140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu en um leið er hálfgerð synd að þurfa að flytja hana klukkan að verða 11 hér á þessu kvöldi. Reyndar skilst mér að það eigi að ræða um þetta mikilvægasta mál þingsins fram undir morgun. Það virðist eins og Alþingi geti ekki haft fundartíma frá átta til fjögur eins og annars staðar gerist í þjóðfélaginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins frekar út í sýn hans á aðferðafræði ríkisstjórnarinnar sem virðist ekki sjá neitt annað en að hækka skatta og skera niður. Nú hefur verið kynnt fyrir okkur í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að fjárfesting er í sögulegu lágmarki hér á landi. Hún er um 13% en meðaltal, að ég held síðustu 30 ára, er um 21%. Ef við setjum þetta í samhengi við landsframleiðslu, sem er um 1.800 milljarðar, vantar hér umsvif upp á eina 140 milljarða kr. sem hefðu þá skilað sér til sveitarfélaga og ríkissjóðs, þá með veltusköttum og sköttum af starfsemi fyrirtækja og starfandi einstaklinga. Þess vegna erum við að ræða hér ofboðslega háar upphæðir sem vantar í þetta fjárlagafrumvarp, þ.e. ef við hefðum komið af stað auknum framkvæmdum og umsvifum í samfélaginu. Þar af leiðandi hefðum við væntanlega getað komist hjá því að hækka svo mikið skatta á heimilin í landinu og fyrirtækin sem og að standa í stórkostlegum niðurskurði á velferðarþjónustuna.

Ég vildi gjarnan heyra sjónarmið hv. þingmanns á því hvort ríkisstjórninni hafi ekki einfaldlega yfirsést tækifæri til að fara í atvinnuskapandi framkvæmdir.