140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Talað var um mikilvægi þess að virða samninga og auka tekjur ríkissjóðs. Ég veit ekki betur en að Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafi barist mikið fyrir því að ríkisstjórnin virði samninga og minni ég þá á stöðugleikasáttmálann sem gekk einmitt út á það að auka tekjur samfélagsins og ríkisins í framhaldinu. Ég held að menn hafi verið mjög samkvæmir sjálfum sér hvað það varðar.

Við töluðum líka um hækkandi bætur. Öryrkjar mættu á fund velferðarnefndar í gær og fóru í gegnum það hversu mikið bætur hafa „hækkað“ hjá þeim. Samkvæmt útreikningum þeirra hafa þeir orðið fyrir allt að því 23% skerðingu frá því eftir hrun. Við skulum bara tala íslensku hvað það varðar. Það er ástæðan fyrir því að fulltrúar vinnumarkaðarins, ASÍ, studdir af Samtökum atvinnulífsins, berjast fyrir þeim sem lakast standa og þeir segja að verði ekki staðið við gefin loforð (Forseti hringir.) verði því mætt af fullri hörku. En ég spyr enn á ný: Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við því?