140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég man rétt var gert samkomulag og lögð fram áætlun um það að styðja við listamenn og listsköpun í landinu með ákveðnu samkomulagi sem í áföngum þýddi aukin framlög til þeirra vegna fleiri stöðugilda sem voru sett í listamannalaun og þau verkefni. Var talið ákaflega mikilvægt að hlúa að þeirri starfsemi eins og ýmsu öðru í gegnum kreppuna.

Nú veit ég að hv. þingmaður er vel að sér um þetta og hann veit að listsköpun og störf að listum eru mikilvæg starfsemi í landinu, það er fullgild vinna eins og annað, ekki satt? Þetta á sér þá forsögu, ef ég man rétt, og án þess að ég geti fullyrt um þessa tölu nákvæmlega gef ég mér að það sé þetta sem hér er fyrst og fremst á ferðinni. Að öðru leyti get ég farið í lengri umræðu við hv. þingmann ef tíminn leyfði um það hvernig við höfum reynt að standa að málum í þessum efnum, bæði varðandi útfærslu sparnaðaraðgerða og tekjuöflunaraðgerða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú haft sínar skoðanir á því.

Einu getur hann ekki mótmælt (Forseti hringir.) og það er að við höfum reynt að dreifa byrðunum meðal annars og ekki síst gegnum skattkerfið með eins sanngjörnum hætti og mögulegt er.