140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það er annað sem mig langar að beina til hv. þingmanns. Okkur hefur greint aðeins á um þá nýju framkvæmd sem á að taka við varðandi safnliðina. Mér hefur fundist hv. þingmaður kannski bjartsýnni á það hvernig til mundi takast og að hægt væri að koma þessu í ágætan farveg. Ég hef hins vegar haft miklar efasemdir um þessa nýju framkvæmd og gagnrýnt það mjög harðlega að hluti safnliða sé einfaldlega færður inn í ráðuneytin til þeirra embættismanna sem þar eru. Ég tel þá hvorki hæfari né faglegri en þingmenn sem hafa góða yfirsýn yfir verkefni af þessu tagi.

Hv. þingmaður kom hér inn á athugasemdir varðandi Austurland, eða tölvupóst sem barst okkur, þingmönnum kjördæmisins, þar sem gagnrýnd eru, og það harðlega, þau vinnubrögð að leita álits allra sveitarstjórnarfulltrúa á Austurlandi sem eyddu í það miklum og dýrmætum tíma með fylgjandi kostnaði. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að nú þurfi að gera ítarlega úttekt og fara yfir það verklag sem á að viðhafa hvað varðar safnliðina á fjárlögum og hvort ekki sé nauðsynlegt — ég veit að þingmaðurinn hefur kallað eftir því — að við fáum það algjörlega á hreint hvernig sú vinna eigi að fara fram.