140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í okkar litla hagkerfi og að mörgu leyti ófullburða tölfræði hefur Hagstofan leiðrétt hagvaxtartölur aftur í tímann um stærri frávik en það 1,5% sem ber á milli mín og þingmannsins um það hvað sé ásættanlegt í hagvexti. Það er algerlega ótímabært að slá því föstu hér og nú að hagvöxtur verði 2,5% á næsta ári og full ástæða er til að rækta í brjósti sér von um að við náum jafnvel enn betri árangri.

Það er eins þegar kemur að fjárfestingunum, þar er enn deilt um umtalsverða fjárfestingu eða enn meiri fjárfestingu. Þó að menn fari hér mikinn um öll þau fjárfestingartækifæri sem hafi glatast var fyrir tveimur árum hafin framleiðsla í Becromal-verksmiðjunni sem nú flytur út fyrir 100 milljónir dollara á ári. Í fyrra var farið í stækkun álversins í Straumsvík. Nú voru hjá þingnefndum fulltrúar kísilverkefnisins í Helguvík sem eru tilbúnir með útboð á þeirri framkvæmd sem er fjárfesting upp á 17–18 milljarða. Það eru hafnar framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun sem við hv. þingmaður tókum skóflustungu að fyrir einum níu árum. Þannig eru einfaldlega talsverðar framkvæmdir sem hafa sem betur fer orðið að veruleika og eru að verða að veruleika í stóriðjunni, auk þess sem atvinnulífið sjálft er að bregðast við. Auðvitað eigum við að rækta í brjósti okkar von um að það verði enn meira en spáð er og að við náum ekki bara 2,5% í hagvöxt heldur jafnvel allt að 4%. Hvort heldur sem niðurstaðan verður 2,5 eða 4% er það gríðarlegur viðsnúningur og við Íslendingar getum fagnað því að vera að fást aftur við vöxt (Forseti hringir.) í stað hruns.