140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vitanlega er það svo að ef tekinn er maturinn af einhverjum í langan tíma hlýtur sá hinn sami að vera feginn ef hann fær einhverja brauðmola á endanum. Mér finnst nú ekki rétt að stilla þessu þannig upp að það skuli þakka það að dregið sé úr þeirri fáránlega miklu niðurskurðarkröfu og hagræðingu sem fara átti í. Jú, við skulum vera ánægð yfir að „slysið“ sé ekki alvarlegra en þetta, við getum verið sammála um það, en að tala eins og hér sé verið að — ég ætla ekki að gera hv. þingmanni það, ég veit að hún gagnrýnir hvernig að þessu var staðið og ég ætla að setja punktinn þar.

Ég vil þó benda á að fyrir fjárlagagerðina í fyrra kom fram álit lögmanns sem unnið var fyrir aðila á Norðurlandi og varðaði Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga þar sem kemur fram að ólöglegt sé að mati lögmannsins að beita þeirri aðferð, þegar skorið er niður eða (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustunni breytt, að gera það í gegnum fjárlögin.