140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér fannst áhugavert að hlusta hér á ræðu hv. stjórnarliða og formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, sem lýsti dásemdunum — (Gripið fram í: Þingflokksformanns.) já, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, lýsti dásemdum ríkisstjórnarinnar. Ég man eftir svona ræðu, það var í beinni útsendingu einu sinni í fréttatíma þegar blaðafulltrúi Saddams Husseins lýsti því að írakski herinn væri algjörlega að taka Bandaríkjamenn í gegn. Í baksýn voru skriðdrekarnir [Kliður í þingsal.] sem voru að fara þarna í — (Gripið fram í.) [Háreysti í þingsal.]

Ég spyr: Í hvers umboði er hæstv. ráðherra Jón Bjarnason? Í hvers umboði er hann? Það er kominn hér einn stjórnarliði sem er búinn að lýsa stuðningi við hann, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir benti nefnilega á eitt í ræðu sinni, það að ef taka ætti hæstv. ráðherra Jón Bjarnason sökum þess að vinnubrögð hans væru ekki nógu góð væri eðlilegt að taka aðra hæstv. ráðherra og fara aðeins yfir vinnubrögð þeirra. Ég minnist þess, virðulegi forseti, þegar hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði úr þessum stól tveim dögum áður en niðurstöður í Icesave-samningunum voru kynntar, þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði hann hvort það stæði til eða hvort það væri búið að skrifa undir Icesave-samningana, að því færi víðs fjarri. Ef menn ætla á annað borð að skoða vinnubrögð þessara ráðherra hvet ég til þess að (Forseti hringir.) þetta verði borið saman því að alveg eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir benti á (Forseti hringir.) er af nógu af taka þegar tala á um vinnubrögð viðkomandi hæstv. ráðherra.