140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir andsvarið og get sagt henni að ég mundi aldrei samþykkja að farið yrði af stað í breytingar á heilbrigðiskerfinu án undangenginnar umræðu og úttektar á því hvað væri best að gera og hvort breytingin mundi skila hagnaði. Það þyrfti líka að liggja fyrir skýr stefna um hvernig heilbrigðiskerfi við vildum hafa, þetta er mjög skýrt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, þar sem nú liggur fyrir að hún ætlar að greiða atkvæði með frumvarpinu — þetta er spurning með þingmenn Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, þeir vippa sér stundum í lið með okkur í stjórnarandstöðunni en fylgja því svo ekki eftir við atkvæðagreiðslur: Hér í meirihlutaálitinu kemur fram að velferðarráðherra skipaði ráðgjafahóp til að skoða hvort (Forseti hringir.) þörf væri á grundvallarbreytingum í heilbrigðiskerfinu. Í áliti meiri hluta velferðarnefndar segir að jafnframt sé mjög miður að tillögur hópsins (Forseti hringir.) hafi ekki verið lagðar til grundvallar við fjárlagavinnuna. Getur hv. þingmaður upplýst þingheim (Forseti hringir.) af hverju slíkt sé gert?