140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég þurfi nú meiri tíma í það mál ef ég á að ræða við hv. þingmann, en hann skal hafa það í huga að því máli er ekki lokið og hann skal líka hafa það í huga að tafirnar sem urðu á því að leysa það mál voru ekki ókeypis fyrir Ísland. Um það veit enginn maður meira en sá sem hér talar.

Varðandi skýrslu um ríkisfjármál frá 2009 hygg ég að hún sé þannig fram sett að þar eru markmið í ríkisfjármálum, það er rétt, og í öðrum slíkum hlutum sem stjórnvöld hafa í sínum höndum að ákveða og setja sér markmið um í einhverjum mæli. En þegar kemur að hlutum eins og vöxtum, verðbólgu eða þróun landsframleiðslu eru það almennt spár sem menn notast við. Auðvitað getum við sett okkur göfug markmið um ýmislegt fallegt, að það eigi að vera gott veður eða hvað það nú er. En það hefur lítið upp á sig ef það er eitthvað sem er handan okkar valdsviðs að hafa áhrif á, þannig að almennt er greint þarna á milli, þess sem stjórnvöld geta með beinum hætti stýrt og haft áhrif á, eins og tök á ríkisfjármálum, og hinu sem menn gera spár um hvernig líklegt sé að þróist.