekki stöðva okkur við þessi verk. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)