140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og fyrirspurnina. Ég tek undir þær athugasemdir sem hv. þingmaður hefur um það. Ég held þó að þingsköp gefi tilefni til að vinna málið á þann hátt sem gert var í fjárlaganefnd, þ.e. þjóðhagsspáin kom út klukkan níu að morgni, fundað var um hana um þrjúleytið um daginn, hálftíma til klukkutíma fundur, þar með átti því að vera lokið. Við fengum síðan fjármálaráðuneytið inn degi síðar, sama dag og við tökum málið út ef ég man þetta rétt. Það var upplýst að fjárlaganefnd fengi ekki umsögn frá efnahags- og viðskiptanefnd. Við hefðum haft gott af því að fá slíka umsögn og ræða hana. Við höfum heldur ekki sent efnahags- og viðskiptanefnd umsagnir okkar um einstök mál og ég veit raunar ekki hvort eftir því hefur verið leitað.

Ég bendi á, og tek undir með hv. þingmanni, að fyrirkomulagið sem gert er ráð fyrir í gildandi þingsköpum er að mínu mat brogað og því ber að breyta. Ég taldi ágæta sátt um það í fjárlaganefnd, þverpólitíska, að það verklag sem þar er lagt upp gengur einfaldlega ekki miðað við þá praktík sem við höfum stundað. Ég er raunar undrandi á því að við skulum ekki vera búin að breyta þessu nú þegar. Yfirferðin um tekjuhluta eða tekjugreinina hefði að mínu mati mátt vera miklu ítarlegri, við hefðum þurft að gefa henni lengri tíma.