140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað hárrétt, það er ekki hægt að steypa allar ríkisstofnanir saman vegna þess að þær eru eðlisólíkar. Það getur verið heilmikill munur á stofnunum sem hafa fyrst og fremst fjármuni til reksturs og svo þeim sem hafa féð skipt milli reksturs og framkvæmda. Í fjárlagafrumvarpinu og í fjárlögum eru fjárveitingarnar auðvitað skiptar á rekstur annars vegar og framkvæmdir hins vegar, viðhald o.s.frv. Það hlýtur að vera sú meginlína sem Alþingi setur stofnununum. Ég held að menn verði að fara mjög varlega í því að færa þarna á milli vegna þess að þá er í raun verið að fara á svig við fjárlögin eins og ég horfi á það. Þegar fjárveitingavaldið hefur sagt að einhver tiltekin upphæð eigi að fara í framkvæmdir og einhver önnur í rekstur hafa menn ekki þetta frjálsa svigrúm til að færa þar á milli þótt þeir geti hugsanlega fært innan framkvæmdaliðar annars vegar og innan rekstrarliðar hins vegar.