140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég vil hins vegar segja um þá tillögu að taka helminginn af séreignarsparnaðinum að ég held að það sé ekki skynsamlegt vegna þess að mikil hætta er á tvísköttun og jafnframt yrði mjög erfitt að halda utan um það.

Hvað varðar þá gagnrýni sem hv. þingmaður benti á í sambandi við að það skerði lífeyriskjörin í framtíðinni finnst mér þau rök mjög haldlítil sem færð eru fyrir því, vegna þess að það er alveg sama hvernig ávöxtunin er, ríkið á alltaf sinn hluta í séreignarsparnaðinum, sem sagt frestuðum skatti, alveg sama hvort hann hækkar eða lækkar. Það gefur því augaleið að það mun ekki hafa áhrif. Ég hef ekki getað séð þau rök sem mæla gegn því. Þetta er bara ákveðinn partur sem ríkissjóður á og þetta mundi þýða, eins og í tillögum okkar, um 86 milljarða fyrir ríkissjóð og 40 milljarða fyrir sveitarfélögin.

Ég fagna því að hv. þingmaður er tilbúinn að skoða það að styðja þá hugmynd okkar að taka séreignarsparnaðinn.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í það sem kemur í tillögunni um aflaaukninguna. Ég er mikill stuðningsmaður þess að bæta við aflaheimildir og hef talað um það nokkur hundruð sinnum í þessum ræðustól og haldið margar ræður um það. Það sem ég kalla eftir hjá hv. þingmanni varðar þær hugmyndir sem lágu til grundvallar hjá Framsóknarflokknum um að auka aflaheimildir og þá gætu tekjurnar orðið 20–30 milljarðar. Síðan kemur fram að það er mat hv. þingmanns að staðan á mörkuðum sé verri og mundi þá ekki skila nema 15–20 milljörðum núna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að það kemur ekki fram í tillögunni: Í hvaða tegundum er verið að tala um að bæta við? Og eins um magnið sem er áætlað að bæta við í hverri tegund sem liggur að baki þessum útreikningum um hverju þetta eigi að skila. Ég átta mig ekki alveg á því vegna þess að afurðaverð hefur hækkað um 7,5% á þessu ári, 2011, reiknað er með 2,5% á næsta ári sem gæti verið ofmat. Um hvað er verið að tala þarna? Hvaða tegundir og hvaða magn?