140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar í framhaldi af ræðu hv. þingmanns aðeins að ítreka ákveðin atriði. Vegferð þessarar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum er að ná niður halla til að hægt sé að byrja að greiða niður skuldir í stað þess að safna þeim. Með því að byrja að niðurgreiða skuldir drögum við úr vaxtagjöldum og rýmið fyrir útgjöld, t.d. til heilbrigðismála, eykst.

Hv. þingmaður talaði töluvert um hagvöxt. Ég tek undir það að hann er mikilvægur, en það urðu svo gríðarleg skakkaföll fyrir hagkerfið með hruni, (Gripið fram í.) bæði fyrir heimilin og ekki síður fyrirtækin, sem eru þær einingar sem í hagvaxtarskilningi skapa verðmæti. Það hefur gengið illa að koma fjárfestingum fyrirtækja í gang, ég tek undir það, enda voru mörg þeirra nánast óstarfhæf vegna skulda og eftirspurn dróst mikið saman í hagkerfinu.

Nú er hagur að vænkast og spáð er 2,5% hagvexti á næsta ári þrátt fyrir alla síbylju um að allt sé svo ómögulegt. Til að hagvöxtur verði raunverulegur þarf að gæta að heilbrigðum ríkisfjármálum, og þá þýðir ekkert að boða einhvers konar Berlusconi-pólitík þar sem skattahækkunum er hafnað og menn hafa ekki pólitískan kjark til niðurskurðar, t.d. í heilbrigðismálum.

Herra forseti. Ég kom reyndar hér upp, þó að formálinn hafi verið ótrúlega langur, út af breytingartillögu hv. sjálfstæðismanna í nefndinni, vildi þakka framsögumanni þeirra fyrir þessa tillögu og óska eftir því að við getum rætt hana í nefndinni, því að ég tel hana (Forseti hringir.) til fyrirmyndar. Það er mjög eðlilegt að nefndin nái þannig tilhögun á þessari tillögu að við getum stutt hana í sameiningu.