140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður viðurkennir að það sé dálítill munur á 22 milljörðum og 216 eða þeim 170–180 milljarða halla sem stefndi í að yrði á árinu 2009 ef ekki hefði verið gripið til aðgerða á því ári. Ég fagna því að menn viðurkenna þó að við erum komin langa leið.

Varðandi Sparisjóð Keflavíkur er það ljóst að þar verður um einskiptisbókfærslu — (Gripið fram í: … í 216 milljarða …) það er alveg rétt, enda sagði ég það, hv. þingmaður, ég sagði að árið 2009 væri samanburðarhæfara hvað undirliggjandi rekstur snertir og hallinn á frumjöfnuði þá upp á 100 milljarða í staðinn fyrir þá 35 milljarða afgang á næsta ári. Það eru kannski sambærilegri tölur því að þá trufla ekki óreglulegir liðir. En það sama er, hvort tveggja er gríðarlegur árangur.

Já, það verður auðvitað sársaukafullt að þurfa að takast á við og gera upp eða bókfæra með einhverjum hætti áfall sem verður vegna Sparisjóðs Keflavíkur en það verður einskiptiskostnaður.

Það verða leifar af áföllum af því tagi sem við höfum aftur og aftur þurft að taka inn í ríkisreikninginn því miður og nú fer þeim vonandi að ljúka og þeim fer fækkandi. Það breytir ekki þeim (Forseti hringir.) árangri sem við erum að ná í undirliggjandi (Forseti hringir.) rekstri ríkisins, þótt sárt sé.