140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Aðeins varðandi safnliðina sem hér eru gerðir að umtalsefni, þá er ég í stuði líka út af þeim. Ég hef verið þeirrar skoðunar, það er einfaldlega þingmeirihluti fyrir því, að breyta þessu verklagi. Ég skal vera fyrstur manna til að taka undir þörfina á því. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við höfum ekki undirbúið þetta verk nægilega vel, þ.e. að við hefðum þurft að vera fyrr á ferðinni með regluverkið sem átti að taka við. Við höfum skapað óþarfa óvissu um þetta með þessu lagi og ég tek undir athugasemdir hv. þingmanns, við höfum ekki enn fengið heildarmyndina af þessu dæmi.

Við höfum líka, í þeirri vinnu sem við höfum verið í undanfarnar vikur í fjárlaganefnd, séð áform einstakra ráðherra sem samkvæmt nýja fyrirkomulaginu eiga að hafa úrslitavald um ráðstöfun þess fjár sem verður markað á safnliðum, við höfum séð þar birtast áherslur í nokkrum ráðuneytum í þá veru að koma inn á fjárlagaliði nú þegar — ég bið hv. þm. Þór Saari að taka sérstaklega eftir þessu. Við höfum nú þegar séð áherslur frá hv. ráðherrum í tillögugerð þeirra til fjárlaganefndar um að bjarga fyrir horn tilteknum verkefnum sem áður voru á safnliðum inn í fasta fjárlagaliði. Ég held því fram að ef við munum eiga þetta á hættu í nýja regluverkinu verði þessum málum betur komið hjá þinginu en þarna úti. Ég kalla hins vegar eftir að regluverkið verði þannig að hlutir af þessu tagi geti ekki gerst.

En meðan við ekki höfum séð það (Forseti hringir.) þá get ég ekki lagt endanlega blessun mína yfir þetta breytta verklag.