140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég er ánægður með að heyra að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er sammála mér um sóknargjöldin. Ég bendi á að fyrir ekki svo löngu síðan stóð til að taka hið kristilega siðgæði út úr markmiðskafla grunnskólalaganna. Ráðherra sjálfstæðismanna stóð að því og við framsóknarmenn börðumst mjög hart gegn því. Horfið var frá þeirri stefnu sem mér sýnist því miður núna að borgaryfirvöld hafi tekið upp. Þetta er engum til gagns. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sagt að þau markmið sem koma fram í kristinni trú séu lofsverð og að þau séu grunnurinn að þeim mannréttindum sem við búum að í dag.

Varðandi séreignarsparnaðinn, það er rétt, við viljum ekki ganga eins langt og Sjálfstæðisflokkurinn. Þessi tillaga hefur fengið á sig þá gagnrýni að verið sé að skerða framtíðartekjur lífeyrisþega og við viljum taka tillit til þess. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan teljum við framsóknarmenn að þetta sé mjög gerlegt, jafnvel þó að framkvæmdin gæti verið flókin. Ég útskýrði að hugsanlega væri hægt að skipta pottinum í tvennt, annar hlutinn væri skattlagður fyrir fram og hinn eftir á. Það væri líka mögulegt að lækka tekjuskattsprósentuna og gera undanþágu í lögum sérstaklega varðandi inngreiðslur út af séreignarsparnaðinum.

Hins vegar hef ég verið jákvæður í garð þessarar tillögu frá Sjálfstæðisflokknum og aldrei að vita nema maður styðji hana þegar hún kemur fram hér í atkvæðagreiðslu.