140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka formanni fjárlaganefndar og öðrum nefndarmönnum fyrir það ágæta samstarf sem verið hefur í nefndinni. Ég held að ég geti tekið undir þau orð margra að einlægur umbótavilji er innan þeirrar nefndar og þar vilja menn gjarnan gera allt sem hægt er til að tryggja að fjárlagaferlið fari allt saman hið besta fram, en það er auðvitað að mörgu að hyggja í jafnflóknu ferli og þar er. Ég ætla í ræðu minni að fjalla um forsendur fjárlaganna, þ.e. efnahagsforsendurnar, og þær efnahagsspár sem lagðar eru til grundvallar þeim áætlunum sem gerðar eru í fjárlagafrumvarpinu.

Hagstofan birti í sumar hagspá sína sem var grunnur að því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir þingið í upphafi haustþings og þar var gert ráð fyrir 3,1% hagvexti. Nú hefur Hagstofan gefið út nýja hagspá, gerði það í nóvember, en áhrif hennar sjáum við núna í þessu fjárlagafrumvarpi eða drögum að fjárlagafrumvarpi sem við erum að ræða og þar hefur hagvaxtarspáin verið lækkuð úr 3,1% niður í 2,4%. Það bendir til þess að minni bjartsýni er á það sem fram undan er í íslenskum þjóðarbúskap en var á sumarmánuðum og er það auðvitað nokkru verra. Betra hefði verið ef þær forsendur sem Hagstofan gaf sér í sumar um þróun efnahagsmála hefðu staðið. Gert er ráð fyrir að einkaneyslan vaxi um 3% en atvinnuvegafjárfestingin vaxi um 16,3%.

Fyrst vil ég segja almennt, frú forseti, um hagvöxtinn að rétt er að hafa það í huga, sérstaklega þegar verið er að bera saman hagvöxtinn á Íslandi við hagvöxt margra Evrópuríkja, að samdráttur í efnahagsstarfseminni frá árinu 2008 er um 11% sem er gríðarlegur samdráttur, þannig að sá hagvöxtur sem við erum að mæla núna er þá frá mun lægri grunni en áður var. Rétt er að hafa það í huga.

Hitt er einnig rétt að hafa í huga og sem skiptir miklu máli, ég hef áður gert það að umtalsefni í þessum ræðustól, og það er að fleiri eru að koma inn á vinnumarkaðinn en fara út af honum. Með öðrum orðum, við þurfum ákveðinn hagvöxt bara til að taka á móti þeim sem eru að koma nýir inn á vinnumarkaðinn umfram þá sem fara af honum. Mati hefur verið slegið á að það sé einhvers staðar upp undir tvö prósentustig í hagvexti sem þarf til að mæta þeim sem eru að koma nýir inn á vinnumarkaðinn. Þá er í sjálfu sér auðvelt að velta því fyrir sér hversu mikill hagvöxtur er umfram það sem við getum þá vænst að dragi úr því atvinnuleysi sem núna er.

Þegar þetta er borið saman við þjóðir Evrópu er þar um að ræða samfélög þar sem vinnandi fólki er að fækka og því má gera ráð fyrir að áhrif séu af því í hagvextinum fyrir utan önnur vandamál. Til að geta borið saman hagvöxt á Íslandi og hagvöxt í Evrópuríkjunum verða menn að hafa þá staðreynd í huga og hún skiptir verulega miklu máli þegar kemur að því að meta árangur okkar í þessum efnum.

Síðan er það hitt, frú forseti, hvað það er sem drífur þennan hagvöxt áfram og þá vil ég fyrst ræða þátt einkaneyslunnar. Einkaneyslan hefur verið að vaxa og er spáð að hún vaxi á næsta ári um 3% eins og ég gat um áðan og áhugavert er að sjá hvaða þættir drífa áfram þá auknu einkaneyslu. Í fyrsta lagi eru það þeir kjarasamningar sem voru gerðir síðasta sumar sem gerðu ráð fyrir og byggðu á því að hagvöxtur yrði mjög myndarlegur á næsta ári, um og yfir jafnvel 4%, að fjárfestingar á samningstímanum mundu vaxa upp í 20% af þjóðarframleiðslu, frú forseti, sem gerðu það að verkum að við ættum að geta náð fullu atvinnustigi. Þetta virðist ekki hafa gengið eftir, þ.e. þær kauphækkanir sem gerðar voru eru að stórum hluta innstæðulausar. En þær hafa kallað fram aukna einkaneyslu síðustu mánuði og munu gera það nokkra mánuði fram í tímann en svo mun að sjálfsögðu draga úr því af því að kauphækkanir umfram framleiðniaukningu í hagkerfinu, umfram hagvöxt sem á sér stoð í framleiðniaukningu mun ekki standast og hafa aldrei staðist, frú forseti.

Í öðru lagi er á það að horfa að útgreiðsla séreignarsparnaðar hefur haldið uppi töluverðum hluta af þessari auknu einkaneyslu. Það segir sig sjálft að það er ekki heilbrigður grunnur fyrir aukna einkaneyslu að verið sé að ganga á séreignarsparnað fólks. Það er neyðarúrræði og vekur um leið spurningar eða setur stór spurningarmerki við þann hagvöxt sem hefur verið að sjá á þessu ári og er verið að spá á næsta ári.

Í þriðja lagi er ljóst að stór hluti heimila í landinu greiðir ekki að fullu af þeim lánum sem á þeim hvíla, ýmist vegna frystingar eða annarra aðgerða sem léttir tímabundið af greiðslubyrði heimilanna. Það aftur á móti getur í það minnsta í mörgum tilvikum leitt til aukinnar einkaneyslu tímabundið.

Í fjórða lagi er líka um að ræða aukningu í vaxtaniðurgreiðslum sem einkum berast til skuldugra heimila sem aftur gera heimilunum kleift að auka neyslu sína.

Þessir þættir eru ekki, frú forseti, heilbrigður grunnur undir hagvöxt, ég tel að það muni augljóst vera. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að hin meinta einkaneysla á næsta ári muni jafnvel ekki ganga eftir. Það er ekki endalaust hægt að auka einkaneysluna með þeim hætti, það er óheilbrigt enn og aftur og getur aldrei leitt til góðs, til dæmis hvað varðar kauphækkanir sem eru umfram aukningu í hagvexti eða aukningu sem verður vegna framleiðniaukningar.

Þá að fjárfestingunum. Því er spáð að fjárfestingar muni aukast um 16,3%. En þá er rétt að hafa í huga að þar er verið að miða við þann grunn sem nú er en samdráttur hefur verið alveg gríðarlegur í fjárfestingum á Íslandi og það hefur ekki verið í langa, langa tíð jafnlítið hlutfall fjárfestinga af þjóðarframleiðslu og var á síðasta ári. Þessi aukning sem spáð er er einfaldlega ekki nóg. Hún er ekki nóg til að standa undir heilbrigðum hagvexti, hún er ekki nægjanleg til að hægt verði að vinna á því atvinnuleysi sem við þurfum svo sárlega að draga úr og eyða. Ég mun síðar koma að ýmsum þeim aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem ég tel að hafi dregið úr fjárfestingum og áhuga fjárfesta á Íslandi. En áður en ég kem að því vil ég segja að hagvöxtur sem ekki er til kominn vegna aukinna fjárfestinga eða aukinnar framleiðniaukningar hlýtur alltaf að kalla fram spurningar. Sá hagvöxtur sem við erum að sjá núna ber ýmis þau merki að full ástæða sé til, frú forseti, að hafa verulegar áhyggjur.

Í þeirri spá sem Hagstofan hefur sett fram er spáð um þróun verðbólgu. Reiknað er með því að á þessu ári, árinu 2011, verði verðbólgan 4,1% og á því næsta verði verðbólgan 4,2%. Það er auðvitað erfitt að spá fyrir um þróun verðbólgu eins og til dæmis spár Seðlabankans sýna. En ég hnaut um það í spá eða skýrslu sem fylgdi þessari hagspá frá Hagstofunni að þar var það orðalag sem ég hef svo margoft séð, frú forseti, í alls konar spám, einkum og sér í lagi frá Seðlabankanum, þar sem sagt var að frá og með árinu 2013 megi reikna með að verðbólgan verði komin inn fyrir þau mörk sem Seðlabankinn setur við svokallað verðbólgumarkmið. Þetta er nákvæmlega sama orðalag og maður hefur séð og sá aftur og aftur og aftur í öllum verðbólguspám Seðlabankans um þróun verðbólgu. Af hverju er það? Jú, frú forseti, vegna þess einfaldlega að líkanið sem verið er að nota sem grunn að spánni kallar þetta allt að því sjálfkrafa fram.

Það leiðir auðvitað hugann að því enn og aftur hversu skynsamlegt það er fyrir okkur Íslendinga að vera á hinu svokallaða verðbólgumarkmiði. Þá skiptir máli hvaða fyrirkomulag við höfum á peningamálunum þegar fram líða stundir, þ.e. þegar við höfum aflétt gjaldeyrishöftunum. Ég hef haft um það mörg orð bæði í ræðu og riti að verðbólgumarkmið við þær aðstæður þar sem er lítið opið hagkerfi og er viðkvæmt fyrir breytingum erlendis frá, til dæmis á verði aðfanga, geti verið mjög hættulegt fyrir hagkerfið að peningamálastefnan sé grundvölluð á slíkum verðbólgumarkmiðum. Það eru ýmsar leiðir sem menn hafa til að bregðast við því og þá skiptir miklu samspil ríkisfjármála og peningamálastefnunnar. Og enn og aftur, frú forseti, og það er svo nauðsynlegt að hafa það í huga að þetta tvennt verður að vera samtvinnað þannig að þrýstingurinn á peningamálastefnuna verði sem minnstur, að ríkisfjármálin styðji við peningamálastefnuna. Það er grundvallaratriði. Ef þau gera það ekki sjáum við einfaldlega vaxtahækkanir og það má sjá á þeim gögnum sem Seðlabankinn hefur sett fram, áhyggjur Seðlabankans meðal annars af ríkisfjármálunum og jafnvel slaka í ríkisfjármálum, hvaða afleiðingar slíkt mundi hafa hvað varðar vaxtastig — og ég ætla að leyfa mér, frú forseti, að vera ósammála seðlabankastjóra — þar með á fjárfestingar. Ég tók eftir því, frú forseti, að seðlabankastjóri ræddi það og hefur reyndar rætt það áður hversu lítil áhrif vextir á Íslandi hafa á fjárfestingar.

Nú er það vissulega svo og alveg hárrétt að það er ýmislegt annað sem hefur áhrif á fjárfestingarnar en vextirnir. Ber þá einna helst að nefna þá pólitísku óvissu sem hefur farið vaxandi mánuð eftir mánuð og missiri eftir missiri í landinu sem hefur stórkostlega skaðleg áhrif á allar fjárfestingar.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni í dag að hagvöxtur yrði ekki til með því að smella fingri og það var alveg hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra. En, frú forseti, það er hægt að koma í veg fyrir hagvöxt og hægt er að koma í veg fyrir fjárfestingar allt að því með því að smella fingri. Gott dæmi um það er flumbrugangur fjármálaráðuneytisins þegar kemur að hinu svokallaða kolefnisgjaldi. Það er ótrúlegt að fylgjast með því að slíkar hugmyndir skuli vera lagðar fram að því er virðist umhugsunarlaust og valda þar með alveg gríðarlegum skaða eins og fingri væri smellt. Það tekur nefnilega mjög langan tíma að byggja upp traust í efnahagslífinu en það er mjög fljótt hægt að eyða því og gera það að engu. Svona vinnubrögð, frú forseti, eru akkúrat það sem við þurfum ekki í efnahagslífi okkar og stjórnmálalífi. Við þurfum þvert á móti miklu meiri vandvirkni og festu. Ég kann enga tölu á því hversu oft hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa tekið sér slík orð í munn en niðurstaðan er þessi.

Sama gildir um sjávarútveginn. Úr þessum ræðustól hefur margoft verið bent á það að meðan sú óvissa er uppi sem nú er um málefni sjávarútvegsins þá fjárfestir þessi grunnatvinnugrein þjóðarinnar ekki eins og hún ætti að gera. Sá vandi kemur ekki þyngst niður á sjávarútvegsfyrirtækjunum sjálfum. Ég held að nauðsynlegt sé að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því. Þessi óvissa kemur langþyngst niður á alls konar stoðfyrirtækjum sem selja sjávarútveginum þjónustu sína, hátæknifyrirtækjunum sem eru að selja tæki sín til þessarar greinar, hugbúnaðarfyrirtækjunum sem eru að vinna fyrir greinina o.s.frv. Þar sjáum við samdráttinn. Það er þar sem þetta kemur svo þungt niður. Ég veit, frú forseti, að í þingsal er stundum talað af, við skulum bara orða það þannig, lítilli væntumþykju um þá grein, sjávarútveginn. Er þá meira talað um hversu mikilvæg sprotafyrirtækin eru og hátæknifyrirtækin. Gott og vel, en þá í nafni þeirra fyrirtækja. Í nafni sprotafyrirtækja og í nafni hátæknifyrirtækjanna er svo nauðsynlegt að einhver festa komist á sjávarútvegsmálin, umræðuna þar og stefnumótun.

Það verður að segjast, frú forseti, að það er hörmulegt, nú þegar líður að því að áramót ganga í garð, að við skulum vera komin á þennan stað sem raun ber vitni með sjávarútvegsmálin. Það er allt fullkomlega og algerlega upp í loft. Um það hafði verið talað og því hafði verið lýst yfir í þessum sal að mótaðar tillögur í sjávarútvegsmálunum mundu koma fram á haustþinginu. Nú fækkar þeim dögum sem til ráðstöfunar eru í þinginu og ég verð að segja eins og er að ég óttast það að eina ferðina enn komi fram tillögur sem eru ekki nægjanlega mótaðar, nægileg sátt hefur ekki náðst um og eru ekki nægilega vandaðar. Hvað mun það þýða? Áframhaldandi óvissu um þá lykilgrein íslensks efnahagslífs, áframhaldandi óvissu um fjárfestingar sem aftur kemur eins og ég sagði svo harkalega niður á þeim fyrirtækjum sem vinna fyrir sjávarútveginn og þá um leið niður á ríkissjóði í formi minni skatttekna.

Árásir ríkisstjórnarinnar á atvinnulífið með þessum hætti, sú óvissa sem hefur verið sköpuð að nauðsynjalausu, er um leið árás á velferðarkerfið. Minni skatttekjur vegna efnahagsstjórnar gerir okkur erfiðara fyrir, frú forseti, að verja heilbrigðismálin og að verja menntamálin. Þetta má hverjum manni vera ljóst. Ég get tekið undir með seðlabankastjóra þegar hann segir að það sé fleira en vextirnir sem skiptir máli þegar kemur að fjárfestingunni, en augljóslega skiptir vaxtastigið máli. Augljóslega skipta lánskjörin máli. Augljóslega skiptir það máli hversu dýrt fjármagnið er. Því dýrara sem fjármagnið er þeim mun erfiðara og ólíklegra er að ráðist verði í fjárfestingarnar, það segir sig sjálft. Þess vegna skiptir svo miklu eins og ég gat um áðan að samhljómur sé á milli peningamálastefnunnar annars vegar og ríkisfjármálastefnunnar hins vegar.

Frú forseti. Átök standa yfir núna, stjórnmálaleg átök um hvaða leið við eigum að fara. Við höfum á undanförnum árum verið á leið skattahækkana og reyndar, svo ég gefi ríkisstjórninni fullt kredit, hefur ríkisstjórnin talað fyrir hinni svokölluðu blönduðu leið, skattahækkunum og því að reyna að draga saman útgjöld. Ég ætla ekki að segja, frú forseti, að enginn árangur hafi náðst varðandi ríkisfjármálin, það er ekki svo, það væri ósanngjarnt að segja það. En augljóst er að við þurfum að ná meiri árangri. Dregist hefur að ná þeim árangri sem þó var búið að einsetja sér í samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sá dráttur er mjög dýr. Hann kostar íslenska þjóðarbúið mjög mikla peninga. Og þær skattahækkanir sem hafa gengið í gegn hafa dregið úr allri drift í efnahagsstarfseminni. Þær hafa dregið úr getu atvinnugreina til að fjárfesta. En það sem er verst og alvarlegast er að hækka skattana á almenning í landinu við þessar aðstæður. Að fara til heimilanna í landinu sem nú þegar eru þau skuldsettustu innan OECD og segja: Við ætlum að taka meira af ráðstöfunartekjum ykkar til ríkisins. Það verður minna eftir hjá ykkur í launaumslaginu til að standa undir greiðslunum af hinum miklu lánum. Á sama tíma hefur dregið úr atvinnunni. Menn eiga erfiðara með en áður að mæta auknum útgjöldum og það er erfiðara að finna aukavinnu.

Þess vegna, frú forseti, hefði verið ráð að fara að tillögum okkar sjálfstæðismanna á sínum tíma þegar við lögðum það til að í stað þess að gripið yrði til skattahækkana yrðu nýttir þeir peningar sem ríkissjóðurinn á inni í séreignarlífeyrissparnaðinum. Það eru peningar sem átti að nota síðar meir vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar, þegar þeim sem komnir eru á efri ár fjölgaði og hlutfall þeirra væri orðið óæskilegra en nú er hvað varðar fjölda vinnandi. En því var svo mikil nauðsyn á að koma í veg fyrir skattahækkanir því að hærri skattar þýða skert lífskjör og ýta þar með fólki úr landinu. Þess vegna var svo nauðsynlegt að til að halda fólkinu á Íslandi, til að missa fólkið ekki burt, þá átti ekki að hækka skattana. Það voru kolröng skilaboð, frú forseti, sem við sendum.

Það sem mér finnst svolítið merkilegt er að ég man vel þau rök sem voru borin fram í þingsalnum af þeim sem mæltu gegn þeirri leið. Þá var talað um að ábyrgðarleysi væri að nota þessa peninga sem ætti að nota síðar meir, það væri ábyrgðarleysi. Sömu hv. þingmenn, frú forseti, ætla sér nú, að því er virðist, að greiða atkvæði með því að minnka frádragið vegna séreignarlífeyrissparnaðarins úr 4% í 2%. Hvaða afleiðingar skyldi það hafa, augljóslega? Jú, sparnaðurinn mun minnka, það mun stórlega draga úr honum. Minni sparnaður til lengri tíma þýðir ekkert annað en minni fjárfestingar, minni fjárfestingar þýða þá minni hagvöxt og minni hagvöxtur þýðir einfaldlega að lífskjörin á Íslandi munu ekki batna eins og þau gætu gert með sama hætti.

Enn og aftur. Skynsamlegra hefði verið að nýta þessa peninga strax sem ríkið átti þarna inni og koma í veg fyrir þessa þróun. Það er ekki bara það að ríkisstjórnin ætli sér núna að draga úr frádraginu, þ.e. úr 4% í 2%, heldur heldur sú þróun áfram að almenningur verður að ganga á þann sparnað vegna þess að fólk nær ekki endum saman. Það átti að vera neyðarráðstöfun, tímabundin neyðarráðstöfun, að heimila þessar úttektir til að hjálpa fólki yfir erfiðasta hjallann. En nú er þetta orðin einhvers konar forsenda fyrir hagvaxtarspám, einhvers konar forsenda undir aukinni einkaneyslu.

Hvar eru þær áhyggjur af framtíðinni sem ég heyrði í þingsalnum þegar þetta var rætt í fyrsta sinn? Ég hef miklu meiri áhyggjur af því hversu hratt lífeyrissjóðurinn rennur út, hversu mikið er gengið á hann, og það er ekki bara það að minni skatttekjur eru sem við höfum til að nota síðar meir, heldur líka minni lífeyrir sem fólk hefur aðgang að. Enn og aftur, þetta er spurning um val, þetta er spurning um stefnu.

Við sjálfstæðismenn lögðum fram á dögunum mjög ítarlegar efnahagstillögur — sem byggðu á hverju? Sem byggðu á því að gera allt það sem hægt er til að auka fjárfestingu, að auka fjárfestingu með öllum tiltækum ráðum af því að fjárfestingin er svo hættulega lítil.

Hið góða er, frú forseti, að fjölmörg tækifæri eru til að gera slíkt. Þau eru fjölmörg. Í fyrsta lagi er það orkugeirinn og iðnaður honum tengdur. Þess vegna er svo grátlegt að það sleifarlag sem við höfum orðið vitni að frá fjármálaráðuneytinu, vegna hins svokallaða kolefnisskatts sem nú er að mér skilst búið að draga til baka en hefur samt sem áður valdið svo miklum skaða nú þegar, hefur dregið úr trausti. Allt þarf að gera til að fjárfestingar á þessu sviði gangi fram nú þegar, bæði hvað varðar orkuframleiðsluna, og höfum við þá sérstaklega bent á virkjunarkosti sem eru mjög góðir í neðri hluta Þjórsár, og að senda öllum fjárfestum rétt skilaboð um að þeir geti treyst því að íslensk stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að ýta undir fjárfestingu. Ekki nokkur sanngjarn maður getur haldið því fram að svo sé staða mála þessa dagana.

Í öðru lagi höfum við sagt: Það verður að ná aftur upp fjárfestingunni í sjávarútvegi og enn og aftur, ekki bara sjávarútvegsins vegna. Það er ekki bara það sem skiptir máli, heldur allur iðnaðurinn þar í kring. Áhugavert er að heyra orð forsvarsmanna íslensks iðnaðar sem hafa lagt þunga áherslu á það einmitt vegna þeirra fyrirtækja sem eru innan þeirra vébanda, vegna þess að þau fyrirtæki verða líka fyrir þeim samdrætti. Þetta skiptir lykilmáli.

Við höfum einnig lagt áherslu á að allt umhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði skoðað með það að markmiði að auka fjárfestingu þeirra af því að í litlum og meðalstórum fyrirtækjum verður mest fjölgun starfa. Þar hefur meðal annars verið stungið upp á að auðvelda eða gera mönnum kleift að framkvæma svokallaðar flýtiafskriftir vegna fjárfestinga á árunum 2012 og 2013. Það gæti ýtt undir fjárfestingar og um leið skapað störf. Við höfum einnig lagt á það áherslu að við eigum að nota tækifærið núna og þær aukatekjur sem koma inn til ríkisins til að fjárfesta í innviðum samfélagsins, m.a. í vegamálum.

Á sama tíma höfum við líka sagt: Það verður að snúa þeim skattahækkunum til baka sem hafa átt sér stað. Til að vera alveg örugg á því að ekki verði gat í ríkisfjármálum höfum við haldið til streitu og lagt þær hugmyndir fram aftur að þeir fjármunir sem þó enn eru til, sem eru í eigu ríkisins og liggja inni í séreignarlífeyrissjóðunum verði nýttir ef á þarf að halda til að brúa tímabundið gat. Útreikninga að baki þessu geta menn kynnt sér í þeim tillögum sem lagðar voru fram í formi þingsályktunartillögu.

Aðalatriðið í þeim tillögum er að breyting verði á stefnu stjórnvalda frá því að þvælast fyrir öllum fjárfestingum, frá því að auka óvissuna, frá því að koma fram með skatta eins og gert var, kolefnisskattinn, og frá því sjónarspili öllu sem við verðum nú vitni að varðandi sjávarútveginn þar sem menntamálaráðherra og velferðarráðherra eiga að sjá um að búa til nýja sjávarútvegsstefnu. Með fullri virðingu fyrir þeim ágætu hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum og embættum þeirra hlýtur það að vera augljóst að nokkuð sérkennilega er að þeim málum staðið, og er þá ekki verið að nota neitt sérstaklega stór eða þung orð.

Það er einmitt þetta, að verið er að takast á um mismunandi stefnur, mismunandi áherslur. Það skiptir miklu máli að á næstu mánuðum og missirum verði breytt um kúrs. Augljóst er þegar við hlustum á marga þingmenn stjórnarliðsins í salnum tjá sig um efnahagsmálin, tjá sig um þær forsendur sem settar eru fyrir fjárlagakerfinu, grunnforsendurnar, að komin er óþolinmæði, vaxandi pirringur á þeirri stefnu sem verið er að fylgja og ég þarf ekki að telja upp þá hv. þingmenn, frú forseti, sem hafa lýst skoðunum sínum um þetta mál og í þá átt sem hér greinir.

Áfram að þeim forsendum sem við gefum okkur hvað varðar fjárlagafrumvarpið. Miklu mun skipta hver þróun efnahagsmála verður á meginlandi Evrópu á næstu missirum. Þar undir eru ekki einungis viðskiptakjör okkar Íslendinga eins og augljóst má vera heldur meðal annars grundvöllur sjálfrar myntarinnar, evrunnar.

Ég var fyrr í dag að blaða í gegnum skýrslu sem gefin var út árið 2008 af hálfu framkvæmdastjórnarinnar þar sem var verið að fara yfir fyrstu tíu árin í lífi þeirrar myntar. Þar kennir auðvitað margra grasa enda er skýrslan stór og mikil. Það verður að segjast eins og er að áhugavert er að skoða þá skýrslu og þann tón sem þar er sleginn í ljósi þeirra atburða sem hafa átt sér stað á undanförnum missirum og árum. Þar var ekki að finna digrar viðvaranir um að grundvöllur þessa myntsamstarfs gæti brostið ef forsendur ríkisfjármála mundu ekki breytast í Evrópu og það er allt að því skautað fram hjá slíkri umræðu eða í það minnsta gert lítið með hana, margt annað er rætt.

Þá kemur að eftirfarandi spurningum fyrir okkur: Við hverju megum við búast hvað varðar þróun þessara mála? Hvaða áhrif mun hún geta haft á ríkissjóð Íslands? Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort settur hafi verið upp viðbragðshópur og ef það hefur ekki verið gert tel ég að það ætti að gera. Sá hópur mundi þá leggja mat á hvaða áhrif nákvæmlega það mundi hafa á íslenskt efnahagslíf og þá alveg sérstaklega á ríkissjóð Íslands ef til þess kæmi, og það veit sá sem allt veit að það væri skelfilegt og enginn maður getur óskað sér þess, að evrusamstarfið mundi hrynja. Það hefði skelfilegar afleiðingar. En af því að það hefði svo skelfilegar afleiðingar þá teldi ég rétt að það ætti nú þegar að vera búið að setja af stað viðbragðshóp sem skilar þingi og ríkisstjórn skýrslu um mögulegar afleiðingar og þá möguleg viðbrögð Íslendinga, sérstaklega hvað varðar ríkisfjármálin, ef til slíkra hörmungaratburða kæmi. Rétt er að hafa í huga að það sem áður var talið jaðarskoðun og jaðarhugsun hvað varðar þróun efnahagsmála í Evrópu er nú í ríkari mæli orðið það sem kalla má almannarómur, það sé raunveruleg hætta á því að grundvöllur evrunnar gefi sig.

Ég vil að lokum, frú forseti, gera nokkur atriði í fjárlagafrumvarpinu að umræðuefni. Í fyrsta lagi vil ég gagnrýna þau vinnubrögð sem felast í því að koma fram með mjög harkalegar niðurskurðartillögur, sérstaklega í heilbrigðismálum víða um land, sem valda þar með gríðarlegum óróa og óvissu á viðkomandi stofnunum en líka í öllu samfélaginu og koma síðan síðar meir og draga aðeins úr. Ef þarf að skera svona mikið niður þá er betra að gera það þannig að menn geti staðið við þær fyrirætlanir sem settar eru fram í upphafi. Ég verð að segja eins og er að ég á erfitt með að sjá hvaða breytingar það voru frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram í byrjun haustþings og þar til fram komu hugmyndir eða tillögur í fjárlaganefndinni um að draga úr þeim niðurskurði sem á að vera til heilbrigðisstofnana. Hvaða stóru breytingar urðu til að daginn áður en við tókum málið úr nefndinni til 2. umr. þá skuli þessar tillögur hafa komið? Fyrir liggur að efnahagsforsendurnar eru lakari núna en þær voru þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram þannig að tekjurnar eru minni, verðmæti krónanna sem koma í ríkiskassann er minna en ella, samt erum við að draga úr þeim niðurskurði. Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki ásættanleg.

Ég vil gera annað atriði, frú forseti, að umræðuefni en það lýtur að því hvernig við höldum utan um hinar svokölluðu 6. gr. heimildir og 5. gr. heimildir. Töluverð umræða hefur verið um Sparisjóð Keflavíkur. Fyrir liggur að ríkið sjálft hefur sagt að það reikni með að þurfa að greiða að minnsta kosti 11,2 milljarða vegna þeirrar yfirtöku til að vernda þær innstæður sem þar eru. Landsbankinn hefur sagt að hann telji að það þurfi 30 milljarða. Gott og vel, einhvers staðar á þessu bili mun niðurstaðan væntanlega liggja. Ég hefði talið skynsamlegt og rétt að farið hefði verið fram á heimild að minnsta kosti upp að 11,2 milljörðum í fjárlagafrumvarpinu, það hefði legið fyrir að heimild væri fyrir hæstv. ráðherra að nýta þá peninga.

Ég ætla að nefna dæmi um svipaða stöðu sem fjárlaganefnd gerir tillögu til breytinga um sem snýr nákvæmlega að þessu sama, þ.e. óvissu um útgjöld. Gert er ráð fyrir að útgjöld til friðargæslumála verði aukin um 82,9 millj. kr. Það er vegna þess að talið er líklegt að Sameinuðu þjóðirnar munu samþykkja aukna friðargæslu í Suður-Súdan og í Líbíu. Þess vegna er gert ráð fyrir því í útgjaldatillögunum að heimild verði allt að 82,9 millj. kr. til að mæta þeim væntanlegu – takið eftir því – væntanlegu útgjöldum. Þetta er ekki ákveðið. Með nákvæmlega sama hætti, frú forseti, hefði átt að ganga frá færslunni vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Það hefði átt að gera grein fyrir því, og hefði átt að færa það inn, að möguleiki væri fyrir ráðherrann að taka allt að 11,2 milljörðum með nákvæmlega sömu hugsun að baki og fjárlaganefnd lagði til hvað varðar friðargæsluna, mögulegu og væntanlegu, í Suður-Súdan og Líbíu. (Gripið fram í: Það voru 20 milljarðar.) Hér er kallað fram í að það hafi verið allt að 20 milljarðar, ég vona að það sé ekki vegna friðargæslunnar, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Vegna Sparisjóðs Keflavíkur.) Vegna sparisjóðsins, akkúrat. Þetta skiptir máli því að það hefur auðvitað áhrif á niðurstöðuna í fjárlagafrumvarpinu, hefur áhrif á heildarjöfnuðinn, hver hann verður. Það er miklu skynsamlegra að setja þetta strax inn af því að við vitum hvort eð er að þetta er það sem við eigum von á á þessu ári. Ríkisstjórnin hefur sjálf sagt það.

Að lokum vil ég segja þetta, frú forseti. Ég veit að langflestir sem hér hafa talað í dag hafa kallað eftir bættum vinnubrögðum við fjárlagagerðina og það er má segja margsunginn söngur og margtuggin tugga. En það er ástæða til og ástæða fyrir því að hv. þingmenn ræði þetta vegna þess að það er svo augljóst að við getum gert betur og það skiptir engu máli hvar í flokki menn standa hvað það varðar. Ég held að fullyrða megi að innan fjárlaganefndar er góður vilji til að gera slíkt og ýmiss konar vinna stendur núna yfir sem rétt er að hafa heilmiklar væntingar til um að við getum bætt þetta fjárlagaferli og að við þurfum vonandi ekki í framtíðinni að standa hér og rífast til dæmis um það hvort eigi að færa svona færslu, eins og ég nefndi um Sparisjóð Keflavíkur, inn eða ekki. Við þurfum að hafa miklu meiri festu á þessu.

Að lokum, frú forseti, og ég vil gera það að lokaorðum mínum. Öll áhersla í ríkisfjármálunum og í stefnu ríkisstjórnarinnar á að snúa að því að auka fjárfestingu í atvinnulífinu, það eykur hagvöxt og bætir þar með lífskjör sem gerir okkur betur kleift að verja velferðarkerfið og þar með að tryggja að fólk vilji áfram búa á Íslandi. Til að það megi verða þarf að breyta um stjórnarstefnu.