140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð á pöllum, gefið ræðumanni hljóð.)

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012. Nefndin hóf störf 5. október síðastliðinn og hefur við afgreiðslu frumvarpsins haldið 24 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila, m.a. fulltrúa ráðuneyta, Ríkisendurskoðunar, stofnana og sveitarfélaga. Nefndin óskaði bréflega eftir álitum fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins sem varða málefnasvið hverrar um sig. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu.

Fjárlaganefnd hefur unnið í samvinnu við fagráðuneyti að breyttu fyrirkomulagi við úthlutun styrkveitinga sem kynnt var í frumvarpinu. Markmiðið með þessum breytingum er að gera úthlutun fjármuna á vegum ríkisins gagnsærri en verið hefur og auka þannig traust á því ferli sem liggur að baki því hvernig fjármunum ríkisins er skipt á einstök verkefni. Gert er ráð fyrir að Alþingi hætti úthlutunum á styrkjum til ýmissa verkefna á vegum félaga, samtaka og einstaklinga en úthlutunin mun flytjast til lögbundinna sjóða, menningarráða landshluta, ráðuneyta eða annarra sem sjá um eða bera ábyrgð á fjárveitingum til viðkomandi málaflokka. Þessi breyting er liður í því að stuðla að skilvirkara verklagi við fjárlagagerð þingsins þannig að vinna fjárlaganefndar og umræður í þinginu geti beinst meira að markmiðum ríkisfjármála, heildarstærðum, forgangsröð og áherslum í málaflokkum.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 4.084,6 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta.

Tekjuáætlun frumvarpsins hljóðaði upp á 521,4 milljarða kr., en sú áætlun hefur nú verið lækkuð um 35 millj. kr.

Með breytingum á 5. gr. er annars vegar lögð til 1.600 millj. kr. lækkun á lánveitingum til hlutafélaga um vegaframkvæmdir í ljósi nýrrar áætlunar um lánsfjárþörf og hins vegar 10 þús. millj. kr. hækkun á heimild til veitingar ríkisábyrgðar á lántökum Landsvirkjunar til að mæta auknum fjárfestingum og auðvelda endurfjármögnun eldri skulda félagsins fyrir gjalddaga, gefist hagstæð tækifæri til þess.

Nokkrar breytingar eru lagðar til við 6. gr. frumvarpsins og þær stærstu eru að efla eigið fé Orkusjóðs um 100 millj. kr. og eigið fé Byggðastofnunar um allt að 2 milljarða kr.

Þá er gerð tillaga um heimild til að ganga frá uppgjöri og greiðslu til Landsbankans hf. vegna mismunar á eignum og innstæðuskuldbindingum SpKef sparisjóðs á grundvelli endanlegs eignamats. Sú heimild var samþykkt í fjáraukalögum ársins 2011.

Nokkur mál bíða 3. umr.

Frú forseti. Sú þjóðhagsspá sem liggur til grundvallar fjárlagafrumvarpinu 2012 gerir ráð fyrir 2,5% hagvexti á árinu 2011 og 3,1% hagvexti 2012. Í endurskoðaðri spá frá 24. nóvember síðastliðnum eykst hagvöxtur yfirstandandi árs lítillega en er áætlaður 2,4% á árinu 2012 þannig að hann er lækkaður nokkuð. Þjóðarútgjöld dragast saman um 0,4 prósentustig, aðallega vegna minni einkaneyslu, en fjármunamyndun er heldur meiri en gert var ráð fyrir í vor. Þá er spáð minni útflutningi, en reiknað er með áframhaldandi afgangi af jöfnuði vöru og þjónustu. Spáð er aukinni verðbólgu miðað við júníspá, þ.e. úr 3,7% á ársgrundvelli í 4,2%. Þá er spáð 6,5% hækkun á launavísitölu. Spáð er að gengi haldist nokkuð stöðugt.

Breyttar verðlags- og launaforsendur valda því að áætlaðar tekjur af tekjuskatti einstaklinga aukast um 1,5 milljarða kr. Hækkun launavísitölu hækkar skattstofn tekjuskatts og þar með áætlaðar tekjur meira en sem nemur lækkun skatttekna vegna hærri persónuafsláttar í ljósi spár um þróun verðlags 2011. Meiri hækkun launavísitölu hækkar einnig skattstofn til tryggingagjalds frá því sem var í eldri spá og því aukast áætlaðar tekjur af gjaldinu um 0,85 milljarða kr., enda spá um unnin ársverk óbreytt frá því sem áður var. Aukin verðbólga á næsta ári veldur því einnig að áætlaðar tekjur af virðisaukaskatti aukast um 500 millj. kr. Í heild hefur því uppfærð hagspá jákvæð áhrif upp á 2,85 milljarða kr. á tekjuáætlun fjárlaga. Aðrar breytingar sem gerðar voru á tekjuáætlun fyrir 2. umr. sem tengjast ekki breytingum á þjóðhagsspá höfðu aftur á móti neikvæð áhrif á tekjuáætlun upp á 2,5 milljarða kr.

Breytingartillögur á tekjuhlið eru gerðar í samræmi við endurskoðaða hagspá og grunnáhrif vegna endurmats ársins 2011.

Frú forseti. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2012 er samið í samræmi við markmið áætlunar um þróun ríkisfjármála sem gefin var út í júní árið 2009. Ríkisfjármálastefnan hefur verið endurskoðuð samhliða undirbúningi fjárlagafrumvarpsins í vor og sumar. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar er sú að nú er ekki talin vera þörf fyrir að aðlögun ríkisfjármálanna þurfi að verða jafnmikil og ganga jafnhratt fram og gert var ráð fyrir þegar áætlunin var gerð sumarið 2009. Í endurmetinni áætlun hefur verið hægt á framgangi aðlögunarinnar þannig að markmið færast aftur um eitt ár og markmiði um afgang á heildarjöfnuði hefur verið seinkað til ársins 2014.

Kjarasamningar sem gerðir voru á árinu 2011 gilda almennt frá 1. maí 2011 til 1. mars 2014. Launahækkanir tóku í flestum tilvikum gildi þann 1. júní síðastliðinn og hækkuðu laun þá almennt um 4,25% auk eingreiðslna upp á 75 þús. kr. Árið 2012 verður hækkunin 3,5% og 3,2% árið 2014.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir þessum breytingum en nú er gerð tillaga um að bæta viðkomandi stofnunum kostnaðaráhrif af nokkrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið í haust eftir að gengið var frá samningum við velflest stéttarfélög opinberra starfsmanna. Þeir kjarasamningar sem einkum er um að ræða eru við félög lækna og lögreglumanna og áhafna skipa og flugfarkosta. Fjárheimildir miðast við mat á viðbótarkostnaði vegna þessara kjarabreytinga umfram þá meðalhækkun sem þegar hefur verið gert ráð fyrir.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hækkun bóta á næsta ári verði 3,5% í samræmi við almenna prósentuhækkun í kjarasamningum á vinnumarkaði.

Í breytingartillögum er gert ráð fyrir viðbótarútgjöldum upp á 220 millj. kr. til að hægt verði að hækka alla bótaflokka um 3,5% og einnig eru útgjöld til atvinnuleysistrygginga aukin um 620 millj. kr. vegna endurskoðaðrar atvinnuleysisspár.

Hér á eftir, frú forseti, fara skýringar á breytingartillögum meiri hlutans við sundurliðun 2 í fjárlagafrumvarpinu og mun ég nú fjalla um þær helstu.

Liður æðstu stjórnar ríkisins hækkar um rúmar 350 millj. kr. Lagt er til að fjárheimildir Alþingis verði auknar um 144 millj. kr. vegna viðbótarfjárveitingar til fastra greiðslna til alþingismanna, tveggja stöðugilda á nefndasviði, tímabundins framlags til alþjóðastarfs og tímabundins framlags til hlutlausrar upplýsingaveitu um Evrópusamstarf í samræmi við tillögu meiri hluta utanríkismálanefndar.

Þá er lagt til tímabundið framlag til að halda áfram fornleifauppgreftri á Alþingisreitnum.

Gerð er tillaga um 140 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár fyrir rannsóknarnefndir Alþingis. Rannsóknarnefndirnar voru stofnaðar samkvæmt lögum nr. 68/2011 og tóku tvær nefndir til starfa 1. september 2011, rannsóknarnefnd um starfsemi sparisjóða og rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð.

Lögð er til 37,1 millj. kr. fjárveiting á lið ríkisstjórnarinnar vegna fjölgunar aðstoðarmanna ráðherra á grundvelli 22. gr. nýrra laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.

Þá er lagt til að framlag til umboðsmanns Alþingis hækki um 22,7 milljónir vegna aukinna verkefna.

Lagt er til að framlög til mennta- og menningarmálaráðuneytis hækki um 927,6 millj. kr. Lagt er til að veitt verði 250 millj. kr. framlag í aldarafmælissjóð Háskóla Íslands í tilefni af 100 ára afmæli skólans. Ríkisstjórnin samþykkti 7. október 2011 að gera tillögu um framlag í sjóðinn. Í frumvarpi til fjáraukalaga 2011 var lagt til 150 millj. kr. stofnframlag til sjóðsins. Sérstakur starfshópur, skipaður fulltrúum frá Alþingi, forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Háskóla Íslands, var settur á fót og hefur hann metið og gert tillögur um framlög í aldarafmælissjóðinn á árunum 2012–2020. Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir og nýsköpun sem nýtast muni til uppbyggingar atvinnulífs og verðmætasköpunar í þágu íslensks samfélags og þjóðar. Stjórnvöld hafa samþykkt að veita 1.500 millj. kr. í sjóðinn á tímabilinu 2011–2014. Framlagið skiptist þannig: 150 millj. kr. árið 2011, 250 millj. kr. árið 2012, 400 millj. kr. árið 2013 og 700 millj. kr. árið 2014. Jafnframt var samþykkt að á árinu 2013 yrði unnin áætlun um framlög í aldarafmælissjóðinn fyrir árin 2015–2020 með hliðsjón af hagvexti hér á landi og stöðu ríkisfjármála.

Lögð er til hækkun fjárheimildar Háskóla Íslands um 225 millj. kr., Hólaskóla um 2,5 millj. kr., Háskólans á Akureyri um 22,5 millj. kr. og Landbúnaðarháskóla Íslands um 3,5 millj. kr. Þessar heimildir eru fjármagnaðar með hækkun skrásetningargjalda í 60 þús. kr. fyrir hvert skólaár. Ólíkt því sem á við um flestöll önnur gjöld fyrir opinbera þjónustu hafa skrásetningargjöld ríkisrekinna háskóla ekki verið hækkuð frá árinu 2005 þrátt fyrir að allur tilkostnaður við reksturinn hafi aukist verulega vegna launa- og gengishækkana og almennra verðhækkana á aðföngum frá þeim tíma og hefur hlutdeild skrásetningargjalda í fjármögnun skólanna þar með orðið minni. Lagðar voru til breytingar á lögum um opinbera háskóla til samræmis við þessa tillögu. Eru þessi fjárframlög mikilvæg til þess að skólarnir geti tekist á við aukinn nemendafjölda.

Lögð er til 30 millj. kr. fjárveiting til að efla Nýsköpunarsjóð til að tryggja fleiri háskólanemum styrki til rannsóknar- og þróunarverkefna sem líkleg þykja til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja.

Gerð er tillaga um 25 millj. kr. stofnkostnaðarframlag vegna fyrirhugaðrar stækkunar á verknámsaðstöðu við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Vinnu við þarfagreiningu vegna fyrirhugaðrar stækkunar aðstöðunnar er lokið. Í niðurstöðu greiningarinnar er gert ráð fyrir að heildarstærð verknámshúsnæðis verði 2.860 fermetrar. Núverandi verknámsaðstaða er 1.230 fermetrar. Aðildarsveitarfélögin hafa safnað 130 millj. kr. í sjóð til byggingarinnar sem verða notaðar til að fjármagna undirbúning og hönnun. Með fyrirvara um útfærslu má gera ráð fyrir að heildarkostnaður við slíkt hús nemi um 650 millj. kr. og að hlutur ríkissjóðs næmi þá um 390 millj. kr. Framlag ríkisins miðað við framangreint gæti því numið um 25 millj. kr. á árinu 2012, 275 millj. kr. árið 2013 og 90 millj. kr. árið 2014.

Þá er lagt til að veitt verði 39,5 millj. kr. til jöfnunar á námskostnaði til að tryggja að ekki þurfi að lækka námsstyrki á yfirstandandi skólaári.

Frú forseti. Framlög til utanríkisráðuneytis hækka um 159,6 millj. kr. Gerð er tillaga um 16,8 millj. kr. tímabundna fjárheimild til fjögurra ára til Samræmingarmiðstöðvar norðurslóðamála eða samtals 67,2 millj. kr. á árunum 2012–2015. Utanríkisráðuneytið leiðir þessa samræmingu í samvinnu við umhverfisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Markmiðið er að skapa samstarfsvettvang norðurslóðasamtaka og stofnana og styðja við rannsóknir og upplýsingamiðlun um norðurslóðamál. Verkefnið er í samræmi við norðurslóðastefnu Íslands sem samþykkt var í mars 2011 og er eitt af sóknaráætlunarverkefnum landshluta.

Lagt er til að framlög til friðargæslu Sameinuðu þjóðanna verði hækkuð tímabundið um 89,2 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir að heildarframlög til hennar á árinu 2012 verði 430,5 millj. kr. en í frumvarpinu var gert ráð fyrir 341,3 millj. kr. Stafar þessi hækkun af auknum verkefnum friðargæslunnar sem tengjast meðal annars stofnun tveggja nýrra friðargæslusveita í Suður-Súdan og verkefnis í Líbíu sem líklegt þykir að verði samþykkt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á næstu mánuðum.

Framlög til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis hækka um 8 millj. kr. og framlög til innanríkisráðuneytis hækka um 1.097,4 millj. kr. Gerð er tillaga um 200 millj. kr. fjárveitingu til Landhelgisgæslunnar vegna tímabundinnar leigu á þyrlu. Vegna reglubundins og meiri háttar viðhalds TF-LÍF á næsta ári verður aðeins ein þyrla starfhæf til leitar og björgunarstarfa í allt að 16–22 vikur á næsta ári. Kostnaðurinn við skoðunina sjálfa er áætlaður um 250–300 millj. kr. og verður uppsafnaður rekstrarafgangur Landhelgisgæslunnar sem myndast hefur vegna sérverkefna erlendis notaður til að fjármagna skoðunina.

Gerð er tillaga um 135 millj. kr. fjárheimild til Vegagerðarinnar á liðinn Styrkir til ferja og sérleyfishafa vegna aukinnar fjárþarfar við rekstur Herjólfs þar sem forsendur fyrir rekstrinum hafa ekki gengið eftir. Gert var ráð fyrir níu manna áhöfn með siglingum til Landeyjahafnar en þegar þurfti að taka upp siglingar til Þorlákshafnar varð að fjölga aftur í áhöfn um þrjá menn. Ekki verður hægt að fækka í áhöfn nema siglingar verði varanlegar í Landeyjahöfn. Kostnaðarauki af fjölgun í áhöfn er um 70 millj. kr. Þá hefur hafnarkostnaður í rekstri einnig aukist frá fyrri forsendum þar sem í dag eru reknar þrjár hafnir í stað tveggja. Leiga og rekstur Landeyjahafnar lækkar ekki meðan siglingar fara um Þorlákshöfn, og í Þorlákshöfn var þörf á að gera samninga þannig að höfnin gæti áfram tekið á móti Herjólfi. Kostnaðarauki er um 15 millj. kr. Þá er olíunotkun töluvert meiri en gert hefur verið ráð fyrir vegna lengri siglingaleiðar og er sá kostnaðarauki áætlaður 50 millj. kr. á ársgrundvelli.

Lagt er til að veitt verði 150 millj. kr. hækkun til Vegagerðarinnar á framlagi til reksturs almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli samnings um tíu ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Náist samkomulag til tíu ára um þá frestun stórframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu mun þetta verkefni verða að veruleika. Framlagið er viðbót við 200 millj. kr. framlag sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, en á móti er lagt til að liður 06-651-5.10 lækki um 50 milljónir og liðurinn 06-651-6.10 um 100 milljónir.

Gerð er tillaga um 300 millj. kr. tímabundið framlag á framkvæmdalið Vegagerðarinnar til að endurbyggja brúna yfir Múlakvísl. Gert er ráð fyrir að byggð verði sams konar brú og tók af í hamfaraflóðinu sem orsakaðist af eldsumbrotum í Grímsvötnum fyrr á þessu ári. Samkvæmt kostnaðaráætlun er endurstofnvirði slíkrar brúar 380 millj. kr. en því til viðbótar er gert ráð fyrir 100 millj. kr. til að tengja brúna að nýju við vegakerfið og 50 millj. kr. til að endurgera varnargarða á svæðinu. Samtals er því kostnaðaráætlunin að fjárhæð 530 millj. kr. en á móti kemur hlutur Viðlagatryggingar sem er áætlað að verði rúmar 200 millj. kr.

Lagt er til að fjárveiting til liðarins Hafnarframkvæmdir vegna Landeyjahafnar verði aukin um 144 millj. kr. og að heildarfjárveiting á árinu 2012 verði því 244 millj. kr.

Frú forseti. Lagt er til að framlög til velferðarráðuneytis hækki um 1.920,9 millj. kr. Lagt er til að fjárhæðir eftirtalinna bótaflokka almannatrygginga hækki um 3,5% 1. janúar nk.: Mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, barnalífeyrir vegna menntunar, frekari uppbætur, bifreiðakostnaður og barnalífeyrir. Viðbótarútgjöld vegna hækkunarinnar nema samtals 220 milljónum.

Lagt er til að fallið verði frá áformum um að breyta forsendum fyrir útreikningi á aldurstengdri örorkuuppbót. Áætlað var að ná fram 200 millj. kr. lækkun útgjalda með þeirri aðgerð. Þess í stað er lagt til að frítekjumörk verði ekki hækkuð um næstu áramót um 3,5%, en fjárhæðir bóta munu hækka um þá hundraðstölu. Með þeirri aðgerð áætlar Tryggingastofnun að útgjöldin verði um 208 millj. kr. lægri en ella. Í fjárlagakerfinu er þetta útfært með þeim hætti að fjárhæðinni er skipt í hlutföllum á bótaflokka grunnlífeyris og tekjutryggingar elli- og örorkulífeyris.

Lögð er til 120 millj. kr. hækkun á hagræðingarkröfu almennra lyfja. Samanlögð krafa á almenn og S-merkt lyf mun þá nema 306,9 millj. kr. Svigrúmið á að nota til að milda áhrif hagræðingaraðgerða á sjúkraþjálfun og tæknifrjóvgun. Frá hruni hafa útgjöld til sjúkraþjálfunar verið skert í tvígang sem þýðir að útgjöld vegna sjúkraþjálfunar lækkuðu um 18% að raungildi frá 2008 til 2010.

Lagt er til að 140 millj. kr. verði varið til að efla tannheilsu og tannvernd barna og ungmenna á liðnum Sjúkratryggingar, tannlækningar. Fjármunirnir verða nýttir til að fylgja eftir markmiðum heilbrigðisáætlunar og aðgerðaáætlunar til að styrkja stöðu barna og ungmenna þar sem kveðið er á um að tannvernd barna verði bætt með forvarnaaðgerðum og niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna þannig að þær nemi allt að 75% af kostnaði.

Gerð er tillaga um 455 millj. kr. viðbótarfjárheimild til umboðsmanns skuldara. Tilefnið skýrist af því að óvissa hefur ríkt um þróun kostnaðar hjá umboðsmanni skuldara allt frá því að stofnunin var sett á fót árið 2010. Málafjöldi reyndist mun meiri og úrlausnarefni tímafrekari en áætlað var. Alls hafa stofnuninni borist 3.774 mál frá því að hún tók til starfa og gert er ráð fyrir að þau verði um 4 þús. í árslok 2011. Búið er að taka afstöðu til tæplega 2 þús. mála, þar af eru 1.454 komin til vinnslu hjá umsjónarmönnum. Búist er við að í árslok 2011 verði 1.600–1.700 mál til viðbótar tilbúin til þess að fara í vinnslu hjá umsjónarmönnum sem þýðir að liðlega 3 þús. mál verða í vinnslu hjá umsjónarmönnum á árinu 2012. Skrifstofa fjárlaga í velferðarráðuneytinu hefur farið yfir endurskoðaða rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2012. Áætlunin gerir ráð fyrir heildarútgjöldum að fjárhæð 1.050 millj. kr. Hækkunin skýrist af því að stofnunin hyggst ráðast í stórátak til að ljúka afgreiðslu á meginhluta þeirra mála sem eru tilbúin til meðferðar hjá umsjónarmönnum. Til þess þarf að fjölga umsjónarmönnum tímabundið með tilheyrandi kostnaði. Gangi átakið eftir mun umfang stofnunarinnar minnka strax á síðari hluta árs 2012 og dragast verulega saman á árinu 2013. Útgjöld stofnunarinnar eru fjármögnuð með gjaldtöku af fjármálastofnunum og gerir tillagan því ráð fyrir að sú gjaldtaka verði aukin sem þessu nemur.

Gerð er tillaga um lækkun hagræðingarkröfu á fjárlagaliðum heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa um 391,2 millj. kr. Þessi tillaga er unnin af velferðarráðherra en ráðuneyti hans hefur verið í nánu samráði við stjórnendur stofnana og starfsfólk þeirra. Sem fyrr er megináhersla á að tryggja að stofnanir hafi svigrúm til að veita þá þjónustu sem lög um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir og að öryggi landsmanna sé tryggt.

Hefur nú á síðasta ári aðlögunar verið sérstaklega metið hvort of hart sé gengið að stofnunum og metið hvort fyrirhugaðar aðhaldsaðgerðir skiluðu raunverulegum sparnaði í kerfinu, þ.e. að breyting tiltekinnar starfsemi flytti ekki kostnað til dæmis til Sjúkratrygginga Íslands án þess að um aukna hagkvæmni væri að ræða. Auk þess var horft til þess hvort kostnaður ykist hjá sjúklingum. Loks var áríðandi að hafa í huga fyrirhugaðan flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga og brýnt að búa svo um hnútana að aðgerðir lytu fremur að því að liðka fyrir þeim flutningi.

Lækkun á aðhaldskröfu skiptist þannig að gerðar eru tillögur um 32 millj. kr. lækkun til Sjúkrahússins á Akureyri, 139,7 millj. kr. til Landspítala, 45,1 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, 6,8 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði, 17,6 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, 13,9 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, 23,6 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki, 20,4 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, 26,2 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Austurlands, 20,2 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og 22,9 millj. kr. lækkun á aðhaldskröfu til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Að lokum er lögð til 23 millj. kr. lækkun á aðhaldskröfu á heilbrigðisstofnanir, almennan rekstur, þar sem ekki hefur gefist tækifæri til að fara yfir rekstur og starfsemi tveggja heilbrigðisstofnana af hálfu velferðarráðuneytisins, þ.e. Heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar og Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands.

Lagt er til að fjárheimild í Atvinnuleysistryggingasjóð verði hækkuð um 620 millj. kr. vegna endurmats á útgjöldum.

Frú forseti. Lagt er til að fjárheimildir fjármálaráðuneytis verði lækkaðar um 316,4 millj. kr. Gerð er tillaga um 2 milljarða lækkun á fjárheimild ófyrirséðra útgjalda. Tillagan er gerð í ljósi þess að forsendur nær allra kjarasamninga við félög ríkisstarfsmanna liggja nú fyrir og hafa verið metnar inn í fjárveitingar viðkomandi stofnana og því er talsvert minni óvissa um þær forsendur fjárlaganna en ella.

Gerð er tillaga um 1.568,6 millj. kr. fjárheimild á liðnum Ófyrirséð útgjöld til að unnt verði að bæta viðkomandi stofnunum kostnaðaráhrif af nokkrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið í haust eftir að gengið var frá samningum við velflest stéttarfélög opinberra starfsmanna, eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni.

Lagt er til að fjárheimildir iðnaðarráðuneytis verði hækkaðar um 276,5 millj. kr. Gerð er tillaga um að fjárveiting til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi verði hækkuð um 246,5 millj. kr., þ.e. úr 153,5 milljónum í 400 millj. kr.

Þá er lagt til að veitt verði 30 millj. kr. fjárveiting til niðurgreiðslna á húshitun íbúðarhúsnæðis til þess að hægt verði að ráðast í lagningu hitaveitu frá Reykjum við Húnavelli að Skagaströnd. Verkefnið er hluti af Sóknaráætlun fyrir Norðurland vestra.

Lagt er til að fjárheimildir efnahags- og viðskiptaráðuneytis hækki um 103,5 millj. kr. Gerð er tillaga um 50 millj. kr. tímabundið framlag til ýmissa verkefna fastanefnda til að fjármagna eftirlitsnefnd um skuldaaðlögun. Lagt verður fram frumvarp til framlengingar á gildistíma laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, þar sem gert er ráð fyrir að efnahags- og viðskiptaráðherra verði heimilt að framlengja starfstíma eftirlitsnefndar sem tilgreind er í 4. gr. laganna.

Lagt er til að fjárheimild fyrir Hagstofu Íslands hækki um 55 millj. kr. vegna gagnagrunns um fjárhagsstöðu fyrirtækja og heimila og vegna fyrirtækjaskrár til hagskýrslugerðar. Þar af er 20 millj. kr. tímabundinn kostnaður árið 2012 við að koma verkefninu af stað sem lækkar í 10 millj. kr. árið 2013 og fellur niður árið 2014. Varanlegar fjárheimildir eru 25 millj. kr. til að afla gagna um skuldir heimilanna og 10 millj. kr. til að afla gagna um skuldir fyrirtækja.

Frú forseti. Lagt er til að fjárheimildir umhverfisráðuneytis hækki um 147,7 millj. kr. Má þar nefna tillögu um 10 millj. kr. framlag til Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og 19 millj. kr. fjárveitingu til Vatnajökulsþjóðgarðs.

Lagt er til að náttúrustofum Neskaupstaðar, Vestmannaeyja, Bolungarvíkur, Stykkishólms, Sauðárkróks, Sandgerðis og Húsavíkur verði veitt 6,4 millj. kr. framlag til hverrar. Viðbótarframlagið verði sett inn í samning milli sveitarfélags hverrar náttúrustofu og umhverfisráðuneytisins þannig að framlag sveitarfélagsins verði 30% af heildarframlagi ríkisins, þ.e. af framlagi ríkisins til rannsókna og rekstrar. Jafnframt verði tilgreint í samningnum hvaða rannsóknum náttúrustofan muni sinna fyrir þetta viðbótarframlag sem og hvernig aðgangi og skilum hennar á rannsóknargögnum til ráðuneytisins og stofnana þess skuli háttað.

Frú forseti. Lagt er til að vaxtagjöld ríkissjóðs verði lækkuð um 591 millj. kr. Endurmat á áætlun í nóvember um vaxtagjöld ríkissjóðs árið 2012 felur í sér að útgjöldin verði heldur lægri en gert var ráð fyrir í frumvarpinu, eða sem nemur 591 millj. kr. á rekstrargrunni og 419 millj. kr. á greiðslugrunni. Í frumvarpi til fjárlaga voru vaxtagjöld áætluð 78.400 millj. kr. en þau eru nú áætluð 77.800 millj. kr.

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema tæplega 5 milljörðum kr. til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta. Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur verði rétt rúmlega 500 milljarðar kr. sem er óveruleg lækkun frá frumvarpinu. Heildarjöfnuður verður neikvæður sem nemur 22,1 milljarði kr. og frumjöfnuður verður jákvæður um 34,6 milljarða.

Eins og áður var vikið að bíða nokkur mál 3. umr.

Undir nefndarálit meiri hluta rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Björn Valur Gíslason, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Björgvin G. Sigurðsson og Árni Þór Sigurðsson. Við leggjum til að þessar tillögur verði samþykktar. Að lokum vil ég þakka hv. fjárlaganefnd fyrir mjög gott samstarf og þann umbótaanda sem þar ríkir.