140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er að sjálfsögðu ekki gott ef þeir sem gera samkomulag sín í milli verða síðan ekki sammála um það eftir á hvaða skilning beri að leggja í það samkomulag sem þeir hafa gert. Ef slíkar mismunandi túlkanir eða sjónarmið koma upp er sjálfsagt að fara yfir það á milli aðila og komast til botns í því hvort eitthvað fari þar á milli mála. Ég stend í þeirri trú að eins og fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur meiri hlutans líta út í þessu efni sé staðið við þá samninga sem gerðir hafa verið og þau fyrirheit sem gefin hafa verið í þessu efni. Eins og ég segi, ef menn telja að svo sé ekki finnst mér eðlilegt að þeir sem standa að slíku samkomulagi setjist yfir það og reyni að komast til botns í því hvað þar ber á milli og leiti skýringa á þeim mismunandi sjónarmiðum sem uppi eru. Þetta er minn skilningur og ég tel mig vita að ríkisstjórnin telji að hún standi með þeim tillögum sem hér liggja fyrir við þau fyrirheit og þá samninga sem gerðir voru.