140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins inn í þessa umræðu nú þegar talsmenn þingflokkanna, annarra en míns, hafa þegar talað í umræðunni og byrja á því að sjálfsögðu að þakka fjárlaganefnd fyrir hennar störf og hennar miklu vinnu og hrósa henni sérstaklega fyrir að vera hér með málið tilbúið til 2. umr. á tilsettum tíma þannig að starfsáætlun haldi að því leyti. Það tel ég vel að verki staðið því að nefndarinnar beið mikil vinna þegar frumvarpið kom samtímis fjáraukalagafrumvarpi, lokafjárlögum og fleiri verkefnum sem fjárlaganefnd hefur nú með höndum, þar á meðal að hún fær til sín frumvörp í ríkari mæli en áður var á grundvelli nýrrar nefndaskipunar á þinginu.

Ég ætla aðeins að gera hér örfá stærri mál að umtalsefni sem borið hefur á góma í umræðunni sérstaklega og byrja á því sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi, um skipulag fjárlagaumræðunnar. Við höfum reyndar oft rætt þetta áður og velt vöngum yfir því hvort við ættum að breyta fyrirkomulaginu og ræða þetta meira bundið á málefnasviðum eða hafa kannski tveggja þrepa umræðu þar sem talsmenn flokka töluðu í fyrstu umferð og gerðu grein fyrir sjónarmiðum flokka sinna almennt en síðan tækju við umræður sem væri meira skipt niður á málaflokka. Þannig er háttað í sumum þjóðþingum og þá eru til svara, ekki síður en fjármálaráðherrann, fagráðherrar viðkomandi málasviðs og það gæti verið ágætisfyrirkomulag en þá þarf líka að búa um það í skipulagi þingsins og ætla því talsverðan tíma.

Hér í orðaskiptum fyrr í dag og jafnvel undir liðnum um störf þingsins, ef ég tók rétt eftir, hafa greiðslur í almannatrygginga- og atvinnuleysisbótakerfi verið nokkuð ræddar. Menn hafa haft uppi stór orð um að það séu vanefndir á kjarasamningum að þær séu útfærðar með þeim hætti sem nú er gert í fjárlagafrumvarpinu. Því mótmæli ég einfaldlega, hvort sem það er fullyrt í blaðaauglýsingum eða annars staðar. Ef yfir þetta mál er farið í samhengi og af sanngirni skoðað blasir við talsvert önnur mynd en haldið er fram af ýmsum þessa dagana. Í útfærslum í vor, í kjölfar kjarasamninga, var ákveðið að fara ríkulegustu leið sem hægt var að velja til að hækka þessar bætur. Það töldum við mikilvægt að gera, ekki til þess að skapa fordæmi um að það yrði endilega svo eftirleiðis heldur til þess að skila þá strax umtalsverðum kjarabótum til þessa hóps. Það var gert með því að eingreiðslur og fullar hækkanir í samræmi við lægstu laun voru færðar inn í grunninn sem fyrir var og hafði hann þó áður tekið hækkunum.

Þetta verður líka að skoðast í samhengi við það hvernig þessar greiðslur hafa þróast yfir þann erfiða tíma sem við erum búin að ganga í gegnum undanfarin þrjú ár og á sama tíma og ýmsir aðrir hafa orðið að taka á sig umtalsverðar beinar kjaraskerðingar, en það á ekki við um þessar greiðslur ef það er skoðað. Þvert á móti hefur tekist að verja grunninn sem lagður var með meðal annars umtalsverðum hækkunum þessara greiðslna á árunum 2008 og 2009. Enda kemur það í ljós þegar það er skoðað að kaupmáttur þessara hópa og reyndar hinna launalægstu hefur varist langbest, hlutfallslega, í gegnum þessa efnahagslegu niðursveiflu. Það er staðreynd sem menn eiga að virða, hvað sem þeim finnst svo um það hvernig mál hafa þróast að öðru leyti. Þetta er auðvelt að sýna fram á og hefur verið sýnt fram á með rækilegum rannsóknum. Þetta má lesa út úr álagningargögnum skattsins og á fleiri stöðum. Rannsóknir fræðimanna staðfesta hið sama. Þessi hópur mun ekki síst njóta nú fullrar verðtryggingar persónufrádráttar sem mun bæta kaupmátt þessara hópa sérstaklega í upphafi nýs árs.

Það er alveg ljóst að kjaraskerðingin hefur að sínu leyti lagst mun þyngra á þá sem eru með hærri laun, bæði vegna þess að skattkerfinu hefur auðvitað verið breytt í þá átt en líka vegna þess að ýmsir hópar tóku á sig verulega launalækkun, þar á meðal allir tekjuhæstu starfsmenn hins opinbera. Þeirra laun voru færð niður með beinum hætti á árinu 2009 og fryst á árinu 2010 að verulegu leyti fyrir utan hið litla sem kjarasamningar 2009 skiluðu. Þeir voru mjög láglaunamiðaðir eins og menn muna. Þetta er hægt að leggja á borðin.

Öll vildum við gjarnan geta gert betur, ekki síst í þágu þessara hópa, en þá verða menn líka að horfast í augu við þann kostnað sem því fylgir og vera tilbúnir að taka það inn í myndina með tekjuöflun eða niðurskurði á móti eða einhverjum öðrum mótvægisaðgerðum.

Atvinnuleysisbætur fengu þessa sömu meðferð í júní í sumar og annað árið í röð, núna á næstu dögum, fá atvinnuleitendur fulla desemberuppbót sem ekki var greidd hér áður, ekki var greidd í góðærinu, þannig að þessi ríkisstjórn — og það er umfram allt sem menn hafa rætt um í kjarasamningum og er algerlega viðbótar... (REÁ: … fengið vinnu aftur?) viðbótargerningur sem þarna er á ferðinni. Það verður auðvitað að skoða fleira í þessum efnum, líka það að við erum að verja viðbótarfjármunum inn í grunn velferðarkerfisins sjálfs með því sem gefið er eftir til dæmis í sparnaðaraðgerðum í heilbrigðiskerfinu.

Ég bið menn um að horfa á þetta af sanngirni og horfa á þá heildarmynd sem við okkur blasir og hvernig kjör þessara hópa samanborið við aðra hafa þrátt fyrir allt varist í gegnum þessa efnahagslegu niðursveiflu. Menn geta haft ýmis orð uppi um þetta í hinni íslensku umræðu til heimabrúks en veruleikinn er sá að það vekur athygli og það sýnir sig í samanburðarrannsóknum á vettvangi OECD og annars staðar að þessir hópar hafa verið varðir í gegnum niðursveifluna og Ísland er enn í fremstu röð þegar kemur að öllum samanburðarrannsóknum á þessu sviði. Það er þannig og það er þó eitthvað til að gleðjast yfir þó að við vildum auðvitað öll gjarnan geta gert þarna betur.

Um heilbrigðiskerfið vil ég segja það að annað árið í röð er sérstaklega núna dregið úr þeim sparnaði sem þó hefur verið útdeilt á velferðarmálin og hefur verið um helmingi minni en á aðra málaflokka í raun og veru í þremur umferðum. Annað árið í röð, með þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar á grunni vinnu velferðarráðuneytisins leggur hér til, er þessi málaflokkur látinn njóta þess sérstaklega. Það eru hátt á sjötta hundrað milljónir króna sem settar eru hér beint aukalega inn í útgjöld velferðarráðuneytisins, að mestu leyti beint til heilbrigðiskerfisins í formi minni niðurskurðar á heilbrigðisstofnunum, fjárveitinga í tannlækningar og í fleiri liði.

Aftur gildir auðvitað það sama að margir vildu að betur væri hægt að gera. En ég verð þó að hrósa þeirri vinnu sem þar hefur farið fram og því verklagi sem velferðarráðuneytið hefur haft á þessu, að heimsækja allar stofnanir, fara í gegnum rekstur þeirra og ræða við stjórnendur og reyna að mæta óskum þeirra eins og kostur er. Ég tel að þar sé vel að verki staðið og þetta eigi að vera mun ásættanlegra fyrir alla eftir þá rækilegu yfirferð.

Auðvitað hefur mætt mikið á heilbrigðiskerfinu eins og allri opinberri þjónustu, og álagið er mikið. Það gildir um fleira. Við þingmenn þurfum þá auðvitað líka að hafa hreinskilni til að ræða hvort það eigi að vera þannig að aðrir málaflokkar sem hafa þurft að þrengja verulega að sér, svo sem menntamálin, eigi ekki að njóta einhverrar sambærilegrar niðurstöðu. Ég hef sagt það sjálfur að mér hefur verið virst skapast um það tiltölulega mikil samstaða með þjóðinni að eftir því sem nokkur kostur væri ætti að gera þetta mildara fyrir heilbrigðiskerfið og það er verið að gera það og mæta þeim vilja annað árið í röð. Á móti því verður ekki mælt að þannig er það. Sú aðhaldskrafa upp á 3%, eða 1,5% nú, sem lögð hefur verið á þessa málaflokka hefur þá verið milduð þar til viðbótar, sérstaklega í tilviki heilbrigðismálanna, núna tvö ár í röð.

Varðandi það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði svo að umtalsefni, og reyndar fleiri, um heildarniðurstöðuna, að það stefni þá í liðlega 22 milljarða halla í staðinn fyrir tæplega 18 eins og frumvarpið kom fram með í byrjun, tel ég vel ásættanlegt ef við náum landi með slíka tölu. Hún er mjög nálægt því að vera innan óvissumarkanna sem alltaf eru í þessum efnum. Að sjálfsögðu þeim mun lægra, þeim mun betra, en það er þó þannig að við erum í nágrenni við kannski 1,2% af vergri landsframleiðslu í hallatölu á árinu 2012 gangi það í grófum dráttum eftir og þá erum við nú komin langa leið. Þá erum við komin langa leið, hv. þingmenn, frá tæplega 15% halla árið 2008 og yfir 10% 2009 og 8% 2010. Og áætluðum kannski 2,7–2,8% halla á þessu ári miðað við niðurstöður fjáraukalagafrumvarps sem hér var afgreitt á dögunum.

Við getum líka farið með nafntölurnar ef hv. þingmenn vilja það. Það er heilmikill munur á 22 milljörðum í halla, eða eitthvað í nágrenni við það, á árinu 2012 og 216 milljörðum árið 2008. Það er heilmikill munur á því sem glöggir sjálfstæðismenn á tölur hljóta að viðurkenna. 140 milljörðum árið 2009, rúmlega 120 árið 2010, 46 á þessu ári og þessari tölu á árinu sem í hönd fer. Þetta hljóta allir að viðurkenna.

Inni í þessum tölum á mismunandi tímum eru að sjálfsögðu bókfærslur á stórum áföllum, eins og á árinu 2008 og aftur á árinu 2010. Þetta sýnir þó að undirliggjandi rekstur ríkisins hefur stórbatnað í þessum efnum, afgangur af frumjöfnuði upp á 35 milljarða á næsta ári er gífurleg breyting frá því að vera með neikvæðan frumjöfnuð upp á um 100 milljarða eins og við vorum þegar verst lét. Það er góður mælikvarði á það hvernig undirliggjandi rekstur ríkisins hefur þróast. Við höldum okkur bara við að ræða um þetta á grundvelli staðreynda, er það ekki, hv. þingmenn?

Varðandi Sparisjóð Keflavíkur sem hér hefur nokkuð verið ræddur, og opnar heimildir í þeim efnum, er vissulega farið fram á það að lögheimildir séu til staðar til að takast á við það mál, jafnt á næsta ári sem þessu, einfaldlega í ljósi þess að það verða væntanlega ekki komnar lyktir í það mál fyrr en kemur inn á næsta ár. Menn tala þar um einhverjar opnar heimildir, en hvernig ætluðu menn að hafa það? Á að áætla einhverja tölu þar? Eru hv. þingmenn að mæla með því að við sýnum Landsbankanum hvað við værum til í að borga honum? Það er ágreiningur um matið á þessu eignasafni og það stefnir í að það fari í úrskurð og er þá nokkuð annað að gera en að fá þá tölu fram og takast svo á við það hvernig samið verður um það uppgjör þegar talan liggur fyrir og hvernig það verður þá í ljósi þess hvernig um það verður búið og hvernig það verður bókfært? Það er ekki verið að fela eitt eða neitt, þetta liggur fyrir opnum tjöldum og allar upplýsingar, jafnóðum og þær liggja þá fyrir, verða góðfúslega reiddar fram á þinginu.

Ég bið hv. þingmenn, kannski ekki síst sjálfstæðismenn, að velta þessu aðeins betur fyrir sér með opnar heimildir. Það voru dálítið opnar heimildir, var það ekki, sem menn fengu í neyðarlögunum? Það voru ekki miklir verðmiðar settir á það (REÁ: En …) þegar menn stóðu frammi fyrir jafnvel hundruðum milljarða útgjöldum sem þeir urðu að takast á við og mæta, áföllum þegar nánast allt fjármálakerfið var að hrynja og menn sóttu sér inn á Alþingi og fengu afgreiddar á nokkrum klukkustundum mjög ríkulegar heimildir til að takast á við það ástand, enda ekkert annað hægt en að búa sig undir að gera það. (REÁ: En …) Við höfum auðvitað þurft aftur og aftur á þessum tíma síðan að takast á við óvænt áföll og uppákomur sem tengjast þessu hruni. Hér er eftirlegukind af því á ferðinni, því miður, en vonandi þar með líka ein af þeim síðustu. Það eru góðar líkur á því að þetta sé síðasta umtalsverða kjaftshöggið eða áfallið sem ríkið geti enn átt í vændum að þurfa að taka á sig vegna áfallanna sem urðu, sérstaklega í fjármálakerfinu. Það er auðvitað munur á þessu og hinu þó að það þurfi kannski að styrkja eigið fé Byggðastofnunar eða Íbúðalánasjóðs, sérstaklega þegar þar er þó orðið um eigið fé að ræða sem bókfært er sem eign á móti.

Ég sé ekki annað en að við verðum einfaldlega að horfast í augu við að svona er þetta, þetta er kostnaður sem leiðir af þeirri margendurteknu yfirlýsingu, bæði fyrrverandi og núverandi stjórnvalda, að allar innstæður í bönkum og sparisjóðum í landinu sem kunni að lenda í þroti eða erfiðleikum verði varðar. Við þá yfirlýsingu hefur verið, og verður, staðið því að það er að sjálfsögðu ekki hægt að snúa þar við í miðri á. Eða mælir einhver með því að þeir sem voru svo óheppnir að vera með viðskipti sín í Sparisjóði Keflavíkur fái allt aðra og ósanngjarnari meðferð en þeir sem áttu innstæður í bönkum sem fyrr hrundu? Nei, væntanlega ekki. (Gripið fram í.) Og er þá ekki málið tiltölulega einfalt, að því miður verður það þá þannig að við verðum að taka þann kostnað á okkur sem nemur mismuninum á innstæðum og eignum í þeim stórlaskaða sparisjóði sem þarna var og hryllilega á sig kominn eins og dæmin sýna.

En góðu fréttirnar eru þær að þegar þetta er kortlagt eru góðar horfur á því að þetta sé ein helsta og langstærsta eftirlegukindin af þessu tagi sem þarna liggur eftir. Að öðru leyti hafa menn komist vel frá því og ríkið hefur sloppið án þess að þurfa að leggja frekari fjármuni fram, t.d. í tilviki fjórða stærsta eignasafnsins í kerfinu sem var Byr, með því að það tókst að selja þá starfsemi og ríkið fékk að uppistöðu til til baka þá takmörkuðu fjármuni sem það reiddi fram þegar Byr hf. var stofnaður.

Ég tel að þrátt fyrir allt og allt getum við ágætlega við þann árangur unað sem við höfum náð, hann er stórfelldur og við réðum ekki við útgjaldaauka kjarasamninganna og aðra hluti sem nú er tekist á við nema vegna þess að við vorum búin að ná hallanum það mikið niður og koma það góðum böndum á þetta þá þegar. Það er rangt sem hér er haldið fram, að í þessu felist fráhvarf frá þeirri samstarfsáætlun sem við höfum unnið með í samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lukum í ágúst sl., einfaldlega vegna þess að hún hefur verið löguð að því á hverjum tíma sem við vorum að gera og samþykkt af þeim hinum sama Alþjóðagjaldeyrissjóði. Það hefur verið grundvöllur endurskoðananna allt fram á þetta haust þegar fyrir lágu forsendur bæði fjáraukalaga- og fjárlagafrumvarps og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og stjórn hans samþykkti síðustu endurskoðunina á grundvelli þeirra upplýsinga. Sá taktur sem nú er unnið samkvæmt er í fullu samræmi við niðurstöðuna sem þá fékkst og var studd af stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þá breytingu á aðlöguninni sem er fólgin í því þá að stefna í grófum dráttum að jöfnuði á árinu 2013 og afgangi árið 2014.

Um hinar almennu aðstæður vil ég segja að við erum að fá nokkuð staðgóðar, held ég, upplýsingar sem varla þarf að óttast mikið um að reynist ekki nokkurn veginn réttar, eftir ítrekaðar mælingar á þessu ári, að hagvöxturinn verður af stærðargráðunni 2,5–3%. Það sýna ársfjórðungslegar mælingar og spám ber orðið nokkurn veginn saman um það. Spurningin er hvað við gætum átt inni frá spá Hagstofunnar miðað við til dæmis heldur betri spá Seðlabankans. Bilið er 2,5–3,1%, þar á milli.

Allar vísbendingar úr hagkerfinu segja sömu sögu, mælingar á aukinni einkaneyslu, aukinni kortaveltu, aukningu í fjárfestingu og öðrum slíkum hlutum.

Þá eru sem betur fer að afsannast allar hrakspár um það frá umræðum á svipuðum tíma fyrir ári að aðgerðirnar þá og fjárlögin fyrir þetta ár mundu kæfa það allt í fæðingu. Því var haldið hér fram, jafnvel af menntuðum hagfræðingum, að þetta mundi allt saman kæfa allan hagvöxt hér í fæðingu. Það hefur ekki gengið eftir, spár um lækkun atvinnuleysis hafa gengið eftir. Það hefur sem betur fer látið undan síga þó að það mætti gjarnan gerast hraðar.

Staða landsins hefur tvímælalaust batnað. Við getum reitt fram margt til vitnisburðar um það. Ég minni gjarnan á það að sá dómari sem enginn getur kannski deilt við í þeim skilningi að hann ræður sér sjálfur, herra markaður, brást þannig við í júnímánuði sl. að hann keypti á ágætiskjörum 1 milljarð bandaríkjadala af íslenska ríkinu. Þeir sem þekkja eitthvað til þeirra mála vita að það þarf dálítið til að sannfæra markaðinn um að kaupa ríkisskuldabréf af landi sem hefur gengið í gegnum þvílíkar hremmingar eins og Ísland var búið að gera, eftir að okkur hafði verið lokaður aðgangur að þeim hinum sömu mörkuðum síðan 2006.

Lánshæfismatsfyrirtækin hafa á undanförnum mánuðum farið að fjalla um Ísland með jákvæðari hætti, viðurkennt að hér væri bati genginn í garð og horfurnar að lagast. Nú hefur það verið staðfest með því að eitt af stóru matsfyrirtækjunum hefur tekið Ísland af neikvæðum horfum og fært það yfir á stöðugar, bæði hjá ríkinu og Landsvirkjun.

Endurtryggingafélög hafa tekið Ísland inn á sitt viðskiptakort sem höfðu haft það lokað áður. Bankar og fyrirtæki finna fyrir því að það er að greiðast um í samskiptum þeirra við erlenda aðila, jafnvel þannig að sumir eru farnir að undirbúa skuldabréfaútboð sem menn hefðu kannski ekki spáð fyrir einu eða tveimur árum að menn eyddu mikið tíma sínum í.

Nokkur íslensk félög hafa fjármagnað sig núna með samningum við erlenda banka, Icelandair og fleiri. Landsvirkjun hefur gengið vel að fjármagna sig, í raun bæði á innlendum og erlendum markaði, núna síðustu mánuðina. Þannig gæti ég áfram talið, allt eru þetta heldur góð merki um að ástandið er að lagast og staða landsins að styrkjast. Við getum tekið áhættuálagið og hvernig það hefur þróast, hvernig þróunin á Íslandi hefur skorið sig úr frá flestum öðrum löndum. Við getum tekið kjörin með ríkisskuldabréfin á eftirmarkaði. Það er alveg sama hvar við berum niður, við getum verið alveg bærilega sátt við þróunina, sérstaklega í ljósi þeirra ólgusjóa sem núna ganga yfir hin vestrænu hagkerfi. Á sama tíma og lánshæfismat Íslands var styrkt voru fjögur Evrópuríki felld, í sömu viku, tvö þeirra í ruslflokk. Jafnvel er öll Evrópa komin á gult ljós. Það er ekki fagnaðarefni, það er ástæða til að hafa af því miklar áhyggjur hvernig málin standa þar. Við skulum gæta að því að auðvitað mun það skila sér með einum eða öðrum hætti til okkar ef ástandið heldur áfram að versna þar.

Miðað við allt og allt, og þó það að okkur er áfram spáð um 2,5% hagvexti á næsta ári, auðvitað með óvissu um og dálitlum fyrirvörum gagnvart því hvernig viðskiptakjör okkar halda. Það er kannski stærsti einstaki óvissuþátturinn hvaða áhrif erfiðleikar í efnahagslífinu á okkar stærstu markaðssvæðum koma til með að hafa á viðskiptakjör okkar, á einfaldlega verðið á okkar stærstu og mikilvægustu útflutningsafurðum og mögulega líka á gengi ferðaþjónustunnar, þótt þar hafi að vísu gengið ævintýralega vel og geri enn, bókanir séu góðar núna á haustmánuðum fyrir veturinn og horfurnar næsta ár satt best að segja ævintýralegar ef þar má búast við svipuðum vexti aftur og við fengum í ár. Það er nokkuð ljóst að umfang flugstarfsemi til landsins verður meira en nokkru sinni í sögunni, að flugáætlanir að minnsta kosti stærsta íslenska flugfélagsins verða enn umfangsmeiri á næsta ári með nýjum áfangastöðum. Það sem ánægjulegast er er að meiri áhersla er lögð á heilsársumferð og vetrarferðamennskuna, í góðu samstarfi reyndar greinarinnar og stjórnvalda.

En það er auðvitað þannig, herra forseti, sem mér finnst að menn eigi að ræða bara yfirvegað og eins og það er og af sanngirni, ef má biðja um hana, að það er að reynast mjög erfitt að snúa hagkerfið í gang á þeim markaðssvæðum þar sem uppdráttarsýki efnahagskreppunnar er enn á ferðinni. Þessi kreppa er að því leyti sumpart ólík öðrum sem hafa á undan gengið að staða ríkjanna til að beita sér í þeim efnum er miklu þrengri, fyrst og fremst vegna þess að ríkissjóðirnir sjálfir eru orðnir svo skuldugir að það setur því miklu meiri skorður og að þetta er svo almennt, þegar nánast heil heimsálfa eins og Evrópa á undir, og bætir ekki úr skák að Bandaríki Norður-Ameríku eru í erfiðri stöðu líka, að þá eru smitáhrifin svo neikvæð. Það eru færri mótorar til að draga vagninn og þó að hagvöxtur í nýmarkaðsríkjunum hafi vissulega haldið eftirspurn uppi í heiminum og skili þeim litla meðaltalshagvexti sem þó er eru þau líka orðin mjög tengd stóru mörkuðunum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Niðurstaðan er sú, sem einfaldlega blasir við okkur, að það gengur mjög hægt að snúa þetta aftur í gang og sums staðar eru horfurnar aftur versnandi og nú spáð lægri hagvexti en áður hafði verið gert. Horfurnar þar, t.d. yfir OECD-hópinn í heild, eru heldur dapurlegar. Það er kannski verið að tala um 0,5–1,5% hagvöxt á stórum svæðum, og ekki mikið meira að meðaltali.

Er það þá svo skelfilegt, eru þá innstæður fyrir hrópum sumra hér, og ég er ekki bara að tala um innan þessara veggja heldur líka sumpart úti í þjóðfélaginu, ef við erum að ná 2,5–3% hagvexti í ár og kannski svipuðu á næsta ári, miðað við allt og allt? Einhver mundi nú segja að ekki hefði það verið léttara eftir þetta risavaxna áfall sem skall á Íslandi að snúa hjólin hér í gang. Mér finnst það satt best að segja nánast barnalegt þegar menn tala um þessa hluti þannig að það sé bara hægt að smella fingrum og þá sé kominn hérna bullandi hagvöxtur samanber þensluna á árunum 2005–2007. En af hverju var hún drifin? Jú, þá var þensla og uppgangur meira og minna í öllum hagkerfum, þá flæddi ódýrt lánsfjármagn um heiminn og þá voru menn á hátindi hinnar skuldadrifnu bólu sem skóp ímyndaðan vöxt sem reyndust ekki góðar innstæður fyrir. Kannski menn ættu aðeins að gíra sig niður og tala um þetta á raunhæfari forsendum. Það breytir ekki hinu, sem er auðvitað hið ánægjulega, að Ísland er að mörgu leyti í mjög ákjósanlegri stöðu að þessu leyti af því að við erum með framleiðsludrifið og útflutningsdrifið hagkerfi. Við byggjum að stórum hluta okkar útflutning á raunverulegum vörum, hráefni, sem eru ekki eins næmar fyrir sveiflum á mörkuðum og kannski aðrar vörur eða þjónusta. Viðkvæmasta grein okkar í þessum efnum ætti að vera, og er að mörgu leyti, ferðaþjónustan, eftirspurnarháð. Það getur átt við að hluta til um sumar af okkar nýju sóknargreinum sem sækja fram á sviði afþreyingariðnaðar eða skapandi greinar, þótt þær hafi reyndar staðið sig mjög vel og njóta þess að þar eru yfirleitt á ferðinni greinar sem eru í vexti, eru í undirliggjandi vexti, eins og hugbúnaðar- og afþreyingar- og sköpunargreinar margar eru. Þegar þetta er kortlagt má nú segja að Ísland sé býsna heppið, að vera ekki bara að framleiða stóra bíla eða lúxusvörur eða reyna að selja einhverja þjónustu sem er mjög eftirspurnarháð og næm fyrir sveiflum. Það er það sem gerir að verkum að okkar ágæta Hagstofa metur það svo að þrátt fyrir óvissuna séu sæmilega góðar horfur á því að útflutningskjörin haldist í aðalatriðum, álverð verður væntanlega eitthvað lægra en þegar það var í toppi, en jafnvel að viðskiptakjör varðandi sjávarafurðir haldi sér furðanlega vel þótt ég verði að vísu að játa að ég hef nokkrar áhyggjur af því að þar gæti reynst um ofmat að ræða, einfaldlega vegna þess hve verðið hefur hækkað mikið á undanförnum missirum, og í sumum tilvikum jafnvel upp fyrir þol markaðanna. Ef við sjáum til dæmis verðlækkun á laxi sem orðið hefur núna á Frakklandsmarkaði mundi maður ætla að það væri viss hætta á því að það gæti haft einhver smitandi áhrif yfir í verðlækkun á að minnsta kosti tilteknum öðrum sjávarafurðum.

Það mun hins vegar lagast aftur. Og þá kemur enn að því hvað Ísland er heppið, að það er enginn vafi á því að matvælaframleiðsla er góð grein til framtíðar litið að staðsetja sig í vegna vaxandi eftirspurnar og þarfa á því sviði á komandi árum og áratugum. Auðvitað er það þannig, það spá því allir að vísitölur matvælaframleiðslu fari hækkandi til lengri tíma litið í heiminum.

Hvað erum við með? Jú, við erum með okkar grunnatvinnugreinar, framleiðsludrifið og útflutningsdrifið hagkerfi að því leyti. Við erum með orkuna sem sömuleiðis allar spár gera ráð fyrir að hækki í verði og við erum með kraftmiklar nýsköpunargreinar og gríðarlega ört vaxandi ferðaþjónustu sem siglir satt best að segja hraðbyri í það að verða stærsta útflutningsgrein Íslands, stærsti gjaldeyrisaflandi Íslands ef svo heldur sem horfir. Það er ekki flókinn framreikningur að sjá að gangi áformin þar svona í grófum dráttum eftir verður ferðaþjónustan orðin númer eitt eftir fimm til átta ár. Það er nokkurn veginn borðleggjandi. Meðal þess góða við hana er að hún skilur stærstan hluta veltu sinnar og verðmætasköpunar eftir í hagkerfinu.

Að þessu leyti held ég að við þurfum ekki að vera svo hnípin, við erum enn að kljást við erfiðleikana, þeir eru vissulega til staðar og þess sér auðvitað stað í þessu fjárlagafrumvarpi, við erum ekki komin í land en við höfum náð risaskrefum í þeim efnum og eftirleikurinn er mun auðveldari en það sem á undan er gengið. Ég hef sagt það áður og get endurtekið það hér að ég ætla svo sannarlega að vona að það muni aldrei nokkur íslenskur fjármálaráðherra framar, eða að minnsta kosti á næstu áratugum, þurfa að leggja fram fjárlagafrumvörp eins og þau þrjú sem ég hef þurft að gera. Þannig á það ekki að vera. Hver sem það gerir á komandi árum, ég spái að honum verði léttari róðurinn en hann hefur verið fyrir okkur.

Ég gæti haldið langa ræðu um það hvers virði þessi barátta hefur verið af því að mér finnst það satt best að segja ævintýralegt af hversu mikilli léttúð menn skauta yfir það sem blasti við Íslandi og hversu hættuleg staðan var orðin, hversu hratt við hefðum við hefðum farið á hausinn ef við hefðum ekki tekist á við okkar mál og náð umtalsverðum árangri hratt. Ég held að þær ráðleggingar sem við fengum í þeim efnum hafi verið hárréttar. Það var einfaldlega þannig að það var augljóst mál að skuldastaðan gat orðið svo hratt svo hættuleg að við höfðum ekki efni á því að bíða, við gátum ekki leyft okkur það ábyrgðarleysi að lina þjáningarnar með því að slá því á frest í umtalsverðum mæli að takast á við vandann. Þess vegna tel ég að ein mikilvægasta ákvörðunin sem þessi ríkisstjórn hafi tekið hafi verið að hefjast strax handa á miðju ári 2009 í stað þess að bíða út það ár eins og upphaflegar áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Þá réðumst við í aðgerðir upp á um þriðja tug milljarða á hálfu ári sem á heilsársgrundvelli slagaði í 50 milljarða. Og þær hafa fylgt okkur síðan. Ofan á þær höfum við lagt þær aðgerðir sem við höfum síðan ráðist í og það er kortlagning á því í skýrslunni um ríkisfjármálaáætlun, Ríkisbúskapnum 2012–2015, hvernig þessar aðgerðir hafa lagst saman. Þær eru miklu umfangsmeiri en menn átta sig á í fljótu bragði.

Ég tel að blandan sem valin var með tekjuöflun, sparnaðaraðgerðum og sumpart örvandi aðgerðum hafi líka í aðalatriðum heppnast nokkuð vel. Það var engin önnur fær leið, það var útilokað að hægt væri að takast á við þetta bara á annarri hvorri hliðinni. Ef við hefðum ekki stöðvað tekjufallið með aðgerðum á þeirri hlið hefði vandinn orðið enn meiri. Ef við hefðum ekki gert allt sem við töldum okkur geta til að draga úr útgjöldum hefði það líka hefnt sín síðar. Og við höfum líka beitt hvetjandi aðgerðum þó að minna sé um það talað. Við höfum sett mikið fé í umferð með útgreiðslu séreignarsparnaðar, við höfum aukið endurgreiðslur eins og til viðhalds og endurbóta á íbúðarhúsnæði og tekið húsnæði sveitarfélaganna þar með, aðgerð sem hefur tvímælalaust heppnast vel og haldið uppi eftirspurn og skapað störf á því sviði. Ég gæti nefnt fleira af þessu tagi sem við höfum gert, tekið upp endurgreiðslukerfi vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar í atvinnulífinu. Það kom mörgum slíkum fyrirtækjum skemmtilega á óvart núna í október þegar þau fengu sendar ávísanir. Ég get nefnt mönnum dæmi um nýsköpunarfyrirtæki sem fékk 12 millj. kr. ávísun, eða bara innlegg á reikninginn sinn eins og það er víst orðið í dag. Þeir hoppuðu hæð sína í loft upp af gleði og hringdu og sögðu: Þetta er stórkostlegt, þetta bjargar öllu hjá okkur. Nú getum við haldið áfram.

Það væri hægt að tína ýmislegt til ef maður hefði tíma til þess eða teldi að það væri til einhvers því að kannski er talað hér fyrir daufum eyrum og menn hafa ekki áhuga á að heyra hluti af þessu tagi. Það er meiri áhugi á að draga upp dökku myndina, finnst mér, því miður, hjá ansi mörgum.

Veruleikinn er sá að þegar staða Íslands er skoðuð, borin saman við þau lönd sem við gjarnan berum okkur saman við kemur út merkilega hagstæð mynd. Flestallar kennitölur Íslands standa núna betur en annars staðar á Norðurlöndunum, að frátöldum Noregi. Það er þannig. Minna atvinnuleysi, minni halli á ríkissjóði og nettóskuldastaða ríkisins er mjög vel samanburðarhæf við nálæg lönd, að Noregi slepptum, og betri en meðaltal OECD-ríkjanna. Þetta kemur kannski mörgum á óvart.

Það er rétt að brúttóskuldirnar fóru verulega upp, eru kannski í kringum 86–87% af vergri landsframleiðslu núna hjá ríkinu, en nettóstaðan mun betri. Það er vegna þess að á móti hluta þessara skulda standa verðmætar eignir, eins og við þekkjum, sem betur fer. Í því ljósi getum við sæmilega vel við unað og ég held að ég ljúki með því að segja að ég gæti ekki verið meira ósammála einum manni en ég er hv. þm. Þór Saari, sem enn kemur ræðurnar sínar um að við eigum að gefast upp og tilkynna umheiminum að við ráðum ekki við að borga af skuldunum okkar. Hvernig liti það út ef við mættum með okkar kennitölur og færum að ræða það við þá sem við þyrftum væntanlega að fara að ræða við? Ég veit reyndar ekki hverjir það eiga að vera því að að uppistöðu til eru þetta lán sem við skuldum annaðhvort okkur sjálfum hér í hagkerfinu eða þau lán sem við höfum fengið frá samstarfsaðilum okkar til að byggja upp gjaldeyrisvaraforðann, og forðinn er þar á móti. Varla fengjum við felld niður lánin sem við fengum til að byggja upp gjaldeyrisforða sem við eigum. Ætli það? Þeir yrðu dálítið skrýtnir ef við færum fram á það. Menn mundu einfaldlega skoða kennitölur Íslands og segja: Heyrðu, bíddu nú við, já, Íslendingar? Hvað með Ítalíu, er hún ekki með 120% skuldir? Þær eru að vísu að verulegu leyti innan hagkerfisins. Menn viðurkenna auðvitað að Grikkir munu ekki ráða við sín 150, 160, 170% en veruleikinn væri þá sá að Íslandi færi fram á hluti sem fjölmörg Evrópuríki biðja ekki um, heldur reyna að kljást við sinn vanda og eru þau þó með þyngri stöðu að þessu leyti en við og miklu háðari endurfjármögnun skulda sinna jafnvel á markaði mánuð frá mánuði. Stóri munurinn á stöðu Íslands og þeirra ríkja er sá að við erum ekki í neinum fjármögnunarvanda og það dregur núna hratt úr þörf ríkisins til að auka við sínar skuldir, t.d. hér innan lands. Það stefnir í að við þurfum í mesta lagi að endurnýja þann skuldastabba sem við erum að fjármagna hér innan lands frá lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum og erlendu skuldirnar að uppistöðu til, að því marki sem þær eru hjá ríkinu af þeim toga sem ég hef áður nefnt.

Vaxtabyrðin er auðvitað þung, það er rétt, það er mjög blóðugt að sjá um 15% af tekjum ríkisins fara í að greiða vexti. En er það þá ekki hvatning og brýning til þess að láta þá tölu ekki hækka? Og hvert væri hún komin í dag ef við hefðum ekki tekist á við vandann? Hvað halda menn að hallinn, ef hann hefði haldið áfram á svipuðum slóðum og hann var 2008 og 2009, þýddi í dag ef hann væri allur á fóðrum og yrði það áfram? Þá væru það milljarðatugir í viðbót í vexti.

Við njótum þess auðvitað að við höfum þegar náð þarna mjög umtalsverðum árangri þó að glímunni sé engan veginn lokið. Það er vissulega líka rétt.

Okkar brýnustu viðfangsefni núna eru auðvitað að ljúka þessu verki, að standa við þá áætlun sem við höfum sett okkur, að komast í jöfnuð ekki seinna en á árinu 2013 og vera komin með afgang 2014 þannig að við getum þá þar byrjað að borga skuldirnar niður og/eða eftir atvikum farið að bæta í þá málaflokka sem við teljum að þurfi að fá meira til sín, að koma fjárfestingum og uppbyggingu betur í gang. Þar horfir til réttrar áttar, t.d. í kringum það hvernig fasteignamarkaðurinn og að hluta til byggingariðnaðurinn er að byrja að lifna við, og einstök meðalstór eða stærri fjárfestingarverkefni væru að sjálfsögðu kærkomin inn í þessa mynd líka. Ég er fjallbjartsýnn á að þau muni skila sér, jafnvel þau fyrstu í gegnum samninga á allra næstu vikum eða fáeinum mánuðum. Þá tökumst við bara áfram á við þetta af fullri einurð. Það væri minni ástæða nú til að gefast upp eða fyllast svartsýni en oft var áður á árunum 2009 og 2010 þegar enn var miklu tvísýnna um það hvernig Íslandi mundi í raun og veru reiða af í gegnum þetta allt saman meira og minna.

Herra forseti. Ég læt svo lokið máli mínu og endurtek þakkir mínar til fjárlaganefndar og ekki síst til formanns og varaformanns sem eðli málsins samkvæmt hafa borið dálítið hitann og þungann af því mikla starfi að koma málinu í þennan búning.