140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[01:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Eins og hv. þingmaður kom inn á í lokaorðum sínum verður athyglisvert að fylgjast með þessu, hvaða fordæmi þetta hefur fyrir aðra. Ég minni á að margir keyptu stofnfjárbréf, einmitt í þessum sparisjóði, eins og er þekkt í Húnavatnssýslum þar sem heilt byggðarlag er nánast undir. Það er spurning hvaða áhrif þetta hefur á það fólk.

Hv. þingmaður átti mjög lengi sæti í efnahags- og skattanefnd og stýrði henni í mörg ár af mikilli röggsemi. Mig langar að spyrja hann um eitt sem hann kom inn á í ræðu sinni um tekjuhlið frumvarpsins. Ég verð að viðurkenna að mér finnst sú hlið hálfmunaðarlaus að því leyti að það stendur í þingskapalögunum að fjárlaganefnd eigi að gefa efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um tekjuhliðina en ég sé ekki hvernig það er framkvæmanlegt vegna þess að þá er tekjuhliðin í einni nefnd og gjaldahliðin í annarri. Þá er mjög erfitt að framkvæma eftirlitshlutverk fjárlaganefndar um framkvæmd fjárlaga. Því spyr ég hv. þingmann um skoðun hans á þessu, hvort ekki væri eðlilegra að flytja breytingartillögu í þinginu um að tekjuhlutinn yrði áfram með sama hætti og hann var, þá í efnahags- og viðskiptanefnd eins og hún heitir í dag. Síðan er yfirsýnin í hv. fjárlaganefnd og þar geta menn fylgst með framkvæmd fjárlaga.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann um svokallaðar sérstakar vaxtabætur sem hann nefndi sem eru líka greiddar af opinberu sjóðunum. Hann þekkir rekstur töluvert vel. Hvað finnst honum um það þegar ríkið tekjufærir vaxtabætur af opinberum sjóðum inn í fjárlögin árið 2012 en síðan myndast halli í hinn endann vegna þess að það vantar 400 milljarða inn í lögbundnu sjóðina eða opinberu sjóðina? Finnst honum eðlilegt að færa þetta sem tekjur á ríkissjóð?