140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt að hv. velferðarnefnd kallar eftir því að fyrir undirbúning fjárlaga fyrir árið 2013 verði tekið mið af þeim skýrslum og greinargerðum sem fyrir liggja, nýjum og gömlum, og vísa veginn til endurskipulagningar (Gripið fram í.) í heilbrigðisþjónustunni. Nú bið ég bara hv. þingmann að lesa það sem segir í áliti meiri hluta (Gripið fram í.) velferðarnefndar um hvað gera þurfi og hvers vegna við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2013. Við vitum að hann hefst í febrúar. Það vitum við þingmenn. Það er ekki langur tími þangað til. Við köllum sérstaklega eftir því að það verði gert.

Ég hef margoft lýst því yfir að ég tel að það verði ekki lengra gengið í hagræðingu í heilbrigðisþjónustu á Íslandi nema með skipulagsbreytingum. Við sem sitjum í hv. velferðarnefnd vitum eins og aðrir þingmenn að í velferðarráðuneytinu hefur verið unnið hörðum höndum að því að draga saman upplýsingar og kortleggja þjónustuna, ekki í því skyni eins og hv. þingmaður gefur í skyn að rústa hana heldur til þess að bæta hana og treysta.

Hv. þingmaður spyr um úttektir og skýrslur og spyr hvort velferðarnefnd viti ekki hvað velferðarráðuneytið er að gera. Við vitum það. Í áliti okkar kemur fram að þær skýrslur sem við hefðum gjarnan viljað að væru grundvöllur fyrir fjárlagafrumvarpi í velferðarmálum fyrir árið 2012 eru það ekki. Í áliti okkar segir að það sé mjög miður að mati meiri hluta nefndarinnar. Þannig er nú þetta. Þetta orðalag kann ég nú reyndar utan að, hv. þingmaður, þótt ég hafi ekki skjalið hér við hliðina á mér.