140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar, og aðrir hv. þingmenn í fjárlaganefnd og öðrum fagnefndum þingsins hafa farið vel yfir helstu breytingartillögur sem gerðar hafa verið við 2. umr. fjárlaga, forgangsröðun og rök fyrir henni, og ég mun því ekki endurtaka það heldur beina sjónum mínum að breyttum vinnubrögðum og tillögum þar um.

Sá háttur sem lengi hefur verið hafður á úthlutun óskiptra liða fjárlagafrumvarpa hefur verið gagnrýndur harkalega af hv. þingmönnum allra flokka og Hreyfingarinnar. Sú óánægja sem nefndarmenn fjárlaganefndar og annarra fastanefnda Alþingis hafa látið mjög berlega í ljós við fjárlagavinnu þingnefnda undanfarin ár bendir eindregið til þess að mjög brýnt sé að endurskoða vinnubrögðin sem tíðkast hafa. Hv. fjárlaganefnd tók gagnrýnina alvarlega og vildi finna leiðir til að eyða tortryggni í garð þingsins hvað þetta varðar og tryggja gegnsæja meðferð umsókna um styrki úr ríkissjóði.

Hv. fjárlaganefnd skipaði undirnefnd snemma árs 2010 til að vinna að breytingunum og byrjað var á liðum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið, enda umfangið þar mest. Unnið var að markmiðssetningu og tæknilegum útfærslum með starfsmönnum ráðuneyta og fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaganna voru upplýstir um fyrirhugaðar breytingar. Eftir ítarlega gagnasöfnun og fjölda funda var ferlið að lokum samþykkt á fundi fjárlaganefndar í sumar með öllum greiddum atkvæðum, en fulltrúi Framsóknarflokksins sat hjá.

Breytingar þær sem taka gildi á árinu 2012 koma til móts við gagnrýni hv. þingmanna og eins við niðurstöðu Ríkisendurskoðunar í skýrslu stofnunarinnar sem ber yfirskriftina Íslensk muna- og minjasöfn, meðferð og nýting á ríkisfé frá því í maí 2009. Einnig hafa erlendir fræðimenn jafnt sem stjórnmálamenn lagt ýmislegt til málanna á vettvangi OECD um þinglegan hluta fjárlagaferlisins sem breytingarnar ríma við. Þar er meðal annars rætt um að áherslur þingsins ættu að vera á málefnaflokka í heild sinni frekar en það sértæka, þ.e. áherslur á stefnu, áreiðanleika, frammistöðu og gegnsæi. Fjárlaganefnd hefur fengið ráðleggingar frá AGS á svipuðum nótum.

Hv. fjárlaganefnd hefur, eins og áður sagði, unnið í samvinnu við fagráðuneyti að breyttu fyrirkomulagi við úthlutun styrkveitinga sem kynnt er í texta frumvarps til fjárlaga 2012. Nánari útfærsla þess fyrirkomulags er lögð fram nú við 2. umr. um frumvarpið. Markmiðið með þessum breytingum er að gera úthlutun fjármuna á vegum ríkisins gegnsærri en verið hefur og auka þannig traust á því ferli sem liggur að baki því hvernig fjármunum ríkisins er skipt til einstakra verkefna. Alþingi hætti úthlutunum og styrkjum til ýmissa verkefna á vegum félagasamtaka og einstaklinga eins og viðgengist hefur. Alþingi mun áfram ákvarða heildarfjárhæð styrkja til einstakra málaflokka en úthlutun styrkja til einstakra verkefna mun flytjast til lögbundinna sjóða, menningarráða landshluta, ráðuneyta og annarra sem sjá um eða bera ábyrgð á fjárveitingum til viðkomandi málaflokka.

Ráðuneytin munu einungis úthluta styrkjum til verkefna sem falla undir málasvið þeirra að svo miklu leyti sem umsóknir um slíka styrki falla ekki undir lögbundna sjóði eða aðra samninga, svo sem menningarsamninga eða vaxtarsamninga. Ráðuneytin hafa haft með sér samráð um það verkferli sem unnið verður eftir við afgreiðslu slíkra umsókna. Í reglunum sem farið verður eftir við úthlutun í ráðuneytum er tilgreint hvað þurfi að koma fram í umsókn um styrki, helstu þætti sem farið er eftir við mat á umsóknum, fyrirkomulag úthlutunar og upplýsingagjöf frá ráðuneyti og styrkþegum.

Lögbundnir sjóðir vinna einnig eftir ákveðnu ferli um meðferð og mat umsókna. Sama gildir um menningarráð sveitarfélaga og stjórnir vaxtarsamninga. Til að breytingarnar kæmu ekki á óvart ákvað fjárlaganefnd að senda öllum umsækjendum styrkja frá Alþingi fyrir árið 2011 bréf í upphafi árs þar sem tilkynnt var að breyting yrði á úthlutun á óskiptum liðum árið 2012 og að breytingin yrði auglýst á vef Alþingis í byrjun september. Eftir samvinnu undirhóps fjárlaganefndar og starfsmanna ráðuneyta var sami texti um umfang breytinganna birtur á vef ráðuneytanna, Alþingis og á island.is ásamt reglum, umsóknarfresti og umsóknareyðublöðum fyrir þá óskiptu liði sem eftir verða í ráðuneytunum. Þar sem um miklar breytingar er að ræða munu Alþingi og ráðuneytin auglýsa þær vel og vísa fyrirspurnum og umsóknum í réttan farveg miðað við nýtt fyrirkomulag.

Hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti hafa fjárveitingar í samvinnu við hv. fjárlaganefnd verið flokkaðar til menningar-, íþrótta- og æskulýðsmála að nýju með þeim hætti að þær færist yfir á lögbundna sjóði, svo sem safnasjóð, tónlistarsjóð, bókmenntasjóð, menningarsamninga sveitarfélaga eða nýja úthlutunarliði eftir því sem við á.

Í velferðarráðuneytinu er skiptingu miðað við málaflokka heilbrigðismála og félagsmála haldið vegna samanburðar við önnur ríki um framlög. Teknir voru til endurskoðunar safnliðir og fjárveiting til félagasamtaka sem veitt verður frá ári til árs. Í fjárlagafrumvarpi 2012 eru fjárhæðir tilgreindar til félagasamtaka án samninga en verða ekki tilgreindar í fjárlögum 2012. Því mun velferðarráðuneytið hafa samband við viðkomandi félagasamtök og fara yfir breytt fyrirkomulag með þeim.

Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu voru þau verkefni sem heyra undir norðaustur- og norðvesturverkefni sem komu inn með fjárlögum 2008 tekin út fyrir safnliði svipað og er gert í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem þau verkefni voru ekki sett undir menningarsamningana. Einnig voru færð á safnliði ráðuneytisins verkefni sem til stendur að gera samning við til lengri tíma en eins árs.

Umfang safnliða umhverfisráðuneytisins var ekki mikið og því ekki miklar breytingar þar. Þó er eins og í hinum ráðuneytunum skerpt á reglum, aðhaldi og eftirliti. Þótt hér sé tekið stórt skref í átt til betri vinnubragða og kalli svarað um gegnsæi, þarfagreiningu og eftirlit með verkefnum sem fjármögnuð eru með ríkisfé er nauðsynlegt að að lokinni úthlutun styrkja fyrir árið 2012 verði farið rækilega yfir það hvernig til tókst og ferlið metið. Í kjölfar þess verði sett fram umbótaáætlun fyrir framkvæmdina árið 2013. Mikilvægt er að helstu markmið með breytingunum náist sem eru að gera úthlutunina gegnsærri og auka traust á því hvernig fjármunum ríkisins er skipt, efla þarfagreiningu og eftirlit, bæta stjórnsýslu og yfirsýn yfir einstaka málaflokka og að ákvörðunartaka og umsýsla málaflokka sé fagleg og afgreiðsla mála samræmd.

Æskilegt væri að til viðbótar þeim almennu viðmiðum sem tilgreind eru í reglum um úthlutanir ákveði allir sjóðir, menningarráð, vaxtarsamningar og ráðuneyti sérstakar efnislegar áherslur vegna úthlutunar styrkja ár hvert og auglýsi þær þegar umsóknarfrestur er tilkynntur.

Það kemur þeirri sem hér stendur ekki á óvart þótt hv. þingmönnum sem ekki hafa unnið að breytingunum finnist þær flóknar. Þótt meginmarkmiðin séu skýr tekur tæknileg útfærslan til margra þátta. Einfalda svarið við því hvert umsækjendur eigi nú að leita eftir styrkjum úr ríkissjóði er eftirfarandi: Alþingi tekur ekki við umsóknum þannig að það á ekki að senda umsóknina þangað. Staðbundin menningarverkefni sem ekki heyra undir lögbundna sjóði fari til menningarráða sveitarfélaga. Önnur verkefni sem eru á landsvísu og rekstrarstyrkir til félagasamtaka heyra undir viðkomandi fagráðuneyti. Allir sem unnu að þessum breytingum gera sér grein fyrir að umsækjendur eiga sumir erfitt með að fóta sig í nýju umhverfi og munu fúsir leiðbeina þeim sem þess óska. Fjárlaganefnd hefur rætt á undanförnum tveimur árum almennt og frá ýmsum hliðum nauðsyn á bættum vinnubrögðum við gerð fjárlaga. Breytingar á safnliðum eru liður í þeim umbótum.

Virðulegur forseti. Með nýjum lögum um þingsköp mun þingið ræða ramma næsta fjárlagaárs í apríl ár hvert, fyrst í apríl 2013. Þannig eru tryggðar umræður og aðkoma Alþingis að ákvörðun fjárlagarammanna áður en ráðuneyti hefja vinnu við útfærslu fjárlagatillagna sinna. Það er mikilvægt skref og mun leiða til þess að alþingismenn átti sig betur á forsendum fjárlagafrumvarpsins og geti haft um þær að segja á vinnslustigi.

Á síðasta þingi skilaði hv. fjárlaganefnd samhljóða skýrslu til Alþingis um skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2009. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vitnaði í þá skýrslu í ræðu sinni fyrr í kvöld þegar hann ræddi um nauðsyn á auknum aga í fjárlagagerð og eftirliti með framkvæmd fjárlaga. Í skýrslunni er eftirlitshlutverk fjárlaganefndar meðal annars rætt og vikið að ýmsum umbótum við framkvæmd fjárlaga. Í þeirri skýrslu segir einnig, með leyfi forseta, og vil ég gera þau orð að lokaorðum mínum:

„Það er álit fjárlaganefndar að við endurskoðun á fjárreiðulögum og öðrum lögum og vinnubrögðum er varða ríkisfjármál og eftirlit með þeim, þar með talin lánamál og ríkisábyrgðir, eigi Alþingi að líta til annarra landa og læra af því sem þar best reynist. Fjárlaganefnd þurfi að vera vel kunnug aðferðum þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við og skapa eigi henni tækifæri og aðstæður til að kynna sér þær aðferðir sem best.“