140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð yfir þjóðhagsforsendur fjárlaganna. Hún hefur auðvitað verið til umfjöllunar í fjárlaganefnd og ég held að það sé ágætt að það komi fram með þessum skýra hætti því að hér hefur verið nokkur misskilningur á ferð um að umfjöllun um þá hlið í efnahags- og viðskiptanefnd í fyrramálið sé nokkuð sem þurfi að bíða með 2. umr. eftir. Það er ekki svo. Það er fjallað um forsendurnar, bæði í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, og þó að nokkru minni hagvexti sé spáð hefur hann ekki nein veruleg áhrif á niðurstöðutölur fjárlaga í því stóra samhengi.

Það er hins vegar fagnaðarefni hvert við erum komin í endurreisnarstarfinu og umsköpun ríkisfjármálanna, að hér stendur deilan um vöxt eða meiri vöxt. Hv. þingmaður fer yfir það að væntur vöxtur upp á um 2,5% á næsta ári sé að hans mati ekki nægilegur, þyrfti að vera allt að 4%. Það má taka undir það með þingmanninum, það væri óskandi að hann yrði allt að 4% eins og forsendur kjarasamninga voru. Það breytir þó ekki því að 2,5% hagvöxtur er verulegur árangur, sérstaklega við þær viðsjár sem eru í efnahagsmálum heimsins.

Þegar hv. þingmaður segir að markmiðum kjarasamninga verði ekki náð bið ég hv. þingmann um að bíða aðeins með að fella dómana. Það er óþarfi að vera svona svartsýnn því að þó að menn treysti sér ekki til að spá nema 2,5% hagvexti á næsta ári held ég að við megum sannarlega leyfa okkur að vona að hér muni atvinnuvegafjárfestingin taka meira við sér. Hér eru ýmsar tölur, ekki síst úr þriðja ársfjórðungsuppgjörinu um atvinnusköpun í landinu, sem gefa okkur tilefni til vissrar bjartsýni og ef ekki verða stóráföll á heimsmörkuðum verður árangurinn (Forseti hringir.) jafnvel enn meiri en hér er spáð.

Aðalatriðið (Forseti hringir.) er auðvitað að við erum að deila um mikinn vöxt eða meiri.