140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst reyndar eins og að við hv. þingmaður höfum átt þetta samtal áður, við umræðu um fjáraukalög ef ég man rétt, þ.e. hvort sá hagvöxtur sem við horfum á núna sé nægur eða ekki. Þá vil ég ítreka að samdrátturinn sem varð í hagkerfinu var um það bil 11% af landsframleiðslunni sem er gríðarlega mikið fall þannig að við erum að vinna okkur frá þetta miklu lægri punkti en áður.

Númer tvö, og rétt að hafa það mjög í huga, er að vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar þurfum við allt að 2 prósentustig í hagvexti til að mæta þeim sem eru að koma nýir inn á vinnumarkaðinn. Þegar við berum okkur saman við önnur lönd þar sem mannfjöldaþróunin er allt önnur þarf að hafa þetta í huga.

Síðan er líka, frú forseti, sárgrætilegt að horfa á tækifærin sem við höfum svo sannarlega og erum að glutra niður, m.a. vegna flumbrugangs í fjármálaráðuneytinu svo dæmi sé tekið eða vegna þess að okkur tekst ekki að koma okkur saman, eða öllu heldur ríkisstjórninni tekst ekki að koma sér saman um að leggja þá í það minnsta fram einhverjar heildstæðar tillögur í sjávarútvegsmálum. Þar með er dregið úr fjárfestingum þeirrar greinar.

Ef spár á næsta ári ganga fram um að hagvöxtur verði 2,4% eða svo sjá menn hvernig hagvöxturinn þarf að vera á árinu 2013 til að hægt sé að standa við forsendur kjarasamninga. Ég held að þó að við séum að eðlisfari báðir bjartsýnir menn, við hv. þm. Helgi Hjörvar, mundi hvorugur okkar leyfa sér slíka bjartsýni, að trúa því að hagvöxturinn á árinu 2013 muni nægja til að staðið yrði við forsendur kjarasamninga.