140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er hins vegar búinn að heyra það í tæp tvö ár að við séum að bíða eftir því að ríkisreikningsnefnd endurskoði fjárlögin. Ég tel að við getum gert þetta með samþykkt þessara fjárlaga, það þarf bara að senda út merki um að stofnanirnar sem eru á fjárlögum eigi að fara eftir þeim, af því að við munum ekki sjá lokafjárlög fyrir árið 2012 fyrr en kjörtímabilinu lýkur.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, við þurfum að fara inn í sum lög, önnur ekki. Við þurfum hugsanlega að fara í lögin hjá Fjármálaeftirlitinu, við þurfum það ekki hjá Ríkisútvarpinu af því að nefskatturinn fer beint í ríkissjóð og verður hluti af honum eftir þar og síðan er Ríkisútvarpið á fjárlögum. Það eru einhver lög sem við þurfum að skoða en ég held að það sé ekki mjög flókið. Ég held í raun og veru að það sé ekki eftir neinu að bíða hvað það varðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann um hvort hún geti tekið undir þá skoðun mína að það sé mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd skoði á næsta ári hvernig staðið er að niðurskurði í einstaka stofnunum. Tökum sem dæmi stofnanir sem fá fé til verklegra framkvæmda og geta skorið niður til þess að halda sig innan útgjaldarammans, málaflokkurinn er til að mynda skorinn niður um 3%. Þessar stofnanir geta í raun tekið það allt af framkvæmdafénu en haldið yfirbyggingunni á meðan sjúkrastofnanir þurfa að skera niður með því að segja upp fólki og geta ekki þá verið með sömu yfirbyggingu eðli málsins samkvæmt. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Væri ekki nauðsynlegt fyrir hv. fjárlaganefnd að skoða það sérstaklega? Ég skoðaði reyndar sjálfur örfáar stofnanir og þar kom í ljós að yfirbyggingin er sú sama og var í ársbyrjun 2007 en hagræðingin hefur náðst með niðurskurði á verklegum framkvæmdum.