140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er alveg hárrétt hjá þingmanninum. Það er glögglega athugað að það sem vantar í þetta þjóðfélag er fjárfesting og til þess að fjárfesting fái þrifist þarf hvatningu frá stjórnvöldum. Það þarf að búa til það umhverfi að fólk og fyrirtæki vilji fjárfesta. Það á ekki að búa til umhverfi þar sem grunnatvinnuvegur þjóðarinnar býr við ávirðingar um að þeir sem í honum starfa séu ræningjar og ribbaldar og að það eigi að taka af þeim réttindin til að nýta sjávarauðlindina. Þannig tala þingmenn og jafnvel ráðherrar. Auðvitað á ekki að kynna til sögunnar nýja skatta sem fæla frá fyrirtæki sem vilja fjárfesta. Þeir auka á alla óvissu. Svo koma ráðherrar eins og ég veit ekki hvað, draga allt saman til baka og segja: Þetta er bara vanhugsað og allt saman misskilningur. Jafnvel heimta stjórnarþingmenn að ráðherrarnir biðjist afsökunar á því að hafa látið sér detta svona vitleysa í hug.

Auðvitað er það ótæk leið, t.d. framkvæmdir í innviðum, að stanslaust skuli vera dregið saman og að framkvæmdafé sé bitbein milli ráðherra þar sem einn ráðherra hefnir sín á öðrum með því að draga saman útgjöld til framkvæmda í kjördæmi hans. Hér er allt í óvissu, og skattar þannig að lítil og meðalstór fyrirtæki sjá enga framtíðarfjárfesta. Það gengur heldur ekki að efnað fólk sem á eignir flýi unnvörpum til útlanda út af vanhugsuðum sköttum sem einu sinni hétu auðlegðarskattar en heita núna í fjárlagafrumvarpinu eignarskattar, (Forseti hringir.) sem þeir eru.