140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:23]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að benda hv. þm. Helga Hjörvar á að það er töluverður veikleiki í þeim hagvexti sem við erum að ræða hér sem sérstaklega snýr að einkaneyslunni og vexti hennar. Ég held að ég hafi farið yfir það í máli mínu og óþarfi að endurtaka það.

En ég er sammála hv. þingmanni, og við getum verið mjög sammála um það, um að það eru verulegir möguleikar til að auka hér hagvöxt umfram þau 2,4% sem Hagstofan gerir ráð fyrir. Það er veruleg ástæða til að ætla að við getum náð þeim hagvaxtarspám sem liggja til grundvallar þeim kjarasamningum sem gerðir voru í landinu og þeim kauphækkunum sem fólkinu var lofað. Það er veruleg ástæða til. Til þess að það gerist fullyrði ég það við hv. þm. Helga Hjörvar, frú forseti, að það verður að verða breyting. Við getum ekki lengur horft á það eins og við höfum gert undanfarna daga að ríkisstjórnin eyði öllum tíma sínum í uppákomur eins og hafa verið í kringum hæstv. sjávarútvegsráðherra eða kolefnisgjaldið. Það er hægt að fara yfir svo mörg önnur dæmi þar sem hefur vantað þá einbeittu stefnu að kalla til landsins fjárfestingar og auka möguleika þeirra sem hér eru til að fjárfesta. Það er svo augljóst. Þess vegna er ég sammála þingmanninum um að það er möguleiki og það er það sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið trúðu á, að það væri hægt að grípa til aðgerða til að ná þessu. Því miður stöndum við núna í þeim sporum að vera með hagvöxt sem að stórum hluta er drifinn áfram af aukningu í einkaneyslu sem á sér vægast sagt mjög veikar forsendur. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Ég er sannfærður um að við hv. þingmaður gætum saman lagt drög að ágætisefnahagsplani vegna þess að ég held að það þurfi einbeittan vilja (Forseti hringir.) til að láta þessa hluti ganga fram.