140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það sem hún kom inn á í ræðu sinni, þ.e. að skoða þyrfti hjúkrunarrýmin heilt yfir og hvernig þeim er skipt um allt land, hvort ekki þyrfti að gera það — eins og ég skildi hv. þingmann, hún leiðréttir mig þá bara ef það er ekki rétt skilið — með því að skoða í heild sinni hvernig skiptingin er, hvort hún sé réttlát eða hvort hún ætti að vera með öðrum hætti.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort við þurfum ekki líka að taka umræðu um hvað hjúkrunarheimili þurfi að vera stór til að hægt sé að vera með faglega og góða stjórnun og þjónustu og til að þau skili því sem til er ætlast fjárhagslega. Við erum að drita örfáum hjúkrunarrýmum hingað og þangað, þurfum við ekki að skoða mjög vandlega við núverandi aðstæður hvort það þurfi að vera (Forseti hringir.) ákveðinn fjöldi að lágmarki til að hagræðingin komi fram?