140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki haft alveg rétt eftir mér, ég held að ég hafi ekki sagt að það gengi vel. Ég sagði að við gætum miðað við allt og allt og hvernig mál væru að þróast til dæmis í löndunum í kringum okkur og að við gætum bærilega við unað. Það er afstaða mín, það er skoðun mín, það er mat mitt á ástandinu. Hv. þingmaður má að sjálfsögðu vera því ósammála og bið ég hann þá gjarnan að færa fyrir því rök. (Gripið fram í.) Ef honum finnst það svona skelfilegt að vera með eina skástu hagvaxtarspá innan OECD í ár og á næsta ári er það bara hans mat að það sé samt óásættanlegt. Hv. þingmaður er þá heppinn að búa ekki í einhverju af þeim löndum þar sem ástandið er mun alvarlegra og verra.

Varðandi hagvöxt eða markmið um verðbólgu man ég ekki eftir því að ég hafi sett mér einhver sérstök markmið í þeim efnum. Við höfum birt spár eins og þær hafa legið fyrir á hverjum tíma. Það er almennt ekki þannig að ríkisstjórn setji sér sjálfstæð markmið í þeim efnum heldur styðst hún við þær spár sem liggja til grundvallar hverju sinni. Verðbólgan hefur tímabundið farið upp, aðallega af þremur ástæðum: (Forseti hringir.) Hrávöruverð fór hækkandi lengi framan af þessu ári, (Forseti hringir.) gengi krónunnar gaf lítillega eftir og nokkur verðbólguáhrif kjarasamninganna á síðastliðnu vori.