140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er ekkert sárt að viðurkenna það ef menn eru að ná árangri, það er bara rangt að halda slíku fram eða reyna að gefa það til kynna, aldrei höfum við haldið slíku fram.

Af því að við erum að skiptast á skoðunum varðandi halla, rekstur og uppgjör á því langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir einu út frá því hvernig hann ræddi um heilbrigðismálin og að menn væru að mæta óskum um vægari niðurskurð o.s.frv. Mig langar að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þeirra tillagna sem liggja fyrir í vinnuskjali, sem fjárlaganefnd fékk rétt áður en málið var tekið úr nefndinni, um mismunandi aðferðir við að gera upp hallarekstur ríkisstofnana sem heita heilbrigðisstofnanir. Hvernig í ósköpunum ætla menn að forsvara það verklag sem hér er lagt til, að halli á einni stofnun er gerður upp, geymdur, frystur, en á annarri er hann látinn koma að fullu fram? Hvers vegna er það verklag viðhaft í þessum mikilvæga og viðkvæma málaflokki?