140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra tók það óstinnt upp þegar hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talaði um forgangsröðun og spurði hann út í norræna velferð.

Mér finnst þetta alltaf snúast um forgangsröðun. Hæstv. fjármálaráðherra sagði: Það var engin önnur leið fær, við þurftum að hækka skatta og skera niður. Hann gleymir því að það er líka hægt að auka tekjurnar með aukinni atvinnusköpun en það er nokkuð sem ríkisstjórnin vill aldrei hugsa um og vinnur gegn ef eitthvað er.

Fyrst við tölum um forgangsröðun hef ég reynt að aðstoða Brunavarnir Suðurnesja við að fá 15 millj. kr. framlag til að tryggja áframhaldandi sjúkraflutninga á Suðurnesjum þannig að ekki skapist hættuástand. Þá mætum við þeim svörum að það séu bara engir peningar til. Á sama tíma sé ég í breytingartillögum að 37 millj. kr. eru ætlaðar til fjölgunar aðstoðarmanna ráðherra, 12 milljónir til saksóknara Alþingis, það er hægt að sleppa því á einu bretti. (Forseti hringir.) 150 milljónir voru til tollstjóra vegna nýs tollkerfis (Forseti hringir.) í frumvarpinu þar sem sagt er að það sé óumflýjanlegt á næsta ári. (Forseti hringir.) Tekur hæstv. fjármálaráðherra undir að það sé óumflýjanlegt?

(Forseti (SIJ): Forseti vill enn minna þingmenn og ráðherra á að virða ræðutíma.)