140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[04:50]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir ágæta ræðu. Hann eyddi talsverðum tíma í að útlista ferðareikninga ríkissjóðs. Hv. þingmaður tók ásamt mér og fleirum þátt í því sumarið 2009 að draga verulega úr ferðakostnaði á vegum Stjórnarráðsins og hins opinbera í aðgerðum sem við stóðum að saman þegar hann var með mér í tiltektarliðinu. Þar var verulega dregið úr ferðalögum og möguleikum þingmanna og embættismanna á að ferðast til útlanda, bæði var ferðum fækkað og sömuleiðis þeim fækkað sem áttu rétt á að ferðast.

Bara fyrir forvitnissakir, af því ég veit að hv. þingmaður hefur gegnt störfum í alþjóðanefndum og sinnt þeim af stakri prýði, spyr ég hvort hv. þingmaður geti upplýst um það hversu oft hann sjálfur hefur farið í utanlandsferðir á vegum þingsins á kjörtímabilinu, til hve margra landa og hugsanlega hvaða kostnaður hafi fylgt því — og þá kannski í leiðinni hvort hann hafi einhvern tímann beðist undan ferðum í þeim tilgangi að spara ferðakostnað og gjaldeyri og uppihald til að eiga þá peninga í eitthvað annað.