140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá þingmanninum að það er grátlegt að horfa upp á það hvernig þróun mála hefur verið í störfum þessarar ríkisstjórnar síðustu tvö og hálfa árið. Nefni ég sem dæmi stefnu eða réttara sagt ekki-stefnu ríkisstjórnarinnar í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það er ánægjulegt að sjá að hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir hlýðir hér á umræðuna vegna þess að undirstöðuatvinnugrein okkar kjördæmis, Norðausturkjördæmis, er akkúrat sjávarútvegurinn. Staðreyndin er sú að þessi undirstöðuatvinnugrein er ekki að fara út í neinar alvörufjárfestingar, ekki vegna þess að búið sé að klúðra málefnum sjávarútvegsins einu sinni hjá þessari ríkisstjórn heldur margoft. Það sem kallað er á á Íslandi í dag er atvinnusköpun, verðmætasköpun og fjárfesting.

Fjárfesting er í sögulegu lágmarki, eins og ég kom inn á áðan. Ef fjárfestingin væri hér einungis eins og í meðalári, miðað við 30 ára sögu, væri verið að fjárfesta fyrir um 140 milljörðum meira á ári hverju, t.d. í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Ég held að við þurfum bara rétt að líta tvo, þrjá daga aftur í tímann til að sjá að uppbygging ferðaþjónustunnar er ekki ákveðnum aðilum innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að skapi.

Við sjáum það með iðnaðinn í þeim frábæra kolefnisskatti sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram í tilraunaskyni til að sjá hvaða áhrif það hefði og þá kom í ljós að járnblendið á Grundartanga mundi hætta störfum, atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum vegna kísilverksmiðju hefði ekki orðið að veruleika og ekki heldur á Reykjanesi. Ákvörðun um þann skatt hefði valdið því að þúsund störf hefðu glatast eða ekki orðið til.

Það er ekki hægt að búa við þennan hringlandahátt og þess vegna horfum við upp á þann niðurskurð og þær skattahækkanir sem blasa við í (Forseti hringir.) þessu fjárlagafrumvarpi.