140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að stóru drættirnir eru mikilvægir. En smáu fjárveitingarnar í fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra snúast um fólk. 15 milljónir til sjúkraflutninga, ég nefni það dæmi af því að það er svo kristaltært. Það er óumflýjanlegt að leggja 150 milljónir í að búa til tollkerfi fyrir tollstjóra. Óumflýjanlegt er rosalega stórt orð. Hvað gerist ef þessar 150 milljónir yrðu dregnar til baka og settar í verkefni sem eru sannarlega óumflýjanleg, til dæmis eins og að bjarga mannslífi með sjúkrabíl? Það hefur komið fyrir í þrígang á undanförnum vikum að sjúkrabíll hefur ekki verið til staðar. Það er óumflýjanlegt. Og það er kannski ekki einfalt fyrir hæstv. fjármálaráðherra að segja til um einstakar fjárveitingar hingað og þangað en hann ber sannarlega ábyrgð á 150 millj. kr. fjárveitingu, bæði sem fjármálaráðherra og sem fagráðherra yfir því máli.

Getur það verið, sem maður heyrir sagt, (Forseti hringir.) að þessi 150 millj. kr. fjárveiting sé óumflýjanleg vegna þess að hún er hugsuð til (Forseti hringir.) að uppfylla kröfur ESB vegna umsóknarinnar?