140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:22]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri Blöndal um þessa aðferð. Hún er þekkt og viðurkennd og hefur verið notuð áratugum saman af ríkissjóðum. Það er m.a. stefna bandarísku ríkisstjórnarinnar að hleypa af stað verðbólgu til þess að geta grynnkað á skuldum ríkissjóðs. Það er stefna í fjölmörgum löndum. Mér finnst aðferðin eðli málsins samkvæmt ekki bjóðandi vegna þess að í rauninni er verið að hafa af fólki fé. Það kaupir skuldabréf sem gefin eru út af ríkinu á ákveðnum vöxtum en það fær ekki þá fjármuni til baka. Aðferðin er hagstjórnartæki sem er mjög illa séð af mörgum.

Ég hef talið lengi að þetta sé hagstjórnartæki sem menn þurfa og geti notað í neyð þegar skuldir ríkisins eru orðnar það miklar að ekki næst að greiða þær niður með öðru móti, en ég er alls ekki talsmaður þess að það sé gert nema við þess háttar aðstæður. Það verða allir að taka á sig einhvern hluta af þeim skelli sem of mikil skuldasöfnun hefur valdið. Hér á Íslandi er stærstur hluti skuldar ríkissjóðs í óverðtryggðum bréfum, að vísu á vaxtakjörum sem eru enn þá, ef ég man rétt, umtalsvert hærri en verðbólgan, þannig að sá skuldastabbi mun ekki rýrna mjög mikið vegna verðbólgunnar þótt henni verði hleypt af stað. Hins vegar dugir aðferðin heldur ekki sem hagstjórnartæki almennt á Íslandi vegna þess að neyslulán eru verðtryggð. Ef menn hleypa verðbólgunni af stað til að grynnka á skuldum ríkissjóðs hækka allar aðrar skuldir í samfélaginu til samræmis við það. Menn eru þá enn verr settir á þeim bæ.