140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[04:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Mig langar að koma inn á nokkur atriði varðandi fjárlagafrumvarpið sem við ræðum nú og höfum rætt hér í allan dag. Í fyrsta lagi um almenna forgangsröðun varðandi til að mynda velferðarmál og fleira í þeim dúr. Í öðru lagi um áhrif frumvarpsins, eins og það birtist okkur, á hinar dreifðu byggðir landsins með fjölþættum hætti. Í þriðja lagi um það hvernig hægt væri að ná í auknar tekjur með öðru móti en birtist í þeim tillögum sem meiri hlutinn leggur fram. Í fjórða lagi er mikilvægt að fara yfir þau atriði sem snúa að fjárfestingu hér á landi, atvinnuuppbyggingu og almennri verðmætasköpun.

Það er nokkuð ljóst að þetta frumvarp felur í sér gríðarlegan niðurskurð í velferðarmálum, í heilbrigðiskerfinu, í félagsþjónustu og félagskerfinu, og alveg ljóst að frumvarpið má ekki ná fram að ganga í óbreyttri mynd enda þótt maður sé vissulega hræddur um að svo verði.

Okkur þingmönnum barst í dag bréf sem sýnir einungis lítið dæmi um þá miklu skerðingu sem fjárlagafrumvarpið felur í sér. Þetta er bréf til alþingismanna frá formanni Öryrkjabandalags Íslands þar sem farið er yfir það, sem hefur raunar komið ítrekað fram í umræðunni í dag, að verið sé að skerða bótaflokka, sem var búið að lofa hækkun á, aukalega um 3% miðað við það sem hafði verið lofað. Þetta sé þvert á þau loforð og auk þess þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hefur kennt sig við velferð og kallað sig velferðarstjórn á hátíðisdögum, eða gerði það að minnsta kosti fyrsta árið sem hún starfaði þó að þeir gerist nú æ færri sem tengja núverandi ríkisstjórn á nokkurn hátt við velferð.

Athygli vekur hvaða bótaflokkar það eru sem munu skerðast allharkalega nái frumvarpið fram að ganga. Mig langar, með leyfi frú forseta, að lesa upp úr þessu bréfi: „Það eru mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, meðlagsgreiðslur, barnalífeyrir, barnalífeyrir vegna náms, dagpeningar slysabóta, dánarbætur vegna slysa og uppbætur vegna reksturs bifreiða.“

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu.“

Frú forseti. Það er nokkuð ljóst að mjög fátt í þessu frumvarpi bendir til þess að þetta hafi verið haft að leiðarljósi til að mynda ef við horfum til þess hversu harkalega er skorið niður í heilbrigðismálum, og þó að vissulega sé dregið að einhverju leyti í land með það er sá niðurskurður engu að síður kominn langt yfir öll þolmörk í heilbrigðiskerfinu. Við sjáum það bæði á höfuðborgarsvæðinu og ekki hvað síst á landsbyggðinni þar sem skorið hefur verið mjög mikið niður til heilbrigðismála og er að setja byggðir víða í mjög vafasama og hættulega stöðu. Á sama tíma og við ræðum þennan gríðarlega niðurskurð í heilbrigðiskerfinu úti á landi meðal annars, og þó að hluta til sé búið að draga hann til baka er uppsafnaður niðurskurður hjá ákveðnum heilbrigðisstofnunum engu að síður orðinn það mikill að hann er farinn að skerða verulega þjónustu á viðkomandi svæðum og ógna öryggi íbúa sem þar búa, er veðrið sem verið hefur núna síðustu tvo sólarhringa, með mikilli ófærð á mörgum landsvæðum, kannski ágæt áminning. Þetta vill oft gleymast. Það hefði ekki mikið þurft að gerast á mörgum þeim svæðum þar sem fjallvegir hafa nú verið ófærir til að mjög alvarleg staða hefði komið upp þar.

Af því að ég var að minnast á landsbyggðina og er farinn ræða hvaða áhrif fjárlagafrumvarpið hefur á byggðaþróun vekur það óneitanlega athygli að hversu harkalega þetta frumvarp og raunar fyrri fjárlagafrumvörp, til að mynda fjárlögin sem við störfum eftir núna, kemur niður á landsbyggðinni. Mörg þeirra sveitarfélaga sem hafa staðið mjög veikt og glímdu við fólksfækkun á hagvaxtartímanum þegar íbúum fækkaði mjög hratt, glíma núna við gríðarlegan niðurskurð í ofanálag. Og það er ekki á bara einu sviði heldur á öllum sviðum sem ráðuneyti koma með niðurskurðartillögur, án þess að samráð sé haft milli ráðuneyta, án þess að kannað sé hvaða áhrif það hafi á byggðaþróun á viðkomandi svæðum.

Eitt ágætt dæmi sem hefur verið töluvert í umræðunni er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja helminginn af aukaframlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til bjargar einu sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta aukaframlag jöfnunarsjóðs var á sínum tíma hugsað til stuðnings sveitarfélögum sem höfðu mátt glíma við mikla fólksfækkun og áttu þar af leiðandi erfitt með að ná endum saman fjárhagslega. Þetta eru um það bil 25–30 sveitarfélög, flestöll lítil eða meðalstór sveitarfélög, og öll eru þau á landsbyggðinni vegna þess að fólksfækkunin hefur jú verið þar. Maður skyldi ætla að áður en slíkt væri gert væri skoðað hvaða áhrif það kynni að hafa á rekstur þessara litlu sveitarfélaga eða að menn spyrðu hvort forsendur hefðu eitthvað breyst frá því þetta aukaframlag var ákveðið. Fólksfjölgun hefur ekki orðið í þessum sveitarfélögum. Þar er sami vandinn uppi. Það er sama bilið sem þarf að brúa í rekstri þessara sveitarfélaga og gert var með þessu aukaframlagi. Engu að síður ákveður ríkisstjórnin einhliða að taka helminginn af því og nýta til að bjarga einu sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu sem þýðir það að þessi litlu sveitarfélög úti á landi bera kostnaðinn við greiðslufall sveitarfélagsins Álftaness. Þetta er ekki sagt, frú forseti, til að gera lítið úr því að mikilvægt sé að bjarga sveitarfélaginu Álftanesi, en á sama tíma leggja stór sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, eins og til að mynda Reykjavíkurborg, ekkert af mörkum fjárhagslega inn í þann pakka að bjarga sveitarfélaginu Álftanesi.

Þetta er mjög gott dæmi um þá stefnu sem hefur ríkt gagnvart landsbyggðinni, enda heyrir maður æ oftar sveitarfélög og sveitarstjórnarmenn víða um land spyrja hvort til standi að leggja niður landsbyggðina. Það virðist engin heilsteypt byggðastefna vera í gangi og handahófskenndur niðurskurður á mörgum sviðum sem kemur mjög harkalega niður á landsbyggðinni og sveitarfélög, mörg hver, hafa af því mjög miklar áhyggjur að geta ekki með nokkru móti, í ljósi íbúafækkunar og í ljósi þróunar sem verður af þessu frumvarpi, náð endum saman á næstu árum.

Við þessu var varað á síðasta ári, frú forseti. Það var einmitt þess vegna sem óskað var eftir því í fjárlaganefnd fyrir rúmu ári að fram færi byggðaúttekt á fjárlagafrumvarpinu með það að markmiði að kanna hvaða áhrif frumvarpið hefði á íbúaþróun á landsbyggðinni og sveitarfélögin þar og þjónustu við íbúana.

Það er rúmt ár síðan þetta var samþykkt í fjárlaganefnd og það er raunar með ólíkindum að ekki liggi enn fyrir byggðaúttekt á fjárlögum síðasta árs. Enn furðulegra er að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn og ráðuneyti þeirra hafi ekki skilað nægilega góðum gögnum til Byggðastofnunar, sem átti að vinna þessa úttekt, fyrr en eftir að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012 kom fram. Og enn þá ótrúlegra að það sé hæstv. velferðarráðherra, sem kemur síðan fram með harkalegar niðurskurðartillögur á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, sem ekki skilar gögnum til Byggðastofnunar vegna byggðaúttektar fjárlaga síðasta árs. Er nema von að margir spyrji sig hvort það sé markvisst verið að leggja af byggð í landinu?

Nú er það svo að allir gera sér grein fyrir því að mikilvægt er að ná endum saman í ríkisfjármálum en á sama tíma og rætt er um þennan niðurskurð og heilbrigðisþjónustan, velferðarþjónustan, menntakerfið og löggæslan eru skorin niður af hörku, vil ég segja, er gríðarlegur fjáraustur á mörgum öðrum sviðum.

Fyrir skömmu lagði ég fram fyrirspurn til allra ráðuneyta um utanlandsferðir ráðherra og embættismanna innan ráðuneytanna svo og undirstofnana þeirra. Maður heyrir það utan að sér að sjaldan eða aldrei hafi verið jafnmikil ferðagleði hjá embættismönnum og ráðherrum og starfsmönnum ráðuneyta og eftir hrun og að lítið sé til sparað í þessum efnum á sama tíma og skorið er niður í heilbrigðisþjónustu. Nú gerir sá sem hér stendur ekki lítið úr mikilvægi þess að eiga góð samskipti við erlend ríki og sækja nauðsynlega fundi og ráðstefnur eftir atvikum og annað sem mikilvægt er að gera. Hins vegar er alveg ljóst, frú forseti, að ef við skoðum þessar tölur og fjölda þeirra utanlandsferða sem farnar eru á vegum ráðuneytisins vakna eðlilega upp spurningar um hvort þarna sé rétt forgangsröðun á ferðinni, hvort þarna sé virkilega verið að spara eins og mögulegt er eða leita leiða til að minnka útgjöld hvað þennan þátt varðar.

Ég held við getum öll verið sammála um að það er mikilvægt að setja eins mikla fjármuni og mögulegt er í heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið og löggæsluna. Ég held að við getum líka öll verið sammála um að það er mikilvægt að á tímum sem þessum sé kostnaði við utanlandsreisur, fundi erlendis, ráðstefnur og fleira, stillt í hóf. Ég hef tekið saman niðurstöður þessarar fyrirspurnar og ef við skoðum þær hefur einungis um helmingur ráðuneytanna svarað. Enn eiga stór ráðuneyti eftir að svara, eins og til að mynda utanríkisráðuneytið. Niðurstöðurnar úr þessu eru vægast sagt sláandi. Um helmingur ráðuneytanna sem þegar hafa svarað hefur farið í 3.202 utanlandsferðir fyrstu níu mánuði þessa árs. Helmingur ráðuneytanna í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur hefur farið 3.202 utanlandsferðir á fyrstu níu mánuðum ársins. Heildarkostnaður við þessar utanlandsferðir eru 711.793.930 kr.

Ef maður skoðar þessi ferðalög eru þetta ferðir til um 68 landa. Eðlilega hljóta að vakna spurningar til að mynda um hvort mögulegt hefði verið að fækka eitthvað þeim tæplega 400 ferðum sem farnar voru til Danmerkur og hugsanlega setja þá fjármuni í heilbrigðisstofnanir úti á landi og til löggæslunnar. Var til að mynda mögulegt með þær þrjár ferðir sem farnar voru til Síle, níu ferðir sem farnar voru til Argentínu eða ferðalagið sem farið var til Abú Dabí, Ísraels, Jamaíku, Kína, El Salvadors, Færeyja, Grikklands, Grænlands, 68 ríkja, frú forseti, 3.202 ferðir hjá helmingi ráðuneytanna á fyrstu níu mánuðum ársins?

Má búast við því, frú forseti, að þegar öll ráðuneytin hafa svarað, og í ljósi þess að utanríkisráðuneytið er eitt þeirra sem ekki hafa svarað, að þessi tala geti hæglega tvöfaldast? Að við horfum á það að ríkisstjórn Íslands hafi ferðast og farið í yfir 5.000 utanlandsferðir fyrstu níu mánuði ársins? Ég trúi því reyndar ekki fyrr en ég sé það, frú forseti. En það yrði sláandi fyrir allt það fólk sem er að reyna að ná endum saman hér í landinu og fyrir þann málflutning að nú þurfi allir að spara. Nú þurfi allir að taka sinn skerf af hruninu, allir þurfi að taka þátt í þessu, við þetta sé ekki ráðið, við verðum að takast á við þetta verkefni. Það er augljóst í ljósi þess bruðls sem þarna er í gangi. Þetta er ekkert annað en bruðl, það þarf ekki að fara í 5.000 utanlandsferðir fyrstu níu mánuði ársins til að halda lágmarkssamskiptum við erlend ríki.

Í ljósi þess að svona er um hnútana búið er hægt að gera frekari sparnaðarkröfu á almennan rekstur ráðuneyta og skrifstofur ríkisstofnana. Það er hægt að verja meiri fjármunum til uppbyggingar, til heilbrigðisþjónustunnar, til ýmissa bótaflokka. Það er svigrúm vegna þess að þessar tölur sýna það að fjármunum er gríðarlega illa varið.

Í ofanálag horfum við upp á gríðarlegan fjáraustur. Ef skoðaður er tilgangur þessara ferða sér maður að ótrúlega stór hluti þeirra er einmitt til kominn vegna Evrópusambandsumsóknar, ýmissa funda tengdum henni, rýnifundum, ráðherrafundum hjá ESB og fleira í þeim dúr. Og þá er auðvitað ekki hægt að réttlæta það, á sama tíma og við segjum við ríkisstofnanir, við Landspítalann, við sjúkrahúsin á landsbyggðinni, við lögregluna, við öryrkja, við aldraða og námsmenn að þeir verði að spara, að vera með hundruð milljóna króna ef ekki milljarða fjáraustur til Evrópusambandsumsóknar sem kannanir sýna að meiri hluti þjóðarinnar er algjörlega andsnúinn. Meiri hluti þjóðarinnar er algjörlega andsnúinn því að ganga í Evrópusambandið og meiri hluti þeirra skoðanakannana sem gerðar hafa verið undanfarna fjóra mánuði — gerðar hafa verið fimm kannanir — sýnir að þjóðin vill líka draga þessa umsókn til baka. Menn eru nefnilega að átta sig á því að vandamálin í Evrópusambandinu eru það stór að heildarlausn okkar mála felst ekki í inngöngu þar inn. Æ fleiri eru farnir að sjá þetta. Engu að síður heldur ríkisstjórnin áfram að forgangsraða fjármunum með þeim hætti að peningar eru settir í þetta mál, peningar eru settir í flugmiða, í hótelkostnað fyrir embættismenn á fundum erlendis, á sama tíma og okkur berast fréttir af niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, af vaxandi áhyggjum starfsmanna sem þar vinna, og einungis er tímaspursmál hvenær upp koma mál, alvarleg mál sem rekja má til þessa niðurskurðar.

Á sama tíma og verið er að hækka skatta á almenning, hækka skatta á fyrirtæki, horfum við upp á það að ríkisstjórn Íslands með Jóhönnu Sigurðardóttur í fararbroddi er að gera einhvers konar rammasamning — sá samningur hefur reyndar ekki verið birtur — við Evrópusambandið sem felur í sér skattafslátt, sem felur í sér skattaívilnanir til handa þeim sem starfa fyrir Evrópusambandið, niðurfellingu á tollum og aðflutningsgjöldum á öllum vörum sem Evrópusambandið flytur hingað inn, undanþágur frá stimpilgjöldum og öðru því um líku. Einhvern tímann hefði nú eitthvað heyrst í mörgum þeirra sem hyggjast leggja þetta fram. Á sama tíma og verið er að leggja til tvísköttun á fyrirtæki í atvinnulífinu, aukna skatta á almenning, eru menn að tala um að veita Evrópusambandinu einhvers konar skattfrelsi hér. Milljarðar fara í þessa umsókn, eilíf ferðalög sem nú hefur veri sýnt fram á með fyrirspurn að kosta hundruð milljóna, og Evrópusambandinu er veitt skattfrelsi.

Hvers á almenningur að gjalda? Er nema von að við horfum upp á það að heilbrigðisstarfsmenn eru farnir að mæta á þingpalla til að láta ríkisstjórnina vita af þeim umræðum sem fara fram á kaffstofum, af þeim áhyggjum sem fólk innan heilbrigðiskerfisins hefur af auknum niðurskurði, af líðan sjúklinga og því að þetta sé farið að bitna verulega á þjónustu við þá sem minna mega sín.

Mig langar, frú forseti, að lesa aftur upp úr bréfi frá Öryrkjabandalagi Íslands sem okkur barst í morgun, endurtaka úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem sagði orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu.“

Í ljósi þess sem ég hef rakið hér er þetta mjög alvarlegt, ekki fyrir þessa ríkisstjórn og ekki fyrir okkur sem störfum hér heldur allt það fólk sem þarf að reiða sig á þessa þjónustu að forgangsröðunin sé með þessum hætti.

Frú forseti. Á sama tíma horfum við líka upp á það að ekki hefur verið gert nægilega mikið fyrir skuldsett heimili þessa lands, skuldsettar fjölskyldur. Brottflutningur af landinu heldur áfram. Í hverri viku heyrir maður í fólki sem er ýmist að sækja um vinnu erlendis, í Noregi, flestir fara til Noregs eða eru komnir til Noregs, annar makinn farinn til Noregs, konan á leiðinni eða öfugt. Á hverjum degi heyrir maður fréttir af þessu. Þetta kostar íslenskt samfélag gríðarlega fjármuni.

Við sáum fréttir af því í síðustu viku að margir þeirra sem fóru til Noregs á árunum 2009–2010 eru að byrja að festa þar rætur, sumir að kaupa sér húsnæði. Þetta kostar íslenskt samfélag mikið vegna þess að íslenskt samfélag hefur fjárfest í menntun þessa fólks, það hefur kostað menntun þessara einstaklinga að miklu leyti. Þetta er mjög dýrt fyrir íslenskt samfélag þar sem þetta ágæta fólk er flest ungt fólk sem ætti undir venjulegum kringumstæðum að vera að fara út í atvinnulífið og skapa hagvöxt og auka verðmætasköpun og skila þar með til baka til samfélagsins því sem menntun þess kostnaði.

Í skýrslu sem OECD gaf út á síðasta ári kemur fram að íslenskt samfélag eyðir að meðaltali einni milljón á hvern nemanda á hverju ári. Samkvæmt þessari skýrslu kostar hver háskólamenntaður einstaklingur samfélagið um 23 millj. kr. þannig að hver einstaklingur sem flytur burt frá Íslandi, sest að erlendis, er glötuð fjárfesting upp á 23 milljónir. Háskólamenntuð hjón sem flytja til útlanda með börn sem kannski eru byrjuð í skóla er glötuð fjárfesting upp á 50 milljónir. Þess vegna er svo mikilvægt að sporna við þessu.

Þegar menn koma hér upp og tala um að atvinnuleysi hafi minnkað mjög mikið verðum við auðvitað að setja það í samhengi við þann fjölda fólks sem flutt hefur af landi brott. Það er staðreynd að þeir sem flutt hafa af landi brott nálgast nú 8.000 manns. Til að setja það í samhengi, sögulegt samhengi, fluttu um 15.000 Íslendingar til Vesturheims í lok 19. aldar. Fjöldi þeirra sem flutt hafa til útlanda núna er orðinn meiri en helmingur þeirra sem þá fluttu. Ef við margföldum þessa tölu með kostnaðinum við að mennta þetta ágæta fólk, þetta kraftmikla fólk sem er að flytja til útlanda, hleypur þetta tap á tugum milljarða króna fyrir íslenskt samfélag.

Einmitt þess vegna, frú forseti, er svo mikilvægt og algjört forgangsverkefni að koma atvinnulífinu af stað, að þeir sem stunda atvinnurekstur séu tilbúnir til að sækja fram með sín fyrirtæki, séu tilbúnir til að hefja fjárfestingar á nýjan leik, séu tilbúnir til að nýta auðlindir landsins, hvort sem það er til sjávar eða sveita, til verðmætasköpunar, til að ná hér niður atvinnuleysi, til að gefa unga fólkinu von um að það þurfi ekki að flytja af landi brott frá fjölskyldum sínum til að ná endum saman og geta framfleytt sér og sinni fjölskyldu.

Því miður er ansi lítið að gerast í atvinnuuppbyggingu. Þegar maður hittir atvinnurekendur, hvort sem það eru smáir atvinnurekendur, allt frá einyrkjum upp í vinnustaði þar sem starfa 5–10 manns, eða stærstu fyrirtæki, ríkir ekki mikil bjartsýni. Af hverju? Það sem maður heyrir þar sem maður kemur — og varla er það vegna þess að allt það ágæta fólk sem starfar í þessum atvinnugreinum sé svona miklir óvinir ríkisstjórnarinnar — það sem ber hæst er ekki vandamálið með íslenskan gjaldmiðil, ekki vandamálið að við skulum ekki vera búin að taka upp evru, það er einkum tvennt sem maður heyrir á tali fólks og hefur raunar komið fram víða í umræðunni: Í fyrsta lagi seinagangur við lausn á skuldavanda fyrirtækja og þessar sértæku aðgerðir. Í öðru lagi er það sú pólitíska óvissa sem virðist vera yfir öllu. Þessi orð eru mikið notað þessa dagana.

Það er kannski ágætt að taka eitt dæmi sem snýr að þeirri umræðu sem kom upp vegna tvísköttunaráforma ríkisstjórnarinnar á íslenskan iðnað. Enginn heldur því fram að íslensk iðnaðarfyrirtæki eigi ekki að leggja sitt af mörkum til samfélagsins en það er gríðarlega mikilvægt áður en farið er af stað með skattahugmyndir að í fyrsta lagi sé kannað hvort umrædd skattlagning feli í sér skerðingu á samkeppnishæfni fyrirtækjanna á alþjóðamarkaði og hvort fyrirtækin séu yfir höfuð í stakk búin til að greiða umrædda skatta. Við urðum vör við það í síðustu viku að þetta var ekki gert. Í öðru lagi er algjört grundvallaratriði að haft sé lágmarkssamráð við atvinnurekendur, hvort sem þeir eru smáir eða stórir, áður en umgjörð fyrirtækjanna er breytt með þessum hætti.

Það er nefnilega svo að allir sem stunda fyrirtækjarekstur gera áætlanir, hvort sem það eru bændur, sjómenn, verslunarrekendur, byggingarfyrirtæki eða stærstu álverksmiðjur. Allir gera áætlanir. Og í þeim áætlunum gera menn ráð fyrir umgjörðinni sem fyrirtækið starfar eftir. Annars væri ekki hægt að gera áætlanir. Þegar sú umgjörð breytist dag frá degi og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér þá fjárfesta menn ekki í frekari atvinnuuppbyggingu eðli málsins samkvæmt, hvort sem það eru bændur, sjómenn, verslunarrekendur, byggingarfyrirtæki eða hvað annað. Þarna ber ríkisstjórnin gríðarlega ábyrgð.

Það er einmitt þess vegna sem mörg fyrirtæki sem birta áhættugreiningu á ríkjum heims eru farin að flokka íslenskt samfélag, Ísland með löndum í Mið- og Suður-Ameríku, í Afríku og Rússlandi, Kasakstan. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni. Á sama tíma horfum við upp á það að atvinnulaust fólk flytur úr landi.

Þá veltir maður því líka fyrir sér hversu lengi þessara áhrifa gætir. Eins og til að mynda vegna þeirra tvísköttunaráforma sem lögð voru fram með þessu fjárlagafrumvarpi eða bandorminum, en áform eru um að draga til baka. Hversu lengi gætir þeirra áhrifa sem sett eru fram með svona máli? Maður heyrir það þegar rætt er við fólk sem starfar í þeim fyrirtækjum sem um ræðir, hvort sem þau eru lítil eða stór, að það veit ekki á hverju það á von. Það veit ekki hvort þessi skattur dúkkar upp aftur á þessu ári, á næsta ári. Á meðan sú er raunin halda menn að sér höndum. Á meðan menn vita ekki á hverju þeir eiga von halda þeir að sér höndum.

Þetta er vandinn sem við glímum við. Þetta er vandinn sem atvinnulífið í heild glímir við. Orðið atvinnulíf er að verða eins og eitthvert bannyrði. Í eyrum margra stjórnarliða er það að verða eins og eitthvert bannyrði að tala um atvinnuuppbyggingu og atvinnulíf og atvinnurekendur. Þeir geta verið jafnt stórir sem smáir. Varla eru þeir allir af hinu illa. Það er mjög hættulegt þegar staðan er orðin með þessum hætti.

Það er eitt enn sem ég ætlaði að koma inn á — af því að tíminn fer nú að styttast — sem er þessu alls ótengt en það snýr að safnliðaútdeilingum samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi. Öllum er kunnugt hvernig úthlutun þessara safnliða hefur verið háttað en nú er ráðist í breytingu á þessu og var gerð grein fyrir því í dag. Í nefndaráliti 2. minni hluta eru þessar breytingar gagnrýndar. Ég vil taka undir þá gagnrýni að hluta. Þessi vinna hófst síðasta ári og vilji er til að breyta þessu. Þar var algjört grundvallaratriði að ef ráðist væri í þessar breytingar væri tvennt sem þyrfti að gæta að í því samhengi. Í fyrsta lagi mætti það ekki gerast að úthlutanir til margra þeirra öflugu verkefna vítt og breitt um landið, sprotaverkefna, færðust inn í ráðuneyti í Reykjavík. Grundvallaratriðið var að úthlutunin væri í nærsamfélaginu þar sem þekking væri á viðfangsefninu og menn vissu hvar möguleikarnir lægju. Nú er það svo að hluti af þessu hefur verið fært inn í ráðuneytin í hendur embættismanna eða tillögur þar að lútandi.

Hitt atriðið sem var mjög mikilvægt að næðist fram var að þetta væri ekki hugsað þannig að þetta yrði sett inn í menningarsamning eða eitthvað því um líkt og láta síðan ekki sambærilegt fjármagn fylgja með. Nú sér maður að það er alveg ljóst að öll þessi litlu verkefni úti á landi sem fengu smáar fjárhæðir munu þurfa að þola mun meiri niðurskurð en stærri verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Oft og tíðum eru mörg þessara litlu verkefna, þessi litlu setur og söfn, svipuð og Harpan í Reykjavík, Harpa Reykvíkinga. Margir á landsbyggðinni nýta sér Hörpuna lítið. En þetta eru verkefni sem skipta oft jafnmiklu eða meira máli en Harpan gerir fyrir miðbæinn og kosta einungis brot af þeim fjárhæðum settar eru í það verkefni.

Það er mjög eðlilegt að þetta sé gagnrýnt. Ég skil raunar ekki af hverju farið var fram með hugmyndir af þessu tagi án þess að þær væru mótaðar, án þess að markmiðið væri sett nákvæmlega hver hugsunin væri, hverju við ætluðum að ná fram með þessu gagnvart þessum byggðarlögum og þeim sprotahugsunarhætti og þeirri framsækni sem var með þessum verkefnum, en því miður varð þetta niðurstaðan. Ég harma það mjög. Þetta er alfarið á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem er við völd.

Ég hef lokið tíma mínum, frú forseti, það hefði verið hægt að fara mun víðar í þessari ræðu en ég vonast til þess að ríkisstjórnin sjái að sér (Forseti hringir.) og ráðin verði bót á mörgu af því sem ég hef nefnt hér.