140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:33]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir það, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, að hrósa mér fyrir að standa við álitið. Að sjálfsögðu geri ég það, ég kynnti þetta álit, ég skrifaði það að miklu leyti og að sjálfsögðu stend ég við það.

Mig langar bara til að segja að ég er ekki óánægð með vinnubrögð fjárlaganefndar. Ég er óánægð með vinnubrögðin við fjárlagagerðina. Ég held að allir þeir hv. þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd séu virkilega að reyna að gera sitt besta við erfiðar aðstæður, bara svo að það sé alveg á hreinu. Það sem ég var að tala hér um í upphafi máls míns var það að ég vildi gjarnan að við breyttum vinnubrögðunum við fjárlagagerðina almennt, að við forgangsröðum meira og mótum stefnu. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé ekki nýtt, ég geri ráð fyrir því að við séum hér með arf frá gömlum kynslóðum og gömlum stjórnum og geri frekar ráð fyrir því að hv. þingmaður, sem hefur líka verið mjög gagnrýninn, mundi líka vera mjög gagnrýninn ef það væri hans stjórnarmeirihluti sem hér væri að vinna í fjárlaganefndinni.

Já, ég greiddi atkvæði með fjárlagafrumvarpinu í fyrra og ég mun greiða atkvæði með fjárlagafrumvarpinu núna. Ég tel að við séum á réttri leið, við höfum reynt að verja heilbrigðiskerfið alveg eins og við lifandi getum. Þó að ég sé alls ekki ánægð með allt held ég að við séum hér á réttri leið.

Nú langar mig bara til að spyrja, úr því að ég fæ tækifæri til, að spyrja hv. þingmann: Mundir þú helst bara vilja hafa heilbrigðiskerfið í landinu þannig að á því yrðu engar breytingar, það yrði bara svona eins og það er alveg með óbreyttri þjónustu um aldur og eilífð?