140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Það er langt og ítarlegt og óvíst hvort ég get rennt yfir það allt á þeim tíma sem mér er skammtaður. Mig langar samt að segja, í ljósi orða síðasta ræðumanns, að ég minnist þess að árið 2007, þegar Framsóknarflokkurinn var í stjórnarandstöðu og Sjálfstæðisflokkur og Samfylking voru í þann mund að keyra þjóðfélagið fram af hengifluginu, lögðum við til að hægt yrði á í ríkisfjármálum, en ég ætla ekki að fara í hártoganir við hv. þingmann um þetta.

Annar minni hluti mun í álitinu leggja fram tillögur sem byggjast á hófsamri og ábyrgri miðjustefnu sem og efnahags- og atvinnumálatillögum Framsóknarflokksins frá því í haust. Útfærðar eru leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs, örva hagvöxt og koma hjólum atvinnulífsins af stað. Þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og byggjast á hugmyndafræði vinstri flokka hafa því miður leitt af sér minni hagvöxt, rýrari tekjur og kólnun hagkerfisins enn eitt árið.

Hvað útgjaldahliðina varðar vill 2. minni hluti leitast við að vernda velferðarkerfið. Í fjárlögum fyrir árið 2011 var gengið nærri heilbrigðiskerfi landsmanna og lagt af stað í grundvallarbreytingar á því án þess að fyrir lægi stefna og áætlun um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar. Ekki var heldur gerð gangskör að því að gera úttekt á byggðarlegum áhrifum niðurskurðarins þrátt fyrir loforð í þá veruna. 2. minni hluti telur að útilokað sé að ganga lengra í boðuðum niðurskurði gagnvart heilbrigðisþjónustu landsmanna án þess að skaða kerfið varanlega. 2. minni hluti hafnar því þeim sífelldu tillögum sem ríkisstjórnin leggur til um gjörbyltingu í heilbrigðiskerfinu með auknum niðurskurði þess og leggur jafnframt til að hluti hans á síðasta ári verði bættur. Þá er í tillögum 2. minni hluta komið til móts við þá tekjulægstu í þjóðfélaginu, atvinnulausa, öryrkja og ellilífeyrisþega, þannig að þeir fái umsamdar hækkanir í samræmi við kjarasamninga. Einnig er lagt til að komið verði sérstaklega til móts við ungt barnafólk með hækkun barnabóta.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012, sem lagt var fram í byrjun haustþings, byggðist á forsendum sem almennt var ljóst að ekki mundu standast. Gert var ráð fyrir 3,1% hagvexti á árinu 2012 í þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júní en í endurskoðaðri spá frá því nú í nóvember er gert ráð fyrir 2,4% hagvexti. Þess ber að geta að í hagvaxtarspám ASÍ og Seðlabankans er gert ráð fyrir mun minni hagvexti en Hagstofan gerir í þjóðhagsspá sinni.

Að mati 2. minni hluta einkennast forsendur um að atvinnuvegafjárfesting aukist um 19% á næsta ári af bjartsýni. Má í því sambandi minna á áform stjórnvalda um kolefnisskatt — sem reyndar hefur verið fallið frá — sem gæti sett áform um kísilverksmiðju í Helguvík í uppnám en þau eru stór áhrifavaldur í hagspánni. Í spánni er gert ráð fyrir framkvæmdum við fyrsta áfanga álvers í Helguvík á árinu 2013 en á þessari stundu er fullkomlega óljóst hvort sú tímasetning gengur eftir. Í hagspá Seðlabankans er til að mynda ekki reiknað með framkvæmdum við Helguvík fyrr en 2014 og hvorki Alþýðusamband Íslands né greiningardeild Arion banka gera ráð fyrir því verkefni í hagspám sínum.

Ríkisstjórnin setti sér markmið um hvaða árangri hún ætlaði að ná á árinu 2011. Hún setti fram meginmarkmið sem koma fram í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013. Þar kemur fram að ríkisstjórnin hafi gert áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum sem mörkuðu stefnu hennar á næstu árum í tekjuöflun fyrir ríkissjóð og var ætlað að setja útgjöldum hans skorður. Sem dæmi má nefna að talið var að hagvöxtur á árinu 2011 yrði um 4,4%. Það er miklu meiri hagvöxtur en spár gera ráð fyrir að verði nú á árinu. Þar var líka gert ráð fyrir að verðbólgan yrði komin niður í 1,7%. Á síðustu mánuðum hefur hún verið um 5,7% en nú er reiknað með að meðaltalsverðlag hækki um 4,1% 2011 og 4,2% árið 2012.

Þess ber að geta að ríkisstjórnin hefur, í ljósi þessa slælega árangurs, sett sér ný viðmið. Nú á til dæmis að ná markmiðum varðandi heildarjöfnuð á komandi árum. En ríkisstjórnin hefur að undanförnu einbeitt sér að hinum svokallaða frumjöfnuði og sagt að þar komi fram að ríkisstjórnin hafi staðið sig með hreinum ágætum. Ég gagnrýndi þetta mjög harðlega við 1. umr. þessa frumvarps og langar til að drepa niður fæti í umsögn Ríkisendurskoðunar frá 7. nóvember, um frumvarp til fjárlaga 2012, sem við ræðum hér, um fjáraukalög 2011, sem við höfum nýlega rætt, og um lokafjárlög 2010, sem koma væntanlega til umfjöllunar fljótlega.

Í kafla sem ber heitið Framsetning tekjuhalla segir:

„Í 1. gr. fjárlaga, rekstraryfirlit ríkissjóðs, eru notuð hugtökin heildarjöfnuður og frumjöfnuður. Þetta er hliðstætt því sem gert var í frumvarpi til fjárlaga og í fjárlögum 2011 (nema þar var talað um heildartekjujöfnuð). Þessi framsetning hafði hins vegar ekki tíðkast fram til þess tíma. Með frumjöfnuði er átt við afkomu ríkissjóðs án vaxtagjalda. Samkvæmt 22. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, skal í frumvarpi til fjárlaga sýna áætlaðan rekstrarreikning fyrir ríkisaðila í A-hluta. Samkvæmt því á ekki að sýna millistærð rekstrarreiknings ríkissjóðs sem lokaútkomu reikningsins, þ.e. að sýna áætlaða jákvæða afkomu að fjárhæð 16,9 milljarða kr. í stað áætlaðs tekjuhalla að fjárhæð 36,4 milljarða kr.“ — Síðan segir og ég vek athygli þingheims á þeim orðum: „Ætla verður að fyrir stjórnvöldum vaki með þessari nýju framsetningu að leggja sérstaka áherslu á frumjöfnuðinn. Að mati Ríkisendurskoðunar ætti fremur að sýna frumjöfnuð sem millistærð á undan vaxtagjöldum í rekstraryfirlitinu.“

Þetta er í samræmi við þá gagnrýni sem ég hef haft á framsetningu. Hæstv. fjármálaráðherra hélt ræðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Þar hélt hann því fram að einstakir nefndarmenn í fjárlaganefnd skildu ekki hugtakið frumjöfnuður. Það spannst reyndar út af umræðum hér í þingsal þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra og hv. varaformann fjárlaganefndar, Björn Val Gíslason, um það hvernig þeir ætluðu að ná fram hagvexti á komandi ári. Svörin sem ég fékk voru í þá veruna að ég skildi ekki hugtakið frumjöfnuður.

Ég ætla sem sagt að ítreka gagnrýni mína á framsetningu stjórnvalda í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er allt gert til að fegra hlutina. Og hvað er það sem þjóðin þarfnast hvað mest núna? Jú, hún þarfnast þess að fá réttar upplýsingar um gang mála. Það spunnust umræður í dag um það hvort ríkisstjórnin væri að ná þessum gríðarlega mikla árangri sem hún telur sig reyndar sjálf hafa náð eða hvort menn ættu kannski að líta á stöðuna eins og hún er. Ég tel að þetta sé skýrt dæmi um það að ríkisstjórnin er að reyna að fegra hlutina, hún hefur ekki náð þeim árangri sem hún ætlaði sér að ná. Og þau markmið sem hv. formaður fjárlaganefndar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, vísaði sjálf til í ræðu áðan hafa einfaldlega ekki náðst, hvernig sem menn líta á málin. Það er ástæðan fyrir því að menn eru núna að endurskoða þá áætlun og þau markmið sem þeir settu sér.

Það er vert og mjög gagnlegt að líta á hvað menn segja nú. Nú segja þeir að hugsanlega hafi verið farið of skarpt í niðurskurð og það hafi hugsanlega leitt til þess að erfiðara hafi verið að ná upp þeim hagvexti sem til þurfti. Það er einmitt í samræmi við það sem við framsóknarmenn höfum ítrekað talað um frá því að þessi ríkisstjórn komst til valda. Þess vegna erum við reiðubúnir að leggja til að horft verði til baka varðandi niðurskurðinn í velferðarkerfinu og að þeir sem fengu niðurskurð umfram 4,7% á síðasta ári fái það bætt. Ég tel að þetta sé eina leiðin til að viðhalda því kerfi sem við bjuggum við.

Í áliti mínu fer ég mjög ítarlega í gegnum breytingarnar í heilbrigðismálum. Mig langar til að benda á eina staðreynd. Í skýrslu OECD, frá 28. febrúar, kemur fram að í alþjóðlegum samanburði sé heilbrigðiskerfi Íslendinga lofsvert, þetta er sagt í skýrslu frá árinu 2008. Í skýrslu frá OECD, sem kom út í nóvember 2010, segir einnig að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem hvað best komi út í samanburði á skilvirkri stefnumörkun í heilbrigðisþjónustu og nýtingu þess fjármagns sem lagt er í þjónustuna. Þykir því ljóst að sú stefna sem Íslendingar hafa markað sér og nýting þeirra fjármuna sem lagðir eru í heilbrigðiskerfið hafi verið til fyrirmyndar, að mati stofnunarinnar, þrátt fyrir mikinn kostnað sem óneitanlega fylgir.

Í umræðum grípa stjórnarliðar oft til þess ráðs að segja að þeir séu að taka til eftir fyrri ríkisstjórnir. Ég skal fallast á að ýmislegt þurfti að laga. En menn taka ekki til með því að sóða út og eyðileggja og það er einmitt það sem verið er að gera varðandi heilbrigðisþjónustu landsmanna. Framsóknarflokkurinn skilaði af sér heilbrigðiskerfi sem þótti lofsvert á alþjóðavísu og aðrar þjóðir voru beðnar um að taka sér þetta kerfi til fyrirmyndar.

Við horfum upp á það núna að heilbrigðisþjónusta úti á landi, á landsbyggðinni, er á margan hátt skilvirkari en á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef meira að segja komist að því að íbúar landsbyggðarinnar leita minna til læknis en gerist hér á höfuðborgarsvæðinu. Hefði þá ekki verið nær að spyrja: Hvað er það í heilbrigðisstofnunum úti á landi sem gerir það að verkum að þetta er niðurstaðan? Eiga menn ekki frekar að líta til þeirra hluta og koma heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í sama farveg? Þannig væri hugsanlega hægt að spara mikla fjármuni í staðinn fyrir að gjörbreyta kerfinu.

Meiri hluti velferðarnefndar, sem í eiga sæti stjórnarþingmenn, er hættur að reyna að breiða yfir hlutina, hættur að reyna að segja að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru. Nefndarmenn, ágætir, sögðu, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að hagræðing í ríkisrekstri sé grundvölluð á góðum upplýsingum og skýrri stefnumörkun. Ná þarf fram hagkvæmni og réttlátri stýringu almannafjár án þess að þjónusta við sjúklinga eða öryggi þeirra sé skert.“

Ég vek athygli á síðustu setningunni en það er einmitt það sem verið er að gera með niðurskurði hjá heilbrigðisstofnunum úti á landi, það er verið að skerða öryggi þeirra sem þar búa. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta er einhver mesta byggðaröskun síðustu ára. Þegar íbúar á þessum svæðum njóta ekki sama öryggis hljóta þeir að hugsa sér til hreyfings, staðan er einfaldlega sú.

Í áliti meiri hluta velferðarnefndar segir einnig, með leyfi forseta, „að heilbrigðisstofnanir hafa frest til 2. desember nk. til að skila inn til velferðarráðuneytis tillögum sínum að því hvernig þær hyggjast mæta hagræðingarkröfum. Meiri hlutinn bendir réttilega á að þar sem 3. umr. fjárlaga á samkvæmt starfsáætlun að fara fram 6. desember hafi hann ekki tækifæri til að fara yfir þær tillögur“.

Ekki er nóg með að þessi stutti tími sé gagnrýndur heldur lít ég líka þannig á að meiri hlutinn sé að gagnrýna vinnubrögð fjárlaganefndar.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Þá áréttar meiri hlutinn „nauðsyn þess að fyrir liggi stefna og áætlun til langs tíma um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar og innan hvaða fjárhagsramma hún á að starfa. Þar þarf til dæmis að skoða staðsetningu, samvinnu, sameiningar stofnana eða eininga og skilgreina starfsemina á hverjum stað með það að markmiði að hún sé fagleg, góð og hagkvæm. Þannig ættu allir aðilar að vita til hvers er ætlast af þeim faglega og fjárhagslega og geta lagað starfsemi sína að þeim römmum sem settir eru. Meiri hlutinn telur að í breytingaferli þurfi að setja eðlileg tímamörk svo öllum gefist tóm til aðlögunar.““

Og ég tek fram að ég virði það svo sannarlega við þá þingmenn meiri hlutans sem hafa komið fram og viðurkennt að hlutirnir séu ekki eins og þeir eiga að vera.

Í skýrslunni Samanburður fjárveitinga til heilbrigðisstofnana, sem Capacent vann fyrir fjögur sveitarfélög í Þingeyjarsýslum, Norðurþing, Tjörneshrepp, Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit, (Gripið fram í.) og sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar, er staðfest með tölulegum gögnum að niðurskurðurinn hefur komið misjafnlega niður á einstökum stofnunum og á einstökum þáttum í þjónustunni. Þegar skoðað er hvernig niðurskurður hefur verið eftir stofnunum kemur í ljós að hann hefur verið frá 17,4% á Landspítalanum upp í 34,8% hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Næstmesti niðurskurðurinn hefur verið hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, 34,1%, og hjá Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, 32,8%.

Í áliti 1. minni hluta velferðarnefndar kemur fram að afleiðing af þessu er að íbúar á þessum svæðum búa við umtalsvert breytta og skerta þjónustu. Þetta er tekið úr minnihlutaáliti hv. þingmanns Framsóknarflokksins. Ég tek heils hugar undir þessi orð, þar sem hann mótmælir því harðlega að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu komi harðar niður á íbúum einstakra landsvæða, og þá sérstaklega í dreifðari byggðum landsins. Jafnframt má vera ljóst af þessum tölum að ekki verður gengið mikið lengra í niðurskurði án þess að skerða þjónustu og öryggi sjúklinga. Það er ánægjulegt til þess að vita að meiri hluti velferðarnefndar virðist vera á sama máli, enda lýsir hann yfir áhyggjum af því að ekki verði gengið lengra í hagræðingu án þess að skerða þjónustu og fækka störfum.

Í áliti mínu gagnrýni ég líka að ekki skuli hafa verið tekið á þeim þætti að útgjöld ríkisins til sérfræðilækna hafi aukist um 7%. Það er einfaldlega verkefni sem meiri hlutinn hefur heykst á og ég tel mjög mikilvægt að sérstaklega verði farið ofan í þennan lið. Á meðan verið er að skera niður öðrum megin virðist vera opinn krani hinum megin til sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðinu. Það gengur ekki, virðulegi forseti.

Í vinnu við fjárlög yfirstandandi árs, við fjárlagagerð á síðasta ári, lagði 2. minni hluti til að niðurskurður á heilbrigðisstofnunum yrði 4,7% í samræmi við almennar aðhaldsráðstafanir heilbrigðisráðuneytis, í stað þeirrar 5–39,4% hagræðingarkröfu sem gerð var. 2. minni hluti leggur til að hagræðingarkrafa ársins verði 1,5% en horft verði til þeirrar hagræðingar sem heilbrigðisstofnanir hafa náð fram á yfirstandandi ári. Hafi hagræðing numið meiru en 4,7% komi það sem umfram er til frádráttar. Við viljum með öðrum orðum hætta við þann niðurskurð sem boðaður er á þessu ári, leggjum í staðinn fram 1,5% hagræðingarkröfu sem bætist ofan á 4,7% hagræðingarkröfu frá fyrra ári. Það þýðir að við viljum setja um 1,3 milljarða í heilbrigðiskerfið og viljum fyrir alla muni snúa af þeirri braut sem mörkuð var í fyrra, braut sem fól í sér umbyltingu heilbrigðiskerfisins. Við viljum bæta þeim heilbrigðisstofnunum sem fengu á sig meira en 4,7% hagræðingarkröfu það upp. Ég hef lagt fram breytingartillögu þess efnis á Alþingi.

Vert er að geta þess að í tillögunum er lagt til að tekið verði tillit til hinnar sérhæfðu þjónustu sem Landspítalinn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri veita og þess vegna verður enn minni hagræðingarkrafa gerð til þeirra stofnana. Er það í samræmi við þær tillögur sem 2. minni hluti lagði fram í fyrra og fylgir þeim eftir.

Annar minni hluti leggur til enn á ný að farið verði gaumgæfilega ofan í breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og kannað til hlítar hvaða áhrif þær koma til með að hafa á íbúa landsbyggðarinnar. Þá verði einnig gerð nákvæm kostnaðargreining á heilbrigðisþjónustunni og kannað hvar drepa megi niður fæti í heilbrigðiskerfi landsins, en stjórnvöld hafa hunsað þá beiðni ítrekað. 2. minni hluti lýsir sig andvígan þeirri stefnu sem boðuð var í fjárlagafrumvarpi 2011 og ekki hefur verið horfið frá í nýjum tillögum ríkisstjórnarinnar. Bent er á að þrátt fyrir að niðurskurðurinn sé minni en áður var boðað er skerðingin gagnvart einstökum heilbrigðisstofnunum úti á landi, eins og Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar gríðarleg. Meiri hlutinn hvikar hvergi frá boðaðri byltingu á heilbrigðiskerfi landsmanna og blasir við að útfærslunni eigi að ná fram á lengri tíma en áður enda hefur ríkisstjórnin viðurkennt að of harkalega hafi verið gengið í niðurskurði undanfarinna ára og þá sérstaklega í því áliti sem kom frá meiri hluta velferðarnefndar.

Annar minni hluti leggur því til að sömu hagræðingarkröfu verði skipt jafnt á heilbrigðiskerfið.

Það voru allir til í að taka á sig sama niðurskurð á næsta ári, íbúar landsbyggðarinnar átta sig á því að það þarf að skera niður en þeir voru ekki reiðubúnir að taka á sig gjörbyltingu á heilbrigðiskerfinu í gegnum fjárlögin.

Áðan var komið inn á þær tillögur, svo að ég færi mig aðeins um set, sem við viljum gera fyrir eldri borgara, lífeyrisþega, öryrkja og atvinnulausa. Við leggjum til að þeir hækki í takt við hækkun lægstu launa og fullyrðum að um sé að ræða umsamda hækkun í tengslum við gerð kjarasamninga 5. maí 2011. Samkvæmt þeim eiga lægstu laun, og þar með bætur, að hækka um 11.000 kr. 1. febrúar 2012. Atvinnuleysisbæturnar munu aðeins hækka um 5.500 kr. en ekki 11.000 kr. en 2. minni hluti leggur til að bæturnar hækki í takt við hækkun lægstu launa eins og skýrt kemur fram í því samkomulagi sem gert var í tengslum við gerð kjarasamninga 5. maí 2011. Ég vil taka það sérstaklega fram að orðalag samkomulagsins er mjög skýrt um þetta atriði og ég skil ekki hvernig þingmenn meiri hlutans leyfa sér að túlka það á annan hátt.

Íbúar í Þingeyjarsýslum hafa því miður einnig þurft að upplifa það að ekki hefur verið staðið við viljayfirlýsingar og samkomulag hefur verið svikið. Ég hef undir höndum afrit af viljayfirlýsingu sem var gerð við Þingeyinga þegar samið var um að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til umfangsmikillar atvinnuuppbyggingar og eflingar byggðar á svæðinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að staðinn verði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu sem nauðsynleg er þegar til uppbyggingar kemur.“

Þetta ber að sjálfsögðu ekki að skilja á annan veg en samkvæmt orðanna hljóðan, það á að standa vörð um þessa þjónustu enda verður hún mjög mikilvæg þegar til uppbyggingarinnar kemur. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég er hálfpartinn úrkula vonar um að þessi ríkisstjórn komi nokkru af stað í Norðausturkjördæmi. Verkin síðustu daga sýna því miður ekki annað en að heimamenn þurfi að bíða eftir því að ný ríkisstjórn komist til valda.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin túlki þessi orð, um að standa vörð um opinbera þjónustu á svæðinu, á þann veg að það eigi að gera þegar til uppbyggingarinnar kemur, það er að segja að um leið og lagt verður af stað í atvinnuuppbyggingu verði ekki skorið meira niður. En því miður er niðurskurðarhnífurinn kominn inn að beini og jafnvel aðeins dýpra en það.

Varðandi tillögur til útgjalda leggur Framsóknarflokkurinn einnig til að fjármunir verði veittir í hin svokölluðu minni samgönguverkefni. Gríðarlegur niðurskurður hefur orðið í samgöngumálum á landsvísu og hann mun fyrst og fremst bitna á smærri samgönguverkefnum í sveitum landsins. Þar má nefna einbreiðar brýr, olíuburð vega og almennt viðhald vega sem telja má nánast ófæra víða um land. Þessi útgjöld munu skapa vinnu víða um land hjá smærri verktökum en þeir hafa orðið illa úti í efnahagshruni. Einnig er lagt til að niðurgreiðslur á flugi innan lands verði auknar.

Ég vil af þessu tilefni gagnrýna það sérstaklega að taka eigi fjármuni af þessum tveimur liðum, af þeim fjármunum sem farið hafa í almennt viðhald á vegum og til nýframkvæmda, að það eigi að skerða þá um 150 milljónir og setja í gæluverkefni ríkisstjórnarinnar um strætó á höfuðborgarsvæðinu.

Samgöngur víða úti á landi eru einfaldlega í algjörum lamasessi. Ég held að vert sé að taka það fram, vegna þess að hér hefur verið til umræðu hve mikilvægt sé að koma framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng af stað, að Víkurskarð hefur verið lokað stóran hluta dagsins. Hér hafa komið fram fullyrðingar um að þetta sé svo greiðfær vegur en hann lokar algjörlega leiðinni úr Þingeyjarsýslum yfir í Eyjafjörð. Nú á að leggja til að Þingeyingar sæki heilbrigðisþjónustu í mun meira mæli inn á Akureyri og þá þýðir ekkert annað en standa við þessa framkvæmd. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með þingmönnum, sérstaklega nokkrum hér á höfuðborgarsvæðinu, sem saka okkur sem erum utan af landi um kjördæmapot. (Gripið fram í.) Ég spyr: Hverjir ætli séu meiri kjördæmapotarar? — Ef það er þá skammaryrði, ég lít reyndar ekki á það sem skammaryrði þó að það sé stundum notað þannig. — Framsóknarflokkurinn leggur til að útgjöld til Vegagerðar ríkisins verði aukin. Það þarf að fækka einbreiðum brúm víða um land og auka þannig umferðaröryggi.

Við leggjum líka til að meiri fjármunir verði settir til löggæslu í landinu. Staðan víða um land er á þann veg að lögreglumenn eru einfaldlega fastir á þeim stöðum þar sem lögreglustöðvarnar eru. Þeir eru hættir að aka um kjördæmið vegna þess að búið er að skera svo mikið niður kostnað sem fylgir því að keyra um kjördæmið. Þeir hreyfa sig því ekki úr stað fyrr en útkallið kemur og víða úti á landi er útkallstíminn meira en klukkutími. Menn geta séð það fyrir sér hve mikla hættu þetta skapar og fyrr en síðar kemur því miður að því að mannslífum er fórnað af þeim sökum. Svo alvarleg er staðan orðin í löggæslumálum víða úti á landi. Ég trúi ekki öðru en meiri hlutinn fari að líta sérstaklega til löggæslumála, þau eru hluti af því öryggi sem íbúar verða að búa við, þeir verða að upplifa að þeir hafi aðgang að þeirri löggæslu sem nauðsynleg er á hverju svæði.

Framsóknarmenn telja líka mikilvægt að fjármunir séu settir í Lánasjóð íslenskra námsmanna til að styrkja framfærslugrunn nemenda. Þeir eru framtíðin, þessir nemendur, og við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hlúa að þeim og byggja undir þá í stað þess að skera niður.

Þá vill 2. minni hluti vekja athygli á því að sóknargjöld hafa lækkað um 20% frá árinu 2008 að teknu tilliti til úrsagna úr þjóðkirkjunni. Á sama tíma hafa greiðslur til stofnana innanríkisráðuneytisins hækkað vegna verðbóta um 5%. Nú er svo komið að ekki er hægt að halda úti grunnstarfi í mörgum sóknum víðs vegar um landið auk þess sem viðhaldi á kirkjum hefur ekki verið við komið. Ef menn skoða þetta með sanngjörnum hætti átta menn sig á því að í hverri sókn, og innan margra kirkna víðs vegar um landið, er unnið mjög mikilvægt menningarstarf, menningarstarf sem má ekki fyrir nokkra muni glatast. Kirkjurnar okkar eru líka hluti af ferðaþjónustunni, ferðamenn skoða kirkjur, og þegar staðan er orðin slík að sóknirnar telja sig ekki hafa efni á að halda þeim við er illa komið.

Meiri hlutinn hefur bætt við fjármunum til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, og er það vel. Ég lagði fram fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra um hvort ekki væri kominn tími til að horfa aðeins til þessa málaflokks. Því miður hefur íþróttahreyfingin þurft að skera niður meira en nemur niðurskurði á framlögum til menningarmála. Hún hefur mætt þeim erfiðleikum af ábyrgð og sýnt þeim aðstæðum skilning, en niðurskurður til íþróttaverkefna í þágu fjárhagslegrar hagræðingar er engan veginn ásættanlegur til lengri tíma litið. Til að íþróttahreyfingin geti sinnt hlutverki sínu og forvörnum, sem ég tel mjög mikilvægt, verða breytingar að eiga sér stað. Þess vegna leggjum við til að tekið verði tillit til þeirra þátta með auknu fjárframlagi.

Ég vil sérstaklega taka fram að í breytingartillögum meiri hlutans er lagt fram fé til tannverndar barna. Ég lagði fyrir þó nokkru síðan fram fyrirspurn um tannvernd og lýsi því yfir sérstakri ánægju með að meiri hlutinn hafi tekið eftir því og bætt aðeins í þann málaflokk.

Ég fagna því líka að meiri hlutinn ætlar að setja örlítið meiri fjármuni til Alþingis Íslendinga, en Alþingi hefur hingað til þurft að mæta harðari niðurskurðarkröfu en ráðuneyti og stofnanir ríkisins, og það er þvert á fyrirmæli í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem skýrt er kveðið á um að efla þurfi Alþingi í samanburði við stjórnsýsluna. Það er óþolandi að hugsa til þess að Alþingi hefur tekið á sig mun hærri skerðingu en aðalskrifstofur ráðuneytanna. Ég hef lagt til að á aðalskrifstofum ráðuneytanna verði niðurskurður meiri en nú er og þeir fjármunir nýttir til að efla starfsemi Alþingis. Þeir auknu fjármunir gætu meðal annars nýst til að ráða hingað tvo nýja starfsmenn. Ég vil benda á að stjórnarandstaðan hefur ekki haft ritara sem sinnir málefnum hennar sérstaklega. Ráðherrar bæta við sig aðstoðarmönnum eins og þeim hentar, það eru aukin fjárframlög til þess. Nú er einfaldlega kominn tími á Alþingi og þetta er eina leiðin til að hefja Alþingi á ný til þeirrar virðingar sem það á skilið. Við höfum því miður þurft að horfa upp á það að lagasetning hefur ekki verið nógu vönduð, ég held að dæmin sanni það því miður og sérstaklega kosningarnar til stjórnlagaþings. Engu öðru er um að kenna en því að ekki var vandað til verka og það helgast af fæð starfsmanna og þeim mikla niðurskurði sem komið hefur til.

Annar minni hluti leggur líka til að Ríkisendurskoðun fái aukna hækkun. Ríkisendurskoðun er einfaldlega eina stofnunin sem getur sinnt því eftirlitshlutverki sem Alþingi á að sinna. Við horfum upp á það að Fjármálaeftirlitið hefur stækkað gríðarlega, fjölgun úr 30 starfsmönnum í um það bil 130. Það fær 1,6 milljarða á fjárlögum þessa árs þrátt fyrir að bankakerfið sé einungis um 10% þess sem það áður var. Ég held við þurfum að horfa til þess að efla Ríkisendurskoðun, um hana hefur verið deilt, hún hefur verið gagnrýnd harðlega og ég held að Alþingi hafi ekki efni á að hafa það þannig til langs tíma. Það var bætt í til umboðsmanns Alþingis, það var vel, ég styð það, en nú er komið að Ríkisendurskoðun. Hún er ekki í aðstöðu til að krefjast þess að verða stækkuð eða efld, við alþingismenn verðum að sjá til þess sjálfir.

Við leggjum til að auknar verði fjárheimildir til rekstrar vegna aukins fjölda nemenda í framhaldsskólum, og þá leggjum við til að lagðir verði auknir fjármunir í dreifnám á framhaldsskólastigi. Framhaldsskólar verða að taka á sig aukinn rekstrarkostnað, t.d. með því að taka við fleiri nemendum úr 10. bekk, og ég tel að við eigum að bæta þeim það sérstaklega upp.

Þá er komið að Fæðingarorlofssjóði sem við framsóknarmenn höfum verið svo stoltir af í gegnum tíðina. Þetta er kerfi sem við börðumst lengi fyrir og settum á laggirnar. Áætlað er að útgjöld sjóðsins lækki um 146,5 millj. kr. vegna aðhaldsaðgerða sem gripið var til árin 2009 og 2010 auk þess sem útgjöld sjóðsins hafi lækkað umtalsvert í kjölfar breytinga sem gerðar voru á hámarksgreiðslum úr sjóðnum á þessum árum. Við leggjum til að sjóðurinn verði styrktur á ný þannig að hann þjóni tilgangi sínum.

Ég vona svo sannarlega að tekið verði tillit til þessara þátta, fæðingarorlofs, barnabóta, umsaminna hækkana almannatrygginga til ellilífeyrisþega og atvinnulausra, það megum við ekki láta hjá líða.

Við erum líka með tillögur um það að sækja auknar tekjur. 2 minni hluti er enn sömu skoðunar og við afgreiðslu fjárlaga 2011, um skattlagningu á séreignarsparnaði. Því er lagt til að gerðar verði breytingar á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins hvað þetta varðar. Við teljum þó gerlegt að skattleggja eingöngu helminginn af óskattlögðum séreignarsparnaði landsmanna og auka þar með tekjur ríkissjóðs um allt að 40 milljarða. Ég held að þetta séu tillögur sem vert sé að ræða á Alþingi. Sjálfstæðismenn vilja sækja helmingi hærri fjárhæð í þennan málaflokk en ég tel nóg að sækja helminginn. Ég átta mig reyndar á því að framkvæmdin við það getur verið flókin. Annars vegar þarf að taka helminginn og skattleggja hann fyrir fram og hinn við útgreiðslu eða að minnka þá tekjuskattsprósentu sem notuð er til að finna þá fjárhæð sem greiða á í skatt af séreignarsparnaðinum.

Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað lagt til að aflaheimildir verði auknar og yrði sú ákvörðun tekin að höfðu samráði hagsmunaaðila og vísindasamfélagsins. Miðað við þær hugmyndir sem lágu til grundvallar þegar tillagan kom fyrst fram innan flokksins var gert ráð fyrir að áætlað útflutningsverðmæti sjávarafurða gæti aukist um 20 til 30 milljarða þó að staðan á mörkuðum sé nú verri og skili því líklega ekki sama verðmæti og þegar tillagan var lögð fram. Þó má ætla að útflutningsverðmætið við aukningu aflaheimilda á árinu 2012 geti skilað á milli 15–20 milljörðum kr. Við mat á áhrifum aflaaukningarinnar á landsframleiðslu má þrefalda útflutningsverðmætið sem gæti samkvæmt þessu aukið landsframleiðslu um allt að 45–60 milljarða kr. Veltuáhrif eru því veruleg. Að auki mundu skatttekjur ríkissjóðs af auðlindagjaldi hækka í samræmi við þá aukningu veiðiheimilda sem ákveðin yrði. Þingflokkurinn er sammála um að nú sé lag að fara í þessar aðgerðir — stofnarnir standa vel — en að sjálfsögðu viljum við að ákvörðun sé tekin að höfðu samráði hagsmunaaðila og vísindasamfélagsins.

Við teljum líka að orkan á Íslandi sé sú auðlind sem mestu máli muni skipta um afkomu landsmanna um langa framtíð. Leggja verður áherslu á að á grundvelli framboðs og eftirspurnar verði litlum og millistórum fyrirtækjum sem nota hreina orku, vegna sívaxandi áherslu á umhverfisvernd, gert mögulegt að vaxa og dafna hér á landi. Tryggja þarf fjölbreytni, arðbærni og hraða atvinnuuppbyggingu og að orka bjóðist fyrirtækjum af þessu tagi. 2. minni hluti telur að stjórnvöld eigi án tafar að ráðast í orkufrekar framkvæmdir í Helguvík og á Bakka við Húsavík. Allt of lengi hefur dregist að koma framkvæmdum á þessum stöðum af stað, sem er kannski eðlilegt í ljósi þess að stór hluti þeirra þingmanna sem sitja í meiri hluta er andvígur þessum framkvæmdum, þeir finnast bæði í þingflokki Samfylkingar og Vinstri grænna.

Mikið hefur verið rætt um orkumál að undanförnu. Nú segja stjórnarliðar að fá eigi sem mest verð fyrir orkuna en ég held að þar séu menn að skjóta sig í fótinn, menn eiga miklu frekar að líta til þess að orkan sé nýtt til atvinnuuppbyggingar hér á landi. Mig langar að taka dæmi sem ég veit að flestir skilja: Það er mikilvægara fyrir landið að vinna þann afla hér á landi sem við fáum úr sjónum í stað þess að senda hann óunninn úr landi, jafnvel þó að hann sé verðmætari þannig fyrir þau sjávarútvegsfyrirtæki sem hann veiða. Við viljum, í efnahagstillögum okkar, að aflinn sé unninn hér á landi og það sama á að gilda um þá orku sem finnst hér, hana á að vinna hér á landi, hún á að skapa störf, hún þarf að vera ódýrari til að laða að erlend fyrirtæki, erlend fjárfesting hefur aldrei verið minni í landinu, hagvaxtarhorfur eru slæmar og nánast allar neikvæðar, langt frá þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér sjálf um 4,4% hagvöxt 2011. Þarna eru verkefni sem bíða og geta aukið hagvöxt og minnkað atvinnuleysi. Við eigum að framleiða okkur út úr kreppunni, og áttum að gera það strax, í stað þess að skattleggja okkur út úr henni. Enda er það ekki leið út úr kreppu, það dýpkar hana og seinkar henni. Það er sá veruleiki sem blasir við í þessu fjárlagafrumvarpi.

Við leggjum líka til að almenn sparnaðarkrafa verði gerð til aðalskrifstofu ráðuneytanna. Aðalskrifstofur ráðuneyta hafa notið verndar ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir skýr fyrirmæli í rannsóknarskýrslunni um að efla eigi Alþingi á kostnað ráðuneytanna. Ég held að þarna sé vald sem þurfi að takmarka með einum eða öðrum hætti. Vald embættismanna á Íslandi er því miður of mikið. Það að ætla að færa fjárheimildir frá fjárlaganefnd til embættismanna gengur þvert á þá stefnu. Ég skil ekki að þingmenn, sérstaklega þeir sem eiga rætur sínar að rekja til landsbyggðarinnar, skuli taka þátt í slíkum verkefnum, enda er öll framkvæmdin á safnliðum í voða, hvað sem menn segja um það.

Þá bendum við líka á þá miklu möguleika sem eru fyrir hendi til að auka matvælaframleiðslu í landinu, m.a. með fullvinnslu afla hér heima eins og ég kom inn á. Ónýtt sóknarfæri eru fyrir hendi, bæði í landbúnaði og í sjávarútvegi.

Það er eitt sem mig langar að taka sérstaklega fram og ég nefndi það í upphafi ræðu minnar: Svo virðist sem meiri hluti nefndarinnar leggi á sig gríðarlega vinnu við að fegra þá mynd sem blasir við þegar maður rýnir í tölurnar í fjárlagafrumvarpinu og þær forsendur sem liggja þar að baki. Ég held að fjárlaganefnd og við alþingismenn yfir höfuð eigum núna að velta fyrir okkur hvort við þurfum ekki að koma á fót þjóðhagsstofnun þannig að við fáum hagspár á hverju ári sem allir séu sammála um að leggja eigi til grundvallar. Það er ekki eðlilegt að ár eftir ár skuli koma fram þjóðhagsspá, um mitt sumar, sem er miklu bjartsýnni en endurskoðun spárinnar gefur svo til kynna í nóvember á hverju ári. Fjárlagafrumvarpið er unnið samkvæmt hagspánni í júní og því verða fjárlögin alltaf í mótsögn við þann veruleika sem við erum að glíma við.

Ég gagnrýni það líka sérstaklega að ár eftir ár fáum við tillögur í frumvarpi til fjárlaga um niðurskurð í heilbrigðismálum sem breytast svo að einhverju leyti við 2. umr. — og tillögur þess efnis koma kannski fram nokkrum dögum áður en umræðan fer fram. Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð, þetta eru gamaldags vinnubrögð sem er nauðsynlegt að breyta sama hvar í flokki menn standa.

Það er annað sem við eigum líka að varast. Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjáraukalögin sem voru til umræðu um daginn tók meiri hlutinn svo til að orða að Ríkisendurskoðun hefði hrósað nefndinni fyrir betri vinnubrögð. Vandamálið við þá fullyrðingu er að hana er hvergi að finna í þeim álitum sem hafa komið frá Ríkisendurskoðun. En ef menn eru svona blindir á raunveruleikann og vilja halda öðru fram komumst við einfaldlega ekkert áfram. Við þurfum svo sannarlega á því að halda að komast áfram og breyta vinnubrögðunum í fjárlaganefnd.

Ég er með langan kafla í nefndarálitinu sem ber heitið Agaleysi við fjárlagagerðina, framkvæmd fjárlaga. Þar gagnrýni ég þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við gerð fjárlaga í gegnum tíðina. Ég tek undir með Ríkisendurskoðun sem hefur bent á lausatök í ríkisfjármálum síðustu tvo áratugi. Reyndar má geta þess til gamans að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er sá ráðherra sem hefur setið lengst á ráðherrastól, í samtals níu ár á síðustu 20 árum. Það er ágætt að halda því til haga. Þetta er staðreynd sem meiri hlutinn þarf að horfa á. Ekki má undanskilja hlut fjárlaganefndar sem hefur ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu nægilega vel á þessu ári. Framkvæmd fjárlaga hefur verið gagnrýnisverð í gegnum árin en ítrekað hefur verið bent á að almennt agaleysi hafi verið í rekstri fjölmargra stofnana sem og að bindandi fyrirmæli fjárlaga hafi ekki verið virt. Hefur stofnunin því hvatt til þess að ábyrgð ráðuneyta á fjárreiðum ríkisstofnana verði gerð afdráttarlaus í gildandi lögum og reglum. Engin lög hafa verið sett til að styrkja eftirlitið utan heimilda sem Ríkisendurskoðun fékk til að afla skýrslna fyrir fjárlaganefnd með lögum nr. 56/2009 og með þingsályktunartillögu frá 11. júní sama ár, þar sem Ríkisendurskoðun er heimilað að veita fjárlaganefnd Alþingis aðgang að þeim gögnum sem hún aflar eða leggja fram skýrslu. 2. minni hluti bendir því á að langur vegur er frá því að Alþingi geti rækt eftirlitshlutverk sitt með skýrum hætti og þann þátt stjórnkerfisins verður að styrkja. Það hefur 2. minni hluti einmitt lagt til með því að Ríkisendurskoðun verði styrkt sérstaklega.

Annar minni hluti bendir einnig á mikilvægi skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá því í mars 2009. Þar kemur fram brýn nauðsyn þess að trúverðugleiki fjárlagarammans til millilangs tíma verði styrktur til að koma á fjárhagslegum aga og rökstyðja framsetningu og samþykkt fjárlaga. Lögð er áhersla á að styrkja framkvæmd fjárlaga og takmarka verulega heimildir til að flytja fjárheimildir á milli ára. Það er einfaldlega komið að þeim tíma að fjárlaganefnd getur ekki verið að umbuna þeim sem standa sig illa með sínar stofnanir eða sín ráðuneyti á kostnað þeirra sem standa sig vel á hverju ári. Þannig komast menn upp með að leika þann leik að fara aðeins fram úr af því að þeir vita að fjárlaganefnd mun bæta þeim það upp seinna meir. Þetta er einmitt það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að gangi ekki. Það er líka ágætt að taka það fram að við höfum verið að skila ríkisreikningi tveimur árum eftir að lokafjárlög hafa verið lögð fram. Bandaríki Norður-Ameríku, sem hafa jú rétt rúmlega stærra hagkerfi en Ísland, skila ríkisreikningi á þremur mánuðum. Þetta er ekki eðlilegt, virðulegi forseti, og við verðum að gera gangskör að því að laga þetta. AGS ítrekar að efla þurfi framkvæmd fjárlaga, draga úr vægi fjáraukalaga og draga úr frammúrkeyrslu fjárlaga.

Virðulegi forseti. Ég hef einnig í þessu áliti bent á efnahagstillögur okkar framsóknarmanna sem við lögðum fram í haust. Nefndarálitið og þær tillögur sem þar eru byggjast á hófsemi. Við erum ábyrg, við viljum ekki ganga lengra í boðuðum niðurskurði, en við erum reiðubúin að leggja okkar af mörkum til að koma hagvextinum af stað. Eina leiðin til að komast út úr þeim ógöngum sem við erum í er að framleiða sig út úr kreppunni, ekki að skattleggja sig út úr henni. Við höfum útfært leiðir til að auka tekjur ríkisins, örva hagvöxt og koma hjólum atvinnulífsins af stað. En þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, og byggjast á hugmyndafræði vinstri flokka, hafa því miður leitt af sér minni hagvöxt, rýrari tekjur og kólnun hagkerfisins enn eitt árið. Ég vil svo taka fram, vegna þess að nú er tími minn að renna út, að við göngum lengra í tillögum okkar um að taka til baka boðaðan niðurskurð í heilbrigðismálum en Sjálfstæðisflokkurinn, við erum jú miðjuflokkur en þeir hægra megin. Við leggjum líka til að staðið verði við samninga varðandi atvinnulausa, öryrkja og ellilífeyrisþega. Ríkisstjórnin verður að koma því til skila við aðila vinnumarkaðarins að stjórnvöld muni standa við gerða samninga. Það er einfaldlega orðin regla fremur en undantekning að samningar séu brotnir.

Ég vil að lokum þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir ánægjulegt samstarf. Ég þakka formanni nefndarinnar sérstaklega, hún hefur staðið sig ágætlega í störfum sínum, ég veit þau eru oft og tíðum erfið. Ég hef reyndar reynt að liðka til frekar en hitt, greiða fyrir störfum nefndarinnar. Ég geri mér grein fyrir að verkefnið er erfitt. Vonandi náum við samstöðu í nefndinni á milli 2. og 3. umr.