140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég greiði þessari tillögu atkvæði mitt með mikilli ánægju og ég óska okkur til hamingju með þennan dag og þá samþykkt sem hér er verið að gera.

Við Íslendingar leggjum með þessu okkar litla lóð á rétta vogarskál. Óháð því hvort við teljum að þetta hafi meiri áhrif eða minni eigum við að gera þetta af því að það er svona sem við viljum hafa þetta. Þetta er rétt afstaða. Við eigum að taka afstöðu með og styðja réttmæta baráttu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti þjóða og fyrir mannréttindum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð fagnar þessum áfanga. Fyrir þessu höfum við lengi barist, þetta er okkar stefna og það er gleðilegt að aðstæður í íslenskum stjórnmálum skuli gera það að verkum að stundum geta svona hlutir gerst eins og nú eiga sér stað.

Ég þakka utanríkismálanefnd og utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, fyrir frumkvæði þeirra í þessu máli, og sendi Palestínumönnum okkar hlýjustu óskir á þessum degi. Við vonum að þetta litla lóð verði ásamt með öðru til þess að þeim og nágrönnum þeirra gangi betur að leysa sín mál.