140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:00]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum nú öðru sinni um fjárlög komandi árs, 2012, og er af mörgu að taka, enda fjárlögin í sjálfu sér viðamesta yfirlýsing ríkjandi stjórnvalda þegar kemur að blessaðri pólitíkinni.

Það sannast í þessari umræðu að sínum augum lítur hver silfrið og að ekki eru allir sammála um hvaða veg beri að fara við fjárlagagerð við þær fordæmalausu aðstæður sem ríkja í íslensku samfélagi. Ég tel að við séum að laga okkur að þeim efnum sem við ráðum við, við erum að reyna að vinda ofan af þeirri stefnu sem var við lýði um langt árabil þegar eytt var um efni fram og hagstjórn Íslendinga var á að giska agalaus með margvíslegum aðgerðum sem kyntu undir það, svo sem óábyrgum skattalækkunum þegar mesta þenslan geisaði og hækkun þess hlutfalls sem menn gátu tekið að láni til íbúðarkaupa og svo mætti lengi telja.

Það er afskaplega brýnt að taka með róttækum hætti á útgjöldum ríkisins og reyna að verja sem fæstum krónum í vaxtagreiðslur ríkisins og það hefur verið stefna stjórnvalda á undanliðnum árum að reyna að kveða niður vaxtadrauginn svo við getum farið að byggja samfélag okkar upp á nýtt. Það gengur ekki að reka hér velferðarþjónustu í skugga allt of hárra vaxtagreiðslna og því hlýtur það að vera lykilhlutverk stjórnvalda á tímum sem þessum að reyna að grynnka á skuldum þjóðarbúsins. Það hefur verið gert af fremsta megni á undanliðnum árum og verður gert áfram.

Menn ræða mjög um það hvort einhver árangur hafi orðið af þessu verki. Ég tel að árangurinn sé augljós. Það er ólíku saman að jafna, frú forseti, að líta á ríkisfjármál á því herrans ári 2011 og horfa fram til 2012 miðað við þau ósköp sem ríktu í ríkisbúskapnum á árinu 2008 þegar menn glímdu við hrun og óskaplegar afleiðingar þess á alla íbúa landsins.

Við skulum ávallt hafa í huga við fjárlagagerð, og í umræðum um þá vinnu, að á bak við allar þær tölur sem felast í fjárlagafrumvarpinu er fólk. Þau stjórnvöld sem nú sitja að völdum hafa af fremsta megni reynt, að mati þess sem hér stendur, að miða aðhaldið sem mest og best að þörfum fólksins en vitaskuld hefur þetta verið erfið vegferð og vart hægt að kasta tölu á þær óvinsælu aðgerðir sem grípa hefur þurft til á undanliðnum árum.

Ég endurtek: Meginverkefnið við þessar aðstæður hlýtur að vera að minnka vaxtakostnaðinn með öllum tiltækum ráðum. Þess vegna hefur þurft að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða og ég tel það vera lýðskrum að nefna aðeins fáar þeirra, jafnvel eina. Það hefur þurft að hækka álögur á landsmenn, það var aldrei hægt að komast hjá því. Það hefur þurft að skera niður í ríkisútgjöldum, það var aldrei hægt að komast hjá því. Það þarf líka að spýta í í atvinnumálum og enda þótt sá liður, sú þriðja leið, hafi ef til vill ekki tekist sem skyldi eru samt teikn á lofti um að við séum að sækja fram í atvinnumálum á næstu vikum, mánuðum og missirum og er það vel. Auðvitað ber að hafa í huga í þeim efnum að atvinnulífið var svo að segja komið að fótum fram þegar hrunið varð vegna oflánastefnu og fyrirtækin voru fyrir vikið allt of skuldsett og líða fyrir það enn þann dag í dag.

Við erum að laga ríkisbúskapinn að þeim efnum sem við ráðum við. Við viljum ekki lengur fara langt fram úr fjárlögum á hverju ári, rétt eins og gerðist til dæmis í heilbrigðismálunum í aðdraganda hrunsins, þegar ríkisbúskapurinn í þeim lið fór tugum milljarða fram úr fjárlögum. Fjárlög landsmanna voru sem sagt engan veginn virt og við sitjum uppi með þann vanda í dag. Við erum að vinda ofan af vitleysunni í ríkisbúskapnum á undanliðnum árum. Og það er að takast.

Árangurinn er áberandi og það er í sjálfu sér eftirtektarvert að heyra hér í stjórnarandstöðu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, sem reyna að telja sjálfum sér trú um að ekkert hafi verið gert, engu hafi verið áorkað, þegar allar tölur benda einmitt í rétta átt og langflestir erlendir umsagnaraðilar, og reyndar líka fræðimenn hér heima, eru sammála um að Íslandi miði betur í framfaraátt í ríkisbúskap en langflestum löndum í kringum okkur.

Hér tala tölur vissulega sínu máli. Horfum fyrst aftur til ársins 2008. Hallinn á ríkissjóði hrunárið mikla 2008 var 216 milljarðar kr. eða um 14,6% af vergri landsframleiðslu. Það var hlutskipti nýrra stjórnvalda að taka við þjóðarbúinu í þessari stærð við þessar aðstæður. Þetta voru hveitibrauðsdagarnir, þær aðstæður sem ný stjórnvöld þurftu að búa við í byrjun nýrra tíma eftir hrun, árið 2008, 14,6% af vergri landsframleiðslu og það allt í mínus.

Hvað gerðist svo árið 2009 þegar ný stjórn tók við? Þá stefndi framan af í að minnsta kosti 170 milljarða kr. halla en samkvæmt fjárlögum fyrri ríkisstjórnar átti hann að vera 153 milljarðar. Í stað þess að bíða með aðgerðir — og þetta er lykilatriði, frú forseti — eins og upphafleg efnahagsáætlun þeirrar ríkisstjórnar með AGS gerði ráð fyrir hófst núverandi ríkisstjórn strax handa á miðju því ári og það er lykillinn að því sem síðar meir varð ávinningur aðhaldsaðgerðanna. Aðhalds- og niðurskurðaraðgerðir upp á þriðja tug milljarða ásamt stórauknu aðhaldi og eftirliti með að reksturinn yrði innan fjárheimilda skiluðu útkomu upp á tæplega 140 milljarða halla eða vel innan við 10% af vergri landsframleiðslu. Á einu ári komumst við sem sagt úr 14,6% niður í 10% vegna þess að strax var gripið til aðgerða, vissulega erfiðra og umdeildra aðgerða sem snertu hvert heimili og hvert fyrirtæki en það varð að grípa strax í taumana.

Umfangsmiklar aðgerðir á árinu 2010 skiluðu því að undirliggjandi rekstur ríkisins batnaði til muna, tekjuhalli frá rekstri varð nálægt 5%. Að vísu komu þar nokkrar einskiptisaðgerðir til sögunnar sem gerðu að verkum að tekjuhallinn endaði í 123 milljörðum eða um 8% af vergri landsframleiðslu. Enn þá vorum við á réttri leið.

Árið 2011: Fjárlögum yfirstandandi árs var lokað með liðlega 37 milljarða halla, eða áætluðum 2,3% af vergri landsframleiðslu, hann er reyndar orðinn aðeins meiri, 45 milljarðar. Þar höfum við líka inni útgjaldaáhrif kjarasamninga sem valda mestu um að hallinn gæti endað í nokkrum prósentum af vergri landsframleiðslu.

Á næsta ári horfum við fram á að hallinn á vergri landsframleiðslu verði um 1,5%.

Þetta er stóra myndin, frú forseti. Við erum að fara úr halla upp á næstum 15% af vergri landsframleiðslu niður í 1,5% á næsta ári. Ef þetta er ekki árangur veit ég ekki hvað það ágæta íslenska orð þýðir. Þetta er klár og augljós árangur, að fara úr 14,6% halla af vergri landsframleiðslu í 1,5%. Auðvitað hefur það kostað sitt, átök á stjórnarheimilinu, átök á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, það átti enginn von á öðru. Mest af þessu hafa verið óvinsælar aðgerðir sem engin ríkisstjórn gerir að gamni sínu. En þetta þurfti að gera og erlendir fræðimenn sem fjalla um Ísland horfa einmitt til þess að hér var strax var gripið í taumana og slíku aðhaldi beitt í ríkisbúskapnum að árangurinn fór um leið að láta á sér kræla. Þessar tölur benda afdráttarlaust til þess að við séum að ná árangri og við ætlum að ná enn frekari árangri í þessum efnum áður en kjörtímabilið er á enda.

Frú forseti. Við verðum líka að hafa í huga ný Hagtíðindi Hagstofu Íslands. Þar er gert ráð fyrir að landsframleiðsla vaxi um 2,6% á þessu ári, 2011, og spáin gerir ráð fyrir 2,4% hagvexti á næsta ári. Það er vel viðunandi hagvöxtur. Ég átti ágæt orðaskipti við sjálfstæðismenn við fjárlagaumræðu fyrr í vetur og þá voru þeir margir hverjir sammála mér um að óraunhæft væri að ætlast til þess að hagvöxtur á næsta ári yrði í kringum 5% eða þaðan af meira, menn voru sammála um að hann gæti varla orðið meiri en 3%. Þetta sögðu menn úr stjórnarandstöðunni, viðurkenndu að varla væri hægt að gera ráð fyrir meiri hagvexti en sem næmi 3% og ef til vill ívið meira, en aldrei 5–6% eins og margur hefur talað digurbarkalega um úr þessari pontu á undanliðnum árum. Aðstæður í samfélaginu og aðstæður á viðskiptamörkuðum okkar eru einfaldlega þannig að ekki er hægt að gera ráð fyrir meiri hagvexti en 3%. Á næsta ári er spáð 2,4% hagvexti, og vel að merkja inni í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir neinni uppbyggingu á orkusvæðunum í Þingeyjarsýslum enda þótt það sé fyrsti kostur Landsvirkjunar þegar kemur að orkuuppbyggingu, sem er nú þegar farin af stað með tilraunaborunum sem kosta á þriðja milljarð króna, og þegar liggja fyrir frumsamningar við að minnsta kosti tvo aðila og augljóst að framkvæmdir hefjast þar á næsta ári en þær tölur sem þar er vélað um eru ekki í þessari hagvaxtarspá. Með hæfilegri bjartsýni, raunsæi, má því gera ráð fyrir að þegar kemur að hagvexti sé þetta varfærin spá.

Þetta eru merki um ákveðinn viðsnúning. Við höfum náð botninum með rækilegu aðhaldi, með uppskurði á ríkisfjármálum, og við sjáum ljósið við enda ganganna, við sjáum árangur af þessu verki, við tökum eftir því að fyrirtæki og heimili í landinu eru farin að sækja í sig veðrið. En vitanlega má gera betur. Ég dreg enga dul á að enn eru ærnir erfiðleikar hjá venjulegum fyrirtækjum og venjulegum fjölskyldum og okkur ber að hlusta á fólk sem þar kvartar af eðlilegum ástæðum. Við fórum nánast á hausinn og allir hafa þurft að súpa seyðið af því. En tölur í nýrri þjóðhagsspá, sem kom út 24. nóvember, er varla vikugömul, benda til þess að við séum á uppleið, botninum sé klárlega náð og nú getum við byrjað að byggja upp.

Í þessari þjóðhagsspá kemur fram að á árinu 2012 sé áfram reiknað með hagvexti sem nemi 2,4% vegna aukningar einkaneyslu um 3% og fjárfestingar um 16,3%. Menn hafa talað um að fjárfesting þyrfti helst að vera 20% og þar yfir en við erum þó komin upp í 16,3%. Í téðri þjóðhagsspá segir síðan, með leyfi forseta:

„Eftir 2013 er reiknað með að vöxtur landsframleiðslu og einkaneyslu verði nærri 3% öll árin. Frá 2015 dregur úr vexti fjárfestingar en stóriðjufjárfesting verður byrjuð að dragast saman 2014.“

Eins og ég gat um áðan eru framkvæmdir á helsta og mesta jarðvarmasvæði, sem enn er óvirkjað, í Þingeyjarsýslum ekki inni í þessum tölum og því skulum við vera hóflega bjartsýn og reikna með að þessar hagvaxtarspár gangi eftir.

Ég nefndi áðan þrjár leiðir. Við þurftum að grípa til breytinga á skattkerfinu, aðlaga það nýjum tíma. Við þurftum að aðlaga ríkisútgjöldin nýjum tíma. Og við þurfum enn að sækja fram í atvinnumálum til að svara kalli þúsunda atvinnuleitenda, og þar er vandinn kannski mestur. Það er í sjálfu áfellisdómur yfir samfélagi að geta ekki útvegað þegnum sínum vinnu en þar hefur líka orðið athyglisverður árangur og enn er hægt að vitna í tölur. Ég nefni janúar 2010, þegar atvinnuleysi var 9%, febrúar 2010, þegar atvinnuleysi var 9,3%, og sama tala, 9,3%, á við um marsmánuð 2010. Atvinnuleysi mælist núna 6,7%. Það er vissulega of hátt, það eru vissulega of margar hendur án verka á hverjum degi, en árangurinn er engu að síður augljós af þessum tölum að dæma, 9,3% í ársbyrjun 2010 og í árslok 2011 6,7%.

Vissulega væri hægt að bera sig saman við önnur lönd, eins og Spán þar sem atvinnuleysi hefur verið viðvarandi á þriðja tug prósentna en ég læt það vera af því að við Íslendingar hafa alltaf búið við það hlutskipti að allir sem telja sig geta unnið hafa fengið vinnu og við hljótum að sækja fram í þá veru að svo geti orðið aftur. Ég hef þess vegna talað fyrir atvinnuuppbyggingu á breiðum grundvelli. Ég er talsmaður þess að auka fjölbreytni atvinnulífsins eins og kostur er til sjávar og sveita, auka fjölbreytni í iðnaði, veðja þar ekki á einn hest, auka fjölbreytni í ferðaþjónustu, veðja þar ekki heldur á einn hest, dreifa ferðafólki betur um landið og betur yfir árið eins og kemur fram í Sóknaráætlun 20/20 sem stjórnvöld rækja nú um stundir.

Tölurnar benda í rétta átt og það er vel, en við getum eflaust gert betur og eigum að reyna það. Við eigum líka að hlusta á hugmyndir stjórnarandstöðunnar. Og ég fagna því, frú forseti, að stjórnarandstaðan, jafnt Sjálfstæðisflokkur sem Framsóknarflokkur og Hreyfingin, hefur á undanliðnum vikum og mánuðum komið fram með margar uppbyggilegar, málefnalegar og góðar hugmyndir. Það er skylda okkar í stjórnarliðinu að hlusta á þær hugmyndir því að við verðum að snúa bökum saman, hætta dægurþrasinu og reyna að ná lendingu um það hvernig við getum sótt fram í atvinnumálum vegna þess eins að velferðin byggist á vinnu, þetta tvennt hangir algjörlega saman.

Ég er þeirrar gerðar, frú forseti, í pólitík að ég á næsta auðvelt með að hrósa svokölluðum andstæðingum mínum þar ef þeir koma fram með málefnalegar hugmyndir. Ég hef tekið undir margar hugmyndir sjálfstæðismanna í atvinnumálum, skattamálum og fleiri málum og sama á við um tillögur framsóknarmanna í sömu málaflokkum og tillögur Hreyfingarinnar í þessum efnum. Við eigum að bera okkur eftir því góða í pólitíkinni, allir flokkar hafa fram að færa góðar hugmyndir og við eigum ekki að útiloka þær þó að þær komi frá öðrum en okkur sjálfum, það er þröngsýni, þar er gamaldags foringjaræði að baki.

Ég áskil mér því rétt, frú forseti, til að skoða betur þær breytingartillögur sem eru fram komnar frá stjórnarandstöðunni og eru hér til umfjöllunar, á milli 2. og 3. umr. Ég bókaði reyndar í hv. fjárlaganefnd að ég áskildi mér rétt til að skoða betur áhrif þeirra tillagna sem liggja frammi í þessari umræðu og mun gera það. Eitt það versta sem til er í pólitík er að afgreiða hugmyndir annarra sem vondar vegna þess að þær koma úr öðrum flokkum. Við eigum að hætta að hugsa þannig.

Virðulegi forseti. Margir nýir liðsmenn eru í hv. fjárlaganefnd og það er gott, nýir vendir sópa oft best. Það er ánægjulegt að heyra þann samhljóm sem verið hefur í nefndinni hvað varðar það aðhald sem okkur ber að veita stofnunum í samfélaginu, ekki síst meintri sjálftöku þessara stofnana, sem oft og tíðum leggur byrðar á herðar venjulegu fólki og á venjuleg fyrirtæki án þess að pólitíkin komi þar nærri. Við verðum að gjalda varhuga við slíkri stefnu, að stofnanir geti í þeim efnum leikið lausum hala. Ég vek jafnframt athygli á því að samhljómur hefur verið í hv. fjárlaganefnd um að stokka upp fjárlagarammann, brjóta hann upp ef svo má segja, vegna þess að hann er í sjálfu sér úreltur líka. Margir eru inni á fjárlagaliðum af gömlum vana og margir eru þar vegna órökstuddra umsókna.

Ég hef oft spurt mig, á þeim árum sem ég hef verið í hv. fjárlaganefnd: Á ríkið að vasast í þessu öllu saman? Hefur ríkið á einhvern hátt skilgreint sitt þjónustustig? Á það svo að segja að standa í öllu sem mannlegt er? Ég tel að ríkið eigi að sinna grunnþáttum samfélagsins þegar kemur að menntun, heilbrigðismálum, löggæslu o.s.frv., og gera það vel, verja til þeirra þátta nægilegum fjármunum og sinna þeirri þjónustu eins vel og hugsast getur en dreifa síður fjármunum sínum til allra mögulegra þátta og smyrja sneiðina sem jafnast. Þetta er umhugsunarefni og fyrir alla sem fletta fjárlagafrumvarpinu ár eftir ár hlýtur það að vera sérstakt umhugsunarefni hve ríkið kemur víða við í fjárútlátum sínum. Ég gæti nefnt fjölda dæma en læt það bíða seinni umræðu, en þetta er verkefni sem hv. fjárlaganefnd þarf að skoða og rækja. Það er ekki sjálfgefið að ríkið verji að hlutfallstölu sömu peningum til allra þeirra þátta sem getið er um í fjárlagafrumvarpinu og einmitt þegar kemur að ögurstundu og við þurfum að skera hastarlega niður í ríkisfjármálum lúti allir þessir þættir sömu aðhaldskröfu og við skerum niður óþarfann til jafns við grunngildin í þjónustu ríkisins.

Ég hef oft spurt mig, í þeirri heimtufrekju sem oft ríkir gagnvart ríkinu þegar kemur að fjárútlátum: Er það virkilega svo að þeir sem stjórna hógværum, eðlilegum, ráðsettum ríkisstofnunum fari hægar fram í óskum sínum en þeir sem ættu ef til vill sjálfir að kosta starfsemi sína? Þetta er umhugsunarefni sem hv. fjárlaganefnd, og reyndar þingheimur allur, á að skoða í þaula.

Virðulegur forseti. Af mörgu er að taka þegar þetta fjárlagafrumvarp er til umræðu en næst langar mig að koma inn á sérstakt hugðarefni mitt en það er í anda þess sem ég ræddi áðan, hvernig við dreifum fjármunum ríkisins, til hvaða þátta, og hvort við eigum að dreifa þeim fjármunum, sem nú eru af skornum skammti, jafnt til allra þessara þátta. Ég efast um það. Ég er líka að hugsa um hvernig við dreifum fjármunum ríkisins yfir landið, 2/3 landsmanna búa á litlu svæði, á suðvesturhorninu, 1/3 býr þar fyrir utan og ég hef til dæmis orðið hugsi yfir því hvernig við verjum fjármunum til menningarmála.

Þegar við skoðum tíu helstu menningarhús í Reykjavík — og ég veit að Reykjavík er höfuðborg landsins — sjáum við að þau fá á fimmta milljarð kr. til ráðstöfunar. Tveir menningarsamningar eru í gangi úti á landi, einn fyrir Akureyri og einn fyrir afganginn, til þeirra er varið 270 millj. kr. Eru það réttu hlutföllin? Við vitum að eftir því sem tímar líða fram verður æ dýrara að sækja menninguna um langan veg, bensín og olía kosta sitt, ég tala nú ekki um flugfargjöld. Við vitum líka að jafnframt verður æ erfiðara að flytja listamenn frá höfuðborginni, þar sem þeir eru flestir, út á land til að þeir geti notið sín þar. Eftir því sem þessi breyting hefur orðið er það meira umhugsunarefni fyrir þingheim hvernig við dreifum fjármunum ríkisins, sem eru af skornum skammti, til þeirra málaflokka sem eru í húfi og hvernig við dreifum þeim um landið. Það er ekki sjálfgefið að á fimmta milljarð kr. fari til menningarmála í Reykjavík en 270 milljónir út á land, það er ekki sjálfgefið. Sumir mundu kalla það kjördæmapot í þágu Reykjavíkur.

Frú forseti. Mig langar að koma að einum viðkvæmasta málaflokki í fjárlagagerðinni og reyndar fjárlagagerð síðustu ára en það eru málefni heilbrigðisstofnana. Ég hef verið talsmaður þess að farið sé gætilega í niðurskurð á þeirri lífsnauðsynlegu grunnþjónustu sem heilbrigðisþjónustan er. Þar er vissulega hægt að hagræða og heilbrigðiskerfið er ekki heilög kýr. Ofþenslan var ríkjandi í þeim geira fyrir hrun, þar var farið langt fram úr fjárheimildum, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, sem nam tugum milljarða á árinu fyrir hrun, og er sennilega sá einstaki útgjaldaliður sem fór glannalegast fram úr á sínum tíma. En ef til vill var þeim peningum vel varið, kannski var einmitt heppilegast að fara fram úr sér í þeim geira en ekki öðrum. En ég hef engu að síður verið talsmaður þess að gengið sé gætilega um dyr heilsugæslunnar, sjúkrahúsanna, öldrunarheimilanna og þeirra stofnana sem sinna sjúku fólki. Það á erfiðast með að bera hönd fyrir höfuð sér og þar tala ég jafnframt um hóp fatlaðs fólks, þar eigum við að fara gætilegast.

Það er mér því sérstakt ánægjuefni að við lagfæringar á þessu fjárlagafrumvarpi hefur verið tekið mið af þeirri gagnrýni sem uppi hefur verið á fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2012, þar sem margir töldu, og þar á meðal sá sem hér stendur, of hart gengið fram í niðurskurði til heilbrigðisstofnana bæði í Reykjavík og nágrenni og úti á landi. Við megum ekki skera niður fyrir grunnmörk í heilbrigðiskerfinu, það er lífshættulegt. Ástandið er víða orðið með þeim hætti — og því miður þarf maður að nota líkingar sem hljóma eins og gamansemi, vegna þess að margir trúa þessu ekki — að farið er að bjóða upp á læknislausa daga, það er farið að bjóða upp á fæðingarlausa daga.

Í nýlegu svari sem ég fékk frá heilbrigðisráðuneytinu kemur í ljós að á undanliðnum tíu árum hefur fæðingarþjónusta verið lögð niður á sex stöðum á landinu, vitaskuld úti á landi, á þremur stöðum í Norðvesturkjördæmi og á þremur stöðum í Norðausturkjördæmi. Er nú svo komið að þær konur sem þurfa lengst að sækja fæðingarþjónustu eru á norðausturodda landsins og þurfa að fara um 250 km leið til að fæða börn sín. Ég hef verið talsmaður þess að við skilgreinum byggðasvæði, skilgreinum opinber þjónustusvæði, og að eðlilegt sé að enginn landsmanna þurfi að aka lengri leið en 150 km á næstu heilsugæslustöð, næstu sjúkraþjónustu. Það tel ég vera vel innan viðmiðunarmarka.

Ég fagna því sérstaklega, frú forseti, að aðhaldskrafan í þessum viðkvæma málaflokki hefur verið milduð til muna, sem nemur nokkrum hundruðum milljóna. Ég áskil mér rétt til að skoða þær tölur betur á milli 2. og 3. umr., en ég tel að hér sé komið vel til móts við þær heilbrigðisstofnanir og þau sjúkrahús sem hvað harðast hafa verið leikin í aðhaldi og niðurskurði síðustu ára. Það er líka sérstakt ánægjuefni, og ég vil geta þess, að hæstv. velferðarráðherra hefur lagt sig í líma við að hitta heilbrigðisstarfsfólk í kringum landið, gefið sér góðan tíma í að ræða við það og koma til móts við óskir þess, hlusta á rök þess og læra af þeim aðstæðum sem eru á hverjum stað.

Ekki er hægt að beita einu einföldu excel-skjali þegar kemur að niðurskurði í heilbrigðismálum, aðstæður eru afskaplega misjafnar, sérstaklega hvað tvo þætti varðar, öðrum ráðum við að einhverju leyti, það eru vegasamgöngur, við getum bætt þær, hinn ráðum við síður við, það er veðrið og það verður seint hægt að laga það á Íslandi. Ég hef því talað fyrir því að við hróflum ekki við því kerfi sem verið hefur, með fjórðungssjúkrahúsum á Vestfjörðum, á Austurlandi og í Vestmannaeyjum, sakir samgangna og sakir veðurs, og að við höldum úti grunnþjónustu á heilsugæslusjúkrahúsum innan skilgreindra byggða- og þjónustusvæða, sem ég gat um áðan, hringinn í kringum landið. En við getum samt sem áður hagrætt. Það hefur verið gert á Vesturlandi með sameiningu stofnana, það ber að gera á Norðurlandi með sameiningu stofnana og það er undir einhverjum kringumstæðum hægt að gera á Suðurlandi með sameiningu stofnana, sem vel að merkja styrkir þær. En það á líka, frú forseti, að gera það á suðvesturhorninu þar sem konur geta valið hvar þær fæða börnin sín á sjúkrahúsum sem eru innan 100 km radíuss. Ekki er boðið upp á þau fríðindi úti á landi þar sem konur þurfa að keyra 250 km til að sækja sér örugga og faglega fæðingarþjónustu.

Virðulegi forseti. Gerðar hafa verið allmargar breytingar við þetta fjárlagafrumvarp og það er eðlilegt, við eigum að breyta fjárlagafrumvarpi sem að uppistöðu kemur frá framkvæmdarvaldinu. Það er þingsins að breyta því í samræmi við þá pólitík sem þar er til staðar hverju sinni. Að mínu mati eiga þingmenn að setja sinn stimpil á fjárlagafrumvarpið hverju sinni. Það er ekki framkvæmdarvaldsins að semja það frumvarp frá upphafi til enda, búa til fjárlögin frá upphafi til enda, heldur ber þingheimi, jafnt stjórn sem stjórnarandstöðu, að koma þar að málum og endurbæta. Fjárlagafrumvarp hvers einasta árs er eilíflega hægt að endurbæta og það hefur verið gert hér sem nemur mörgum milljörðum króna. Og enda þótt við séum að tala um 22 milljarða kr. halla í stað 18 milljarða á næsta ári tel ég okkur engu að síður hafa ráðrúm til þess. Við erum að milda niðurskurðinn, ekki síst í viðkvæmustu málaflokkunum og það er vel.

Hvers vegna erum við að milda niðurskurðinn í viðkvæmustu málaflokkunum? Það er vegna þess að liðsmenn fjárlaganefndar og fleiri nefnda Alþingis hafa hlustað á fólk, hafa hlustað á stjórnendur heilbrigðisstofnana, hafa hlustað á gesti þeirra nefnda sem starfa á Alþingi — og frú forseti, það er kannski við hæfi vegna þess að margir þeirra sem ef til vill eru að hlusta á þessa umræðu gera sér ekki grein fyrir þeim ótölulega fjölda gesta, frá sveitarfélögum, fyrirtækjum, hagsmunasamtökum, félagasamtökum, sem koma fyrir fjárlaganefnd og aðrar nefndir þingsins á hverjum degi, í hverri einustu viku, í hverjum einasta mánuði. Það er lífsnauðsynlegt fyrir þessar nefndir að hlusta á fólk vegna þess að í fjárlögum eru margar tölur en á bak við allar þær tölur er fólk og við eigum að finna samhljóminn með þeim tölum og fólkinu.

Mig langar að nefna ummæli konu einnar austan af landi, vel að merkja frá Vopnafirði, sem sagði einfaldlega við okkur í fjárlaganefnd hafandi það í huga að Sundabúð hefur verið í uppnámi, öldrunarþjónustan þar: Mig langar ekki að búa í samfélagi þar sem ég get ekki orðið gömul. Mér þykja þetta merkileg ummæli. Og einn þeirra sveitarstjórnarmanna sem kom að máli við hv. fjárlaganefnd austan af landi sagði: Það er óþolandi að byggðir sem framleiða mest fyrir þjóðarbúið eigi að sætta sig við minnstu heilbrigðisþjónustuna, svo sem læknislausa daga. Þetta eru ummæli sem dynja á okkur í fjárlaganefnd og eru okkur, rétt eins og heilbrigðiskerfið sjálft er, lífsnauðsynleg. Það er lykilatriði í pólitík að hlusta á fólk og ef til vill hlusta meira en tala. — Og nú hef ég talað nóg.