140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu.

Agi í fjármálum og agi yfirleitt felst í því að fólk gerir ráð fyrir að framkvæmt sé rétt. Fyrir mörgum árum sagði ég nákvæmlega það sama og ég segi núna: Mér finnst að hv. fjárlaganefnd eigi að kalla fyrir sig viðkomandi ráðherra og spyrja hann hvort viðkomandi forstjóri stofnunar sé ekki örugglega farinn að leita sér að nýrri vinnu sem hann ræður við, þ.e. honum sé bara einfaldlega sagt upp. Ef einhver fer ekki að lögum, ekki að fjárlögum, þá á að segja honum upp. Það er agi. Þetta þarf að gera einu sinni, tvisvar, eftir það fara menn að lögum.

Varðandi ríkisreikning og lokafjárlög. Mér finnst að hv. fjárlaganefnd eigi sjálf að flytja lokafjárlög þegar ríkisreikningur liggur fyrir. Þá á hún að taka hann og flytja hann sem lokafjárlög, í maí þess vegna.

Ég er mjög ánægður með þá tillögu frá hv. þingmanni að fjárlaganefnd flytji breytingu við þingsköp. Ég meina — nema hvað? Þeir vita á hverjum brennur. Það er náttúrlega alveg fáránlegt ef enginn hefur eða engin ein hv. nefnd hjá Alþingi hefur yfirsýn yfir fjárlögin. Það er bara alveg út í hött. Auðvitað þarf fjárlaganefnd að hafa yfirsýn.

Svo varðandi skuldbindingar ríkissjóðs hjá LSR þar sem verið er að færa verðbætur eða kostnað yfir á Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, B-deild, sem er í rauninni flutningur á einum kostnaðarliðnum yfir á annan sem ekki hefur verið færður. Vandinn er sá að skuldbinding ríkisins við B-deild LSR hefur ekki verið færð. Sú skuldbinding hefur ekki verið færð. Það er náttúrlega það sem menn þurfa að vinna að, það er að færa allar skuldbindingar sem ríkissjóður ber þannig að skattgreiðendur nútímans og framtíðarinnar viti hvað bíður þeirra en verði ekki voðalega hissa allt í einu þegar barnabörnin fara að borga fyrir heilbrigðisþjónustuna núna.