140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:11]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði alls ekki að álit hv. eða meiri hluta velferðarnefndar hefði verið öðruvísi ef við hefðum haft upplýsingar um það hvernig heilbrigðisstofnanirnar hygðust bregðast við niðurskurðarkröfunum. Það sem ég sagði var að velferðarnefnd hefði ekki getað fjallað um það, hafði ekki forsendur til þess, vegna þess að upplýsingarnar vantaði. Það kom fram eins og segir í áliti nefndarinnar að heilbrigðisstofnanirnar höfðu fengið frest hjá velferðarráðuneytinu til 2. desember næstkomandi til þess að bregðast við tillögunum. Þegar maður sér þessa ágætu greinargerð, sem ég hef gert að umtalsefni, sér maður hvers vegna við bendum á það í áliti okkar að stuttur tími sé milli 2. og 6. desember þegar 3. umr. á að fara fram og hvetjum til þess að vandlega verði farið yfir stöðuna sem hv. velferðarnefnd hafði ekki forsendur til að gera.

Ég hef ekki heyrt betur, frú forseti, en það hafi einmitt verið til umræðu í þessum sal í dag að menn þurfi að skoða þetta á milli 2. og 3. umr. Það er eins og vera ber. Til þess eru umræðurnar nefnilega þrjár.