140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er algjörlega sammála honum, við deilum ekkert um að yfirsýn verði að vera yfir þetta. Að mínu viti getur tekjuhliðin ekki verið í einni nefnd og gjaldahliðin í annarri. Það gengur ekki upp í mínum huga. Það getur vel verið að ég sé ekki nógu víðsýnn eða eitthvað svoleiðis, ég veit ekki um það, en að mínu mati gengur þetta ekki upp. Mér finnst að vanti svona eina nefnd fyrir ofan þetta sem fylgist bæði með tekjuhlutanum og gjaldahlutanum og að við sjáum það fyrir okkur hvernig þetta er í framkvæmd. Hvernig á að fylgjast með framkvæmd fjárlaga? Á fjárlaganefnd að fylgjast með útgjaldahliðinni og efnahags- og viðskiptanefnd með tekjuhliðinni? Þá er ekki hægt að fylgjast með framkvæmd fjárlaga.

Það er líka mikilvægt að menn taki þá umræðu um þær upplýsingar sem hv. fjárlaganefnd fær til þess að rækja skyldu sína um eftirlit með framkvæmd fjárlaga, að við sem sitjum í nefndinni fáum þær upplýsingar sem koma okkur að gagni á hverjum tíma.

Það er mjög athyglisvert sem hv. þingmaður sagði að þegar hv. fjárlaganefnd kallar ráðherra eða forstöðumenn stofnana á fund til sín, þá er það nefnilega með þeim hætti að í langflestum tilfellum eru þessir forstöðumenn og starfsfólk ráðuneytisins mjög vel upplýst, gefur okkur góðar upplýsingar, svarar skilmerkilega, en það gera því miður ekki allir. Maður hefur stundum á tilfinningunni að mönnum finnist það hálfbjánalegt að svara einhverjum svona spurningum hjá fjárlaganefnd. Maður hefur á tilfinningunni að það sé hugsunin. Það er atriði sem verður að breyta.

Svo langar mig að segja eitt í restina, þ.e. þegar við erum að ræða um hvernig hlutirnir eru í raunveruleikanum. Við getum tekið ríkisstofnun sem er með hallarekstur. Ríkið á viðkomandi stofnun og á fasteignir stofnunarinnar. Þá tekur ríkið hvað? Það tekur ákvörðun um að selja fasteignirnar til að greiða niður hallann á viðkomandi stofnun, en í raun og veru er ríkið bara að selja sínar eigin eignir, það breytir að sjálfsögðu ekki niðurstöðu ríkissjóðs. Þetta er svona eins og kallað er að pissa í (Forseti hringir.) skóinn sinn.