140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[06:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það líður að lokum 2. umr. um fjárlagafrumvarp næsta árs og ég hef reynt að fylgjast með flestu því sem hér hefur verið sagt og flestum þeim ræðum sem hafa verið fluttar í þessari umræðu og held að ég hafi náð stærstum hlutanum. Að stofninum til hefur þetta verið málefnaleg og ágæt umræða þó að víða hafi verið um óttalegt mas að ræða og ekki alltaf fjallað um málið sem hér á þó að vera til umræðu. Mörgum get ég verið sammála og mörgum get ég verið ósammála í því sem hér hefur verið sagt.

Þetta er þó þriðja árið í röð sem stjórnarandstæðingar boða það að hér fari allt fjandans til ef fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga. Ekkert slíkt hefur samt gerst enn þá, þetta er þriðja fjárlagafrumvarp núverandi ríkisstjórnar eða hátt í það fjórða því að fjárlög ársins 2009 voru tekin upp og endurskoðuð á miðju því ári og færð að því umhverfi sem þá blasti við okkur.

Þær svartsýnisspár sem hér hafa verið uppi á hverju einasta ári, sumar hverjar kannski meira til varnaðar og til að menn hefðu vaðið fyrir neðan sig ef allt færi nú fjandans til einu sinni enn í þessu landi, hafa sem betur fer ekki ræst. Í raun er langur vegur frá því. Þvert á móti höfum við haldið ágætlega plani við ríkisfjármálin frá ári til árs. Aðhaldskrafan sem við höfum sett okkur hefur ekki þurft að vera eins mikil og við lögðum upp með í upphafi vegna þess að okkur hefur gengið betur en við reiknuðum með. Við höfum getað gripið til ýmissa ráðstafana samhliða því að loka því gati með niðurskurði og afla nýrra tekna sem nauðsynlegt var að gera og ég held að allir viðurkenni. Við höfum getað staðið að kjarasamningum við opinbera starfsmenn og komum að kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum í sumar. Við höfum getað farið í að hækka í bótakerfinu umfram verðlag. Við höfum farið í að hækka vaxtabætur til íbúðarkaupenda, sérstakar vaxtabætur, og aukið almennu vaxtabæturnar og við höfum lagt tugi milljarða inn í Íbúðalánasjóð, m.a. í þeim tilgangi að koma að skuldavanda heimilanna.

Margt hefur gengið okkur í haginn þó að annað hafi ekki gert það. Það er svo sannarlega ekki allt í blóma hér á landi eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði í ræðu áðan að við stjórnarsinnar vildum meina. Það er ekki þannig, það er langur vegur frá því. Íslenskt efnahagslíf var það illa leikið fyrir aðeins þrem árum að það er langur vegur frá því að hér sé allt í blóma eða verði það á næsta ári þó að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gangi eftir eins og vonir standa til. Þrátt fyrir það hefur okkur miðað áfram og ég held að það sé ósanngjarnt af öllum að ætla að þannig sé það ekki. Ég vonast til að þingmenn sýni þó þá sanngirni að viðurkenna að þannig sé það. Öll mælitæki, bæði innlend og erlend, vísa til þess að okkur miði áfram, okkur er að takast það verk sem við ætluðum. Við settum okkur ákveðin markmið vorið 2009 þegar skipt var um ríkisstjórn í landinu og nýr stjórnarmeirihluti tók við á þinginu. Þá settum við okkur ákveðin markmið og við höfum haldið þau í stærstu dráttum. Ég undirstrika að þær svartsýnisspár sem hér hafa verið á lofti á hverju einasta hausti um það hvað biði þessarar þjóðar ef ríkisstjórnin næði sínum málum fram hafa sem betur fer ekki ræst.

Einn þeirra gesta sem talaði á ráðstefnu í haust í Hörpu um efnahagsástandið á Íslandi, hrunið og hvernig brugðist hefði verið við því, Simon Johnson, sagði eftirfarandi á þeirri ráðstefnu, með leyfi forseta:

„Ísland hafði enga kosti og hefur enga kosti aðra en að draga úr útgjöldum og afla sér tekna. Efnahagshrunið sem varð á Íslandi var yfirþyrmandi.“

Og hann bætti við:

„Grikkland gæti farið sömu leið, og jafnvel gætu Ítalía og Frakkland fylgt þar á eftir.“

Takið eftir, við erum að tala um Grikkland sem hefur verið rætt um í fréttum í allt haust að væri jafnvel að setja Evrópska efnahagssvæðið á hliðina. Þó að það sé ekki nema lítið brot af þeirri stærð tala sérfræðingar um að Grikkland gæti farið sömu leið og Ísland fór.

„Fordæmalaust, hefur aldrei gerst áður í nokkru vestrænu ríki,“ eru ummæli sem féllu í Hörpu og eru þau sömu og efnahagssérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins höfðu uppi haustið 2008 þegar þeir komu að ástandinu eins og það var þá. Hver voru fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar haustið 2008 til að bregðast við þeim vanda sem þá blasti við? Hækka skatta og draga úr útgjöldum. Það voru viðbrögðin sem var gripið til í því fjárlagafrumvarpi sem var til umfjöllunar á þinginu fyrir þrem árum, þ.e. að fara blandaða leið, draga úr útgjöldum og auka tekjur.

Hvers vegna skerum við niður, hvers vegna drögum við úr útgjöldum? Er það einhver pólitísk stefna, eins og mér finnst sumir láta í veðri vaka, núverandi ríkisstjórnar að draga úr útgjöldum í heilbrigðiskerfinu, draga úr útgjöldum í menntakerfinu og velferðarkerfinu, að það sé beinlínis markmið, stefna sem hafi verið sett fram og sé skrifuð inn í þá lífssýn sem þeir hafa sem styðja slíka ríkisstjórn? Gæti það ekki verið nauðsyn, aðkallandi, eitthvað hafi leitt til þess og orsakað að það þyrfti að grípa til slíkra aðgerða? Ég held að við þurfum ekkert að fara mikið yfir þá hluti.

Hvers vegna öflum við okkur tekna? Með nákvæmlega sömu rökum og menn lögðust í það haustið 2008 að reyna að afla ríkinu tekna reynum við að afla okkur tekna. Til viðbótar því höfum við sem styðjum þessa ríkisstjórn og höfum lagt fram þær skattatillögur sem hafa náð fram að ganga notað skattkerfið samhliða því að afla ríkinu tekna til að dreifa skattbyrðinni með öðrum hætti en áður hefur verið gert. Við höfum notað skattkerfið sem jöfnunartæki í leiðinni og það hefur okkur tekist að vissu leyti.

Ég ætla ekki að fara mikið ofan í fjárlagafrumvarpið sjálft, þ.e. einstaka liði eins og það lítur út hjá okkur. Það hefur formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, gert ítarlega sem og aðrir fjárlaganefndarmenn auk annarra þingmanna og ástæðulaust að fara í það. Ég ætla samt að gera einn samanburð á fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012 eins og það lítur út í dag og fjárlögum ársins 2007 þegar við náðum hámarki góðærisins að margra mati.

Miðað við breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár, ef þær ná fram að ganga, lítur frumvarpið þannig út að við verjum um 43% útgjalda okkar í velferðarkerfið. Árið 2007 var þessi tala 49,3%, þ.e. hún er um 6 prósentustigum lægri núna sem hlutfall af þeim útgjöldum sem við erum að fara í. Hvernig skyldi standa á því? Skýringin er afskaplega einföld, við erum að borga hátt í 80 milljarða í vexti, það eru útgjöld sem stendur til að ráðast í á næsta ári. Þeir voru ekki árið 2007. Þá vorum við að tala um 16 milljarða vexti, rétt ríflega 4% af heildarútgjöldunum á móti tæpum 15% núna.

Ef við tökum hins vegar vaxtatölurnar út, bæði í frumvarpinu fyrir árið 2012 og vextina eins og þeir lágu fyrir í fjárlögum árið 2007, lítur málið einfaldlega þannig út að í velferðarráðuneytinu, tökum þá saman þá málaflokka árið 2007 sem nú heyra undir velferðarráðuneytið, erum við að greiða ívið meina, ég held að það muni 0,1% eða 0,2%, við skulum bara segja að það sé á sléttu, jafnhátt hlutfall til velferðarmála núna og við gerðum árið 2007, í hámarki góðærisins.

Hvað segir það okkur? Það segir okkur að þrátt fyrir þær auknu vaxtagreiðslur sem við neyðumst til að greiða vegna þess sem féll í hausinn á okkur í hruninu hefur okkur tekist að verja velferðarkerfið með þeim hætti að við höfum ekki dregið úr útgjöldum til þess samanborið við aðra málaflokka. Við höldum í horfinu miðað við það sem var hérna þegar best lét í ríkisbúskapnum, að sögn sumra.

Ef við göngum lengra í samanburðinum og berum útgjöld til velferðarmála saman við önnur lönd, eins og OECD-ríkin gera, til að bera saman útgjöld til slíkra mála, tökum inn lífeyristryggingarnar, sjúkratryggingarnar, framhaldsskólana, háskólana o.s.frv., höfum við hækkað þetta hlutfall. Við höfum hækkað hlutfall til svokallaðra velferðarmála frá því sem áður var þrátt fyrir að vaxtakostnaður hafi aukist þetta mikið. Það segir okkur að við höfum náð árangri í því sem við ætluðum okkur, þ.e. að verja velferðarkerfið umfram annað og láta aðra þætti bera aukinn þunga af hinum óumflýjanlega niðurskurði.

Það er sömuleiðis ánægjulegt að í því fjárlagafrumvarpi sem við erum að ræða núna erum við á ákveðnum vegamótum, þ.e. við höfum ráðist í ákveðna þætti, höfum aukið útgjöld til tiltekinna mála sem við höfum ekki getað gert það sem af er þessu kjörtímabili og drógum verulega úr strax haustið 2008. Ég nefni að nú stendur fyrir dyrum sérstakt átak í almenningssamgöngum. Við erum að auka þátttöku okkar í þróunarsamvinnu. Við erum að setja aukna fjármuni í átak í ferðaþjónustu og atvinnumálum. Við höfum leyst deilur ríkis og sveitarfélaga um tónlistarkennslu. Við erum að setja aukna fjármuni í flutningsjöfnun og menntamál ungs fólks og atvinnu svo nokkur dæmi séu nefnd. Þess gætir víða að aðeins sé að birta til og við farin að geta leyft okkur fleira en við áður gátum.

Á hverju byggjum við þetta fjárlagafrumvarp? Hvernig í ósköpunum halda menn því fram og hvernig rökstyðja þeir að það sé mjög veikt, það séu engar líkur á að þetta fjárlagafrumvarp gangi eftir frekar en fyrri ár, eftir því sem menn spáðu þá? Það er byggt lögum samkvæmt á þeirri þjóðhagsspá sem lá fyrir í sumar og endurskoðaðri þjóðhagsspá sem lá fyrir og var kynnt núna í lok nóvember, fyrir örfáum dögum.

Það eru margir jákvæðir þættir í þjóðhagsspánni sem mér finnst vert að við höldum til haga og leggjum á minnið. Það er ekki allt neikvætt, það er ekki allt að fara fjandans til. Þetta er ekki þjóðhagsspá sem stjórnmálaflokkarnir gefa út, hvorki stjórnarandstöðuflokkarnir né stjórnarflokkarnir. Þessi þjóðhagsspá er unnin af Hagstofu Íslands þar sem lagt er óháð mat á það sem er að gerast í samfélaginu og hvernig horfurnar eru til framtíðar.

Ef við flettum þessum þjóðhagsreikningi frá 24. nóvember sl. sést að spáð er hagvexti í ár upp á 2,6% eftir samtals 11% samdrátt á síðustu árum, í kjölfar hrunsins. Það er reiknað með áframhaldandi hagvexti á næsta ári upp á 2,4%. Nú er reiknað með að meðaltalsverðlag hækki á árinu 2011 í 4,1%, 4,2% á árinu 2012, þ.e. verðbólgumarkmiðin, og nálgist eftir það það markmið sem Seðlabankinn setur sér.

Það er reiknað með að afgangur af utanríkisviðskiptum minnki örlítið frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Sömuleiðis er reiknað með að vöxtur í innflutningi verði einhver. Það er búist við að hagvöxtur á árunum 2012–2013 dragi úr atvinnuleysi á næstu árum. Því er spáð að atvinnufjárfestingar sem hafa staðið í stað nokkurn veginn fram til ársins 2009 aukist á árinu 2011 um 16,3% og 19% árið 2012. Því er spáð að fjármálaleg skilyrði heimila og fyrirtækja fari batnandi og að skuldsetning lækki í kjölfar afskrifta og endurskipulagningar skulda.

Í helstu viðskiptalöndum Íslands er spáð hagvexti upp á 1,9% 2011 á móti 2,6% á sama ári á Íslandi, 1,5% árið 2012 á móti 2,4% hér og sömuleiðis verðum við yfir hagvaxtarspá í samanburðarlöndunum á árinu 2013. Þetta er jákvætt, ekki satt? Því er spáð að útflutningur muni aukast talsvert á þessu ári, einkaneysla sömuleiðis. Því er spáð að samningar sem gerðir voru á vinnumarkaði í sumar muni halda, m.a. vegna þess að okkur gengur betur en lá fyrir í sumar þegar Hagstofan jafnvel reiknaði með því að þetta mundi ekki ganga eins vel og á horfist núna.

Eins og ég sagði áðan er reiknað með að atvinnufjárfesting aukist um 16% á þessu ári og 19% á því næsta. Þó er ekki gert ráð fyrir stórum framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru til dæmis á Norðausturlandi og sérstaklega er tekið fram í þjóðhagsspá Hagstofunnar að það sé skilið undan og bent á það sem jákvæða óvissuþætti þó að víða séu auðvitað neikvæðir óvissuþættir, óþarfi að draga dul á það í þessari spá. Þá eru þó víða annars staðar jákvæðir óvissuþættir eins og Hagstofan bendir sjálf á varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir á Norðausturlandi, í Helguvík, Straumsvík, Búðarhálsi o.s.frv. sem eru nefnd þarna og voru nefnd á fundum okkar sem óvissuþættir sem ættu að geta komið okkur til góða á móts við annað sem gæti hugsanlega farið miður. Allt er þetta frekar jákvætt og hlutir sem ættu að liggja með okkur ef allt fer sem spáð hefur verið.

Umræðan í dag hefur mikið til snúist um tvennt, þessa ógurlegu skattstefnu ríkisstjórnarinnar sem er allt að drepa og alla að pína og kvelja til dauða nánast og svo það að hér detti ekki nokkrum manni í hug að fjárfesta, allra síst í sjávarútvegi, og að nánast engum manni detti í hug að fjárfesta hér í atvinnulífinu.

Hver er staðreyndin? Ég var að enda við að vitna í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem spáir auðvitað því sem blasir við ef menn skoða staðreyndir og tölur, rannsóknir sem eru gerðar erlendis á íslensku efnahagslífi og það sem er að gerast í kringum okkur. Víst eru menn að fjárfesta.

Á heimasíðu Eurostat, sem fylgist með fjárfestingum og efnahagslífi í Evrópulöndunum, kemur fram að á árinu 2010 hafi fjárfesting hér á landið numið um 12,9% af vergri landsframleiðslu og verði um 14,6% á yfirstandandi ári. Hagstofan segir reyndar 16%.

Því er spáð á þessari heimasíðu að fjárfesting á Íslandi verði 16% árið 2012 en Hagstofan segir reyndar 19%. Það má nefna sambærilegar tölur fyrir Bretland sem eru 14,7% fyrir árið 2010, 14,3% á yfirstandandi ári og spáð 14,4% fjárfestingu á Bretlandi á næsta ári. Í Danmörku var fjárfesting 16,6% af vergri landsframleiðslu þess lands árið 2010, 16,7% 2011 og það er spáð tæplega 17% fjárfestingu þar fyrir næsta ár. Í Bandaríkjunum var fjárfesting í fyrra 16,6% af vergri landsframleiðslu, verður 15,6% á yfirstandandi ári og því er spáð að fjárfesting þar í landi verði 16,1% af vergri landsframleiðslu þess lands á árinu 2013. Þetta er samanburður sem við höfum bæði frá Hagstofu Íslands og erlendum aðilum sem eru að rannsaka íslenskt efnahagslíf.

Því hefur sömuleiðis verið haldið fram að hér sé akkúrat enginn hagvöxtur, hér sé nánast ekkert að gerast og að það verði okkur á endanum að fjörtjóni ef hagvöxtur verður ekki meiri en hann er í dag og er spáð. Þó er óumdeilanlegt að í OECD-ríkjunum er aðeins eitt land með meiri hagvöxt en Ísland, og það er Eistland. Það er eina landið sem er með hagvöxt umfram það sem er á Íslandi í dag og umfram það sem spáð er á Íslandi á næsta ári. Þetta staðfestir Hagstofa Íslands sömuleiðis, rétt eins og erlendar stofnanir. Það er engu líkara en að þeir sem halda því fram að svo sé ekki lifi í einhverju tómarúmi, þeir kanni hvorki staðreyndir né önnur gögn og leiti sér ekki hlutlausra upplýsinga, heldur láti mata sig á einhverju sem fólk á ekki að gera. Fólk á að leita upplýsinga, kanna staðreyndir og leita helst að hlutlausum aðilum til að komast að því hvað er að gerast og alls ekki að búa sjálft til eitthvert ímyndað ástand.

Það er stundum eins og að innyflin í stjórnmálamönnum á hægri vængnum snúist við ef minnst er á skatta, sérstaklega skattlagningu fyrirtækja. Er þá skemmst að minnast þess að í tíð ríkisstjórnanna á undan þessari voru fyrirtækjaskattar lækkaðir langt niður fyrir það sem þekkist í viðmiðunarlöndunum. Markmiðið var að laða erlend fyrirtæki til Íslands í skattaskjól og síðan áttu molarnir að hrynja af þeirra borðum til okkar hinna og seðja íslenskan almenning. En það varð lítið af því og Ísland varð aldrei ríkasta land í heimi af þessari stefnu.

Nú halda menn því fram að það sé nánast verið að ganga af fyrirtækjunum dauðum með óhóflegri skattpíningu og að enginn vilji fjárfesta á Íslandi vegna einhverrar ofurskattstefnu núverandi stjórnvalda. Við skulum aðeins skoða þetta betur.

Árið 2009 greiddu öll álfyrirtækin á Íslandi, sjö, öll fyrirtækin í þessum bransa, 297 milljónir í tekjuskatt. Það er samtalan. Á sama ári greiddi hugbúnaðariðnaðurinn á Íslandi 311 milljónir í tekjuskatt af margfalt minni veltu. Á þessu sama ári, 2009, greiddi öll útgerð á Íslandi rétt tæpar 900 milljónir í tekjuskatt, það er hálft aflaverðmæti meðalfrystitogara í dag. Landbúnaður og skógrækt greiddi á því ári 240 milljónir í tekjuskatt sem er þó talsvert meira en stórmarkaðir og matvöruverslanir greiddu samtals í tekjuskatt á því ári, þ.e. 160 milljónir.

Samt fór þetta svona. Fyrirtæki löðuðust ekkert sérstaklega til þessarar skattaparadísar, það tókst í það minnsta ekki að gera Ísland að ríkasta landi í heimi. Hvernig er þá verið að búa til það skattahelvíti sem Ísland er kallað í dag af mörgum, það sé verið að kvelja fólk til útlanda, jafnvel verið að kvelja fyrirtæki úr landi út af sköttum? Því er haldið fram að launafólk flýi Ísland, sérstaklega hálaunafólk, sérstaklega þeir sem borga auðlegðarskatt eða fjármagnstekjuskatt, að það fólk flýi Ísland undan háum sköttum. Eigum við að skoða það aðeins betur?

Í nýlegri skýrslu frá KPMG International eru bornir saman tekjuskattar, mestu tekjuskattar á Íslendinga innan OECD-ríkja árið 2011. Í efsta sæti er Svíþjóð, svo koma Danmörk, Holland, Belgía, Austurríki, Japan, Finnland, Írland, Noregur, Portúgal, Kanada og í 12. sæti Ísland. Þar á eftir koma Þýskaland, Grikkland, Spánn, Nýja-Sjáland o.s.frv., Kórea, Tyrkland, Bandaríkin, Pólland, Mexíkó og áfram niður. Við erum þá væntanlega að tala um að færa skattkerfið þangað aftur, þar sem það var.

Eigum við að bera saman fjármagnstekjuskatt hér á landi og í öðrum ríkjum, hvar hann er hæstur innan Evrópu, í viðmiðunarlöndum okkar? Þar er í efsta sæti Lúxemborg, þar á eftir Danmörk, Frakkland, Svíþjóð, Finnland, Noregur, Írland, Austurríki, Þýskaland, Holland og loks Ísland í 11. sæti. Þar fyrir neðan erum við þá komin að Portúgal, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Slóvakíu, Búlgaríu, Tékklandi, Ungverjalandi og Serbíu sem eru með sama fjármagnstekjuskatt og Ísland var með fyrir þrem árum. Þar vorum við fyrir þrem árum og erum við þá að tala um að færa það til baka? Hvert er þá fólk að flýja? Hvert eru auðmennirnir að flýja undan því að þurfa að greiða fjármagnstekjuskatt á Íslandi? Eru þeir að flytja til Serbíu, Tékklands eða Slóvakíu? Það hlýtur að vera.

Þetta er nú öll skattpíningin, öll kvölin sem verið er að leggja á íslensk fyrirtæki og íslenskan almenning. Það er einfaldlega verið að færa skatta til samræmis við það sem gerist í samanburðarlöndum okkar og hefði auðvitað átt að vera þannig. Þá hefðum við kannski verið í færum til að lækka skatta sem eru auðvitað réttu viðbrögðin við efnahagserfiðleikum, sérstaklega þeim sem lenda á almenningi. En við vorum aldeilis ekki í færum til þess enda var búið að taka hér upp algjörlega flatt skattkerfi sem gagnaðist ekki þegar á reyndi og engin leið að færa niður því að við þurftum að afla okkur tekna. Það var óumflýjanlegt.

Hér ríkti fullkomið ábyrgðarleysi í fjármálum ríkisins. Á síðustu sex árum fyrir hrun fóru útgjöld ríkisins til reksturs heilbrigðisstofnana 33 milljarða umfram fjárlög hvers árs. Við þurfum ekki að rifja upp hverjir stýrðu heilbrigðisráðuneytinu á þeim árum. Síðustu þrjú árin fyrir efnahagshrun fóru útgjöld ríkisins 74 milljarða fram úr fjárlögum. Það er því alveg óhætt að halda því fram, með réttu, að það hafi nánast ríkt fullkomið stjórnleysi í rekstri ríkisins á þessum tíma og ábyrgðarleysi sem er auðvitað stærsti hluti þess vanda sem við erum að glíma við í dag og lendir á íslenskum almenningi.

Hér hefur verið talað um óvissu í fjárfestingu fyrirtækja, að það sé varla hægt að fjárfesta á Íslandi, þetta sé allt svo djöfullegt og allt hrakið í burtu, það sé verið að gera aðför að velferðarkerfinu. Við eigum að hætta, bíða, gefa okkur tvö, þrjú ár til að skoða málin, safna vöxtum væntanlega þá á meðan og sjá svo til hvernig við leysum þetta.

Hér hefur verið talað um sjávarútveg, að það þurfi að eyða óvissunni. Svo sannarlega þarf að eyða óvissunni sem er búin að vera hérna í áratugi, það verður að gera, um það held ég að við séum flest sammála. Það er talað um að það séu engar fjárfestingar í sjávarútvegi. Þó var hér bara fyrir nokkrum mánuðum stærsta fjárfesting í sjávarútvegi sem hefur verið gerð á Íslandi í 10–15 ár, fjárfesting upp á 14,5 milljarða á einu bretti. Sjávarútvegsfyrirtæki eru víst að fjárfesta, hér er verið að viðhalda skipum. Hér ganga útgerðirnar ágætlega og það er methagnaður í útgerð á þessu ári. Ef við förum inn á þær upplýsingasíður sem veita upplýsingar um hagnað, bæði í útgerð og öðrum fyrirtækjum, kemur þetta í ljós. Er ekki fínt að útgerðinni gangi vel? Ég held að það sé ágætt fyrir þjóðarbúið og við eigum ekki að gera lítið úr því. Útgerðin hagnast vel, hún er að fjárfesta. Það er fullt af peningum í greininni og langur vegur frá því að enginn þori að fjárfesta í atvinnulífi á Íslandi.

Heildarvelta í öllum atvinnugreinum á Íslandi á milli júlí og ágúst 2010 og sömu mánaða 2011 jókst um 11,6%. Samt er því haldið fram að enginn sé að fjárfesta í fyrirtækjum á Íslandi og að það dragi heldur þróttinn úr fyrirtækjarekstri og veltunni hér. Það er aldeilis ekki ef staðreyndir eru skoðaðar. Það er alltaf gott að gera það.

Við vitum nokkurn veginn úr hvaða umhverfi við vorum að koma, virðulegi forseti. Það eru aðallega tveir ræðumenn sem vöktu athygli mína í dag, annars vegar hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og hins vegar hv. þm. Illugi Gunnarsson. Mér fannst á ræðum þeirra eins og þeir væru að tala um fjárlög næsta árs og efnahagslífið eins og við værum að koma af lygnum sjó, eins og værum ekki að koma úr neinu róti, hér væri allt nokkurn veginn með eðlilegum hætti og þetta snerist bara um vilja til verksins, það væru pólitískar ákvarðanir sem þyrfti að taka og meira væri þetta ekki. Það fannst mér mjög dapurlegt að hlýða á og ætla að vona þeir hafi verið í einhverjum pólitískum skylmingum en hafi ekki beinlínis meint það sem þeir sögðu, í það minnsta ekki allt. Ég ætlast til talsverðs meira af þeim félögum, þessum þingmönnum sem ég nefndi. Þessar tvær ræður voru í hópi þeirra ótrúverðugri í dag, margar voru ágætar eins og ég sagði áðan, aðrar ekki.

Sú saga er sögð í ævintýrinu um Lísu í Undralandi, sem flestir kunna, að þegar hún kemur að gatnamótum er þar staddur köttur og hún spyr hann: Geturðu nokkuð verið svo vinsamlegur að segja mér hvaða leið ég á að fara? Hann horfir á hana og segir: Ja, það fer eftir því hvert þú ætlar að fara. Hún svarar að það skipti ekki nokkru máli hvert hún fari. Hann svarar auðvitað á móti: Nú, þá skiptir heldur ekki máli hvaða leið þú ferð. Þetta er oft notað sem dæmisaga um það þegar við stöndum á einhvers konar gatnamótum, spyrjum ráða en höfum ekki hugmynd um hvert við eigum að fara og er kannski nokkuð sama um það.

Ég segi þetta vegna þess að sú umræða sem hefur verið í gangi, ekki bara í dag heldur á undanförnum árum, um fjárlagafrumvarpið og samfélagsgerðina sem við viljum búa í, hefur að sumu leyti skilað árangri, þ.e. ég held að við vitum það betur sem þjóð núna hvers konar samfélag það er sem við viljum búa í. Ég held að við séum flest sammála um að verja heilbrigðiskerfið, að hér þurfi að vera opinbert heilbrigðiskerfi. Ég held að þjóðin hafi aldrei verið meira sammála um það en núna. Það er slegin skjaldborg um það víða um land. Og ég held að við séum flest orðin sammála um að hér þurfi að vera sterkt opinbert menntakerfi, við viljum flest verja það með einhverjum hætti, bæði fólk í stjórnmálum og almenningur. Og ég held að flestir séu orðnir þeirrar skoðunar í dag að það þurfi að vera sterkt og öflugt opinbert velferðarkerfi. Um þetta er þjóðin nokkuð sammála og um þetta reynir hún að standa vörð, að sjálfsögðu.

Þetta var ekki alltaf svona og það er ekkert víst að þetta verði alltaf svona. Hér skiptir máli hvert við ætlum og hvað er fram undan. Við vitum hvaðan við komum. Við getum ímyndað okkur hvar við lendum ef þeir sem koma inn á þing eftir nokkur ár og skipa núna vaska sveit Sambands ungra sjálfstæðismanna ná sínum ýtrustu kröfum fram. Við fengum sent ágætisskjal sem heitir Forgangsröðum rétt. Við sjáum ábyggilega þetta fólk í þingsal eftir nokkur ár; tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex ár. Margir þingmenn þess flokks sem hér eru nú hafa gengið í gegnum þessi samtök og hingað upp og kannski eigum við eftir að sjá þessar tillögur í fjárlögum. Hvernig hljóða þær?

SUS vill afleggja efnahagsrannsóknir á Íslandi. Það vill leggja af sóknaráætlanir til eflingar atvinnulífinu. Það vill hætta við samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið í stjórnsýslu. — Hver vill nú svoleiðis, siðferðileg viðmið?

Það ætlar að leggja af atvinnuuppbyggingu um vistvæn störf. Það ætlar að leggja niður Rannsóknarstofnun Háskólans, Nýsköpunarsjóð, Þekkingarsetur Vestmannaeyja, Þekkingarsetur Suðurlands og öll fræðasetur á landinu. Það ætlar að leggja niður Náttúruminjasafn Íslands og Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, norræna samvinnu ætlar það að slá af, æskulýðsmál og ýmis íþróttamál vill sambandið ekki sjá heldur. Allt að 100% niðurskurður.

Ungir sjálfstæðismenn ætla á vegum utanríkisráðuneytisins að slá af allt sem heitir mannréttindamál, Þróunarsamvinnustofnun ætla þeir að leggja af. Þeir leggja til að þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi verði sett á núllfjárlög, það er aldeilis reisn yfir því. Þeir vilja leggja af Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, matvælarannsóknir og rannsóknir í sjávarútvegi. Samband ungra sjálfstæðismanna leggur til að Slysavarnaskóla sjómanna verði lokað, hafnarframkvæmdum hætt, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga settur á núllfjárlög og framkvæmdaáætlun jafnréttismála þurrkuð út. Ungir sjálfstæðismenn vilja að lýðheilsusjóður verði lagður af, sömuleiðis Jafnréttisstofa og að sérframlag í fæðingarorlof verði sett á núll.

Þetta eru tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna, líka að Tækniþróunarsjóður verði aflagður, það verði hætt við átak til atvinnusköpunar, lögð af byggðaáætlun, Byggðastofnun, Ferðamálastofu lokað, hætt við niðurgreiðslu á húshitun og jöfnun kostnaðar vegna dreifingar raforku. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson nefndi áðan í ræðu sinni að hún verði sett á núllfjárlög, henni verði hreinlega hætt. Svo mætti lengi telja úr þessu ágæta og skemmtilega skjali sem ég skemmti mér við að glugga aðeins í í dag.

Þetta er líka alvörumál. Eins og ég sagði vitum við hvaðan við komum. Lísa í Undralandi vissi örugglega hvaðan hún var að koma en hún hafði ekki hugmynd um hvert hún var að fara. Hún spurði til vegar og henni var alveg sama hvert hún færi. Okkur á ekki að vera sama um það hvert við förum. (Gripið fram í.) Og ef við ætlum að fá slíkar sendingar inn á þing, eins og maður getur óttast þar sem margir eiga greiða leið hingað inn sem þarna eru og hafa verið í gegnum tíðina, vitum við nokkurn veginn hvað bíður okkar. En þetta er kannski meira í gamni sagt en alvöru, ég reikna ekki með að nokkrum heilvita manni detti í hug að fylgja að öllu leyti eftir þessum hugmyndum sem ég vísaði í. Þetta er kannski meira gert í anda róttækra ungra áhugamanna um stjórnmál og helst til að hrista upp í umræðunni en ekki af mikilli alvöru. Þó held ég að öllu gamni fylgi talsverð alvara.

Að lokum þetta, virðulegi forseti: Ég held að það fjárlagafrumvarp sem við erum að ræða hér í dag sé gott sem og þær breytingar sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að verði gerðar á því, breytingar um aukin útgjöld upp á 4 milljarða, helminginn af því til velferðarmála. Þetta er byggt á ágætisrökum. Það vísar okkur inn í framtíðina. Það er óumflýjanlegt að ráðast í aðgerðir af því tagi sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu varðandi það að afla okkur tekna og það er óumflýjanlegt að draga úr útgjöldum. Við hljótum að geta verið sammála um það þó að við getum kannski verið ósammála um hvar á að afla teknanna og hvar á að draga úr útgjöldunum. Þetta eru tillögur okkar sem höfum unnið með þetta mál í fjárlaganefnd frá því í byrjun október. Að vel athuguðu máli eftir mikla umræðu, fjölda gesta og margar umsagnir eru þetta þær tillögur sem við leggjum til, meiri hluti fjárlaganefndar.

Ég vil svo að lokum þakka fyrir ágæta samvinnu í fjárlaganefnd við vinnslu þessa fjárlagafrumvarps. Þó að við höfum ekki náð saman að lokum um frumvarpið og breytingartillögur á því var vinnan þar mjög markviss að mér fannst, hún fór ágætlega fram, samkomulag í nefndinni var gott og ég tel að fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út í dag sé vel unnið af hálfu fjárlaganefndar og tilbúið til afgreiðslu.