140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

staða sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórninni.

[15:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það hafa verið dæmalausar aðdróttanir hæstv. forsætisráðherra í garð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á síðustu dögum. Í raun og veru má kalla það aðför hæstv. forsætisráðherra að starfandi ráðherra í eigin ríkisstjórn, aðdróttanir sem ekki á að líða forsætisráðherra þjóðarinnar. Hæstv. forsætisráðherra á að koma fram á Alþingi og staðfesta hvort hún treysti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir þeim málaflokki sem honum var falinn undir verkstjórn hennar, eins og svo frægt er orðið, eða treystir hæstv. forsætisráðherra hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki fyrir verkinu?

Maður veltir því líka fyrir sér í ljósi hótana hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji sig hafa eitthvert boðvald yfir þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Er það þannig að lúti Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki vilja hæstv. forsætisráðherra verði þessu stjórnarsamstarfi slitið?

Nú hafa 150 einstaklingar, þungavigtarmenn á bak við ríkisstjórnina, skrifað undir yfirlýsingu þar sem aðdróttunum hæstv. forsætisráðherra er hafnað og skoraði er á forustu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að standa vörð um Jón Bjarnason í ráðherraembætti sínu. Ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð stendur einu sinni á sínu þegar kemur að málefnum þess flokks, þ.e. ef Jón Bjarnason verður áfram ráðherra í umboði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og lýtur ekki vilja hæstv. forsætisráðherra, mun þá þessi ríkisstjórn ekki eiga margra daga ólifaða?

Ég ítreka þá spurningu sem hæstv. forsætisráðherra verður að svara í ljósi aðdróttana (Forseti hringir.) hennar á síðustu dögum: Treystir hæstv. ráðherra Jóni Bjarnasyni?