140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:25]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því og ég hef ekki séð neina sundurgreiningu á því hvað skuldir ríkissjóðs minnka mikið vegna þeirrar verðbólgu sem er. Skuldir ríkissjóðs hljóta að vera greindar með þeim hætti þótt ég hafi ekki séð það lagt fyrir fjárlaganefnd.

Það sem ég vísa til sérstaklega þegar ég tala um vaxtakostnað ríkissjóðs er að þetta er beinn útgjaldaliður í fjárlögunum, um 74–75 milljarðar, jafnmikið eða meira en allur innheimtur tekjuskattur ríkissjóðs. Það er erfitt að kyngja því. Það þarf ekki að ganga mjög langt í ósk um frestun á vaxtagreiðslum til að gera sér grein fyrir því að slíkur frestur færi langt með að bjarga heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að sá vinkill sé skoðaður. Það er óvanaleg leið þótt hún sé mjög þekkt. Menn hafa frekar kosið að fara þá leið að skattleggja sig og skera niður úr þessari skuldastöðu. Það hefur haft mjög slæmar afleiðingar út í samfélagið.

Eins og ég sagði áðan mundi ég gjarnan vilja sjá hvað áætlað er að skuldir ríkissjóðs minnki mikið vegna verðbólgunnar. Ég veit að þær munu aukast á næsta ári vegna þess að lántökur umfram greiðslur afborgana eru, að mig minnir, um 1.100 milljónir. Það er ekki nein rosaleg upphæð en það er samt hækkun þrátt fyrir allan niðurskurðinn. Það er ekki gott að vera á þeirri leið.