140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er stór og söguleg stund. Það er ánægjulegt að sitja á Alþingi Íslendinga og geta tekið þátt í að samþykkja þingsályktun frá Alþingi Íslendinga og Íslendingum öllum um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

Hér hefur verið rætt um frumkvæði margra manna, m.a. frumkvæði hæstv. utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, sem er að gegna skyldustörfum erlendis. Það er rétt og það eru margir sem hafa haft mikið frumkvæði og við Íslendingar getum verið stolt af því. Ég minni á verk og vinnu fyrrverandi sendiherra okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, Thors Thors, sem leiddi nefnd sem fjallaði um sjálfstæði Palestínu og Ísraels. Hann leiddi það mál til lykta með magnþrunginni ræðu eins og sagt er í skjölum frá Sameinuðu þjóðunum. En það var þá, virðulegi forseti, að Ísraelsmenn fengu sjálfstæði en nú 62 árum síðar stöndum við á Alþingi Íslendinga og ræðum þessa þingsályktunartillögu. Ísraelsmenn fengu nefnilega fullveldi þá en Palestínumenn ekki. Því er það með mikilli gleði og stolti sem ég segi já við þessari tillögu okkar Íslendinga. Við erum enn einu sinni að stíga framfaraspor.